Átaksverkefni til að sporna við atvinnuleysi

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:45:20 (4418)

2003-03-05 15:45:20# 128. lþ. 89.9 fundur 591. mál: #A átaksverkefni til að sporna við atvinnuleysi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er eftir atvikum bærilega ánægður með þau, kannski að öllu leyti nema einu, hæstv. ráðherra kom ekki inn á þær reglur sem um þessi átaksverkefni gilda en ég vék aðeins að. Ég vil meina því miður að þær séu það takmarkandi að það geti á köflum torveldað að þetta úrræði nýtist mönnum. En það er vel að vekja á því athygli að það er til staðar og þarna eru möguleikar, meira að segja ákveðnir fjármunir úr að spila til vinnumarkaðsaðgerða eða úrræða, hvað sem það er nú kallað, þessar 112 millj. kr., og það sem mér gengur m.a. til er að vekja athygli á þessum möguleika. Ég hef orðið þess var að mönnum er ekki alls staðar ljóst að þessir möguleikar séu til staðar.

Ég tel reyndar að hæstv. ríkisstjórn hefði átt að tengja við þetta möguleikana á einhverjum stofnstyrkjum eða stuðningi ef tiltekin sérstök verkefni væru þannig vaxin að þeim mætti hrinda af stað með samspili þessa tvenns, þ.e. að ráða fólk sem gengur atvinnulaust á grundvelli þessara svæðisvinnumiðlunarúrræða og að stjórnvöld kæmu jafnframt að því að styrkja slíkar framkvæmdir, hjálpa til í sambandi við stofnkostnað eða hvað það nú væri sem í hlut gæti átt, og þá mætti ná með þessu býsna miklum árangri. Gallinn við þær stórframkvæmdir sem hæstv. ráðherra talaði hér um, bæði flýtingu framkvæmda nú og annað sem í vændum er, er að þar er um tiltölulega einhæf störf að ræða, aðallega fyrir byggingariðnað og verktaka og auðvitað að miklu leyti vélavinnu þannig að upphæðirnar blekkja í þeim efnum. Þar eru ekki endilega á ferðinni jafnmannaflsfrekar framkvæmdir og menn kynnu að ætla. Það er því ástæða til að hafa áhyggjur af því að atvinnuleysi verði áfram viðvarandi um hríð, a.m.k. meðal kvenna, meðal ýmissa sérhæfðra starfsstétta og meðal námsmanna þegar þeir koma út úr skólunum í vor. Af því er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur.