Úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Löggildingarstofu

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 18:13:46 (4433)

2003-03-05 18:13:46# 128. lþ. 89.15 fundur 646. mál: #A úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Löggildingarstofu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[18:13]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Nú nýlega lauk Ríkisendurskoðun úttekt á starfsemi Löggildingarstofunnar. Niðurstöður þeirrar úttektar hafa að hluta til ratað í fjölmiðla. Greinilegt er að þar er nokkur vinna fram undan við að fara yfir það mál. Ég ætla í sjálfu sér ekki að taka upp stöðu Löggildingarstofunnar út frá þeim hugsanlegu kæruatriðum eða brotum sem þar kunna að hafa verið framin. Ég óska eftir því að hæstv. iðnrh. gefi þinginu upplýsingar um viðbrögð hennar við þessari úttekt og um hver staða Löggildingarstofunnar er í raun í dag. Hverjar eru framtíðarhorfur þessarar stofnunar?

Fram hefur komið að stjórn Löggildingarstofunnar lagði til í júní að stofnunin yrði hreinlega lögð niður. Ég veit ekki til þess að verið sé að vinna að því enda þarf starfsemi þessarar stofnunar að halda áfram og á mörgum sviðum að eflast, t.d. rafmagnseftirlitið. Ég tel að nú um stundir sé staða Löggildingarstofunnar mjög veik, ekki bara fjárhagslega heldur skortir hana möguleika á að sinna verkefnum sínum auk þess sem starfsfólk stofnunarinnar býr við mikla óvissu.

Ég tel mikilvægt að tryggja þá starfsemi sem Löggildingarstofan annast í dag, að þeirri starfsemi sé áfram tryggður rekstrargrundvöllur. Þar hef ég sérstaklega hag rafmagnseftirlitsins í huga. Samkvæmt þeim skýrslum sem komið hafa frá þeirri deild er rafmagnseftirlitið í raun í molum. Þær úttektir sem gerðar hafa verið virðast a.m.k. mjög alvarlegar. Það vantar mikið á að rafmagnsöryggis sé gætt. Ég tel að við þurfum að huga vel að þessari stofnun og því ber ég fram þessa spurningu.