Innihaldslýsingar á matvælum

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 18:01:26 (4429)

2003-03-05 18:01:26# 128. lþ. 89.14 fundur 640. mál: #A innihaldslýsingar á matvælum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[18:01]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar var þáttur á ríkisútvarpinu, á Rás 1, viðtal við Ara V. Axelsson, sérfræðing í ofnæmissjúkdómum og Svövu Líf Edgarsdóttur, sérfræðing á matvælasviði Umhverfisstofnunar. Þessir sérfræðingar ræddu báðir um merkingar á matvælum, m.a. út frá hættunni af ofnæmi sem er nokkuð algengt, sérstaklega hjá börnum. Matvælaofnæmi er algengasta ofnæmið hjá börnum og unglingum og því mjög mikilvægt að hafa merkingar á öllum umbúðum á matvælum það skýrar að þeir sem þurfa á að halda geti lesið sér til og verið vissir um innihald þeirra matvæla sem þeir neyta. Þetta á sérstaklega við um börnin sem eru mjög viðkvæm.

Í þessu viðtali kom fram að við stöndum okkur ekki eins vel og aðrar Norðurlandaþjóðir hvað varðar merkingar á matvöru. Ég tel að við þurfum að bæta úr því.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á því að innihaldslýsingar á matvælum séu í lagi og heilbrigðisfulltrúar sveitarfélaganna eiga að annast eftirlitið. Ég veit að nýlega hefur verið dreift upplýsingum til verslana til að vekja starfsfólk verslana til umhugsunar um þessi efni. En það er ekki nóg gagnvart neytendum.

Það þarf að brýna íslensk matvælafyrirtæki, sérstaklega þau sem eru að hefja framleiðslu, til að hafa nákvæmar innihaldslýsingar á vöru sinni. Eins er mjög mikilvægt, eftir því sem fram hefur komið, að hafa áhrif á að breyta reglum Evrópusambandsins sem við erum beygð undir, þ.e. að undanskilja ekki innihaldslýsingu á vörutegundum sem ná ekki fjórðungi af magni vörunnar.