Átaksverkefni til að sporna við atvinnuleysi

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:40:20 (4417)

2003-03-05 15:40:20# 128. lþ. 89.9 fundur 591. mál: #A átaksverkefni til að sporna við atvinnuleysi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Því miður hefur atvinnuleysi í vetur aukist mun hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Um þessar mundir eru rúmir 6.200 einstaklingar skráðir atvinnulausir. Það er um 4% af vinnuaflinu. Nýboðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Reykjavíkurborgar um flýtingu opinberra framkvæmda munu fljótt breyta þessari þróun, og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi munu á næstu árum kalla eftir miklu vinnuafli. Í ljósi atvinnuástandsins hafa Vinnumálastofnun og Atvinnuleysistryggingasjóður að undanförnu aukið mjög framboð vinnumarkaðsúrræða til atvinnulausra en skipulagning þeirra og umsjón er á hendi svæðisvinnumiðlana sem heyra undir Vinnumálastofnun og eru í öllum landsfjórðungum.

Atvinnuleysistryggingasjóður hefur á þessu ári 112 millj. kr. til ráðstöfunar til vinnumarkaðsúrræða og á næstu vikum verður lögð sérstök áhersla á að kynna hin svokölluðu átaksverkefni, sérstök verkefni á vegum svæðisvinnumiðlunarinnar, fyrir stofnunum ríkis og sveitarfélaga og fyrirtækjum í landinu. Það hafa gengið vikulega auglýsingar um þessa möguleika nú í þrjár eða fjórar vikur. Þetta úrræði miðast við að fá stofnanir og fyrirtæki til að ráða til sín starfsfólk af atvinnuleysisskrá til þess að sinna sérstökum verkefnum sem ella hefðu ekki verið unnin. Kynningarbæklingar hafa verið gefnir út um þetta og um önnur úrræði svæðisvinnumiðlana sem dreift verður markvisst til viðskiptavina.

Markmiðið með þessum aðgerðum er að á næstu mánuðum muni um 3.000 manns sem skráðir eru atvinnulausir taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum fyrir atbeina svæðisvinnumiðlana. Er þar átt við menntunarúrræði sem svæðisvinnumiðlanirnar standa fyrir, námskeið á frjálsum markaði sem veittur er fjárstyrkur til að sækja, starfsleitar- og hópráðgjafarnámskeið, starfsþjálfunarúrræði hjá fyrirtækjum og átaksverkefni sem verið er að kynna sérstaklega um þessar mundir. Átaksverkefnið er í því fólgið að ef fyrirtæki eða sveitarfélag vill ráða fólk af atvinnuleysisskrá fær fyrirtækið atvinnuleysisbætur sem þessu fólki hefðu annars tilheyrt og bætir síðan við fjármunum til þess að borgað sé eftir töxtum.

Viðbrögð eru þegar farin að aukast og nú liggja nokkrar umsóknir fyrir á svæðisvinnumiðlunum til afgreiðslu. Þá vil ég líka nefna Fjölsmiðjuna sem er undir stjórn Þorbjarnar Jenssonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara í handbolta, en hún tekur við unglingum sem eru atvinnulausir, dottnir út úr skóla og vinna sig inn í skóla aftur. Þar fer fram mjög merkileg starfsemi og ágætt samvinnuverkefni sem við eigum við Rauða krossinn. Fyrir utan þau úrræði sem beinlínis er beint að atvinnulausum hefur félmrn. í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð lagt til stóraukna fjármuni í starfsmenntun, bæði með starfsemi starfsmenntaráðs félmrn. og með stuðningi við fræðslusjóði verkafólks og sjómanna, Starfsafl, Landsmennt og Sjómennt. Um 70 millj. kr. munu fara í þessi verkefni á þessu ári.

Þessir sjóðir styðja nú margháttaða fræðslustarfsemi sem tvímælalaust styrkir stöðu þeirra á vinnumarkaði sem hennar njóta.

Ég nefndi áðan að ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að flýta þeim verkum sem þegar hafa verið ákveðin og í öðru lagi er leitað samþykktar Alþingis með fjáraukalögum til að ráðast í framkvæmdir fyrir 6,3 milljarða til þess að vinna bug á atvinnuleysi. Þá verður ráðist í stórframkvæmdir á Austurlandi, Kárahnjúkavirkjun, álverksmiðju í Reyðarfirði, Norðlingaölduveitu og stækkun Norðuráls. Hæstv. sjútvrh. hefur sett reglugerð sem á að stuðla að því að afli verði ekki fluttur óunninn úr landi. Þá má geta um viðbrögð sveitarfélaga sem hafa verið mjög myndarleg. Reykjavíkurborg ætlar að framkvæma upp á 3 milljarða, Hafnarfjarðarbær 1 milljarð. Reykjanesbær er með miklar framkvæmdir og allir eru þessir staðir og fleiri reyndar að þessu til að reyna að bæta atvinnuástandið. Þegar þessi verk verða komin í gang má reikna með miklu betra atvinnuástandi þegar kemur fram á sumarið og á næstu árum.