Úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Löggildingarstofu

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 18:19:01 (4435)

2003-03-05 18:19:01# 128. lþ. 89.15 fundur 646. mál: #A úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Löggildingarstofu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[18:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þau mál sem upp hafa komið hjá Löggildingarstofunni eru svo alvarlegs eðlis að það er eðlilegt að gera grein fyrir þeim á Alþingi. Hins vegar ber að leggja áherslu á, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, Þuríðar Backman, að þessi mál eru sér á parti og ber að forðast að blanda þeim saman við þann alvarlega skipulagsvanda sem þröngvað var upp á Löggildingarstofu á sínum tíma. Sem betur fer gerist það ekki oft að slysin eru beinlínis skipulögð. En þannig var það nú með Löggildingarstofuna þegar rafmagnseftirlitið í landinu var einkavætt og eftirlitið fært undir Löggildingarstofu. Þau mál þarf að sjálfsögðu að taka til gagngerrar endurskoðunnar. Það verður ekki þessi ríkisstjórn eða sú ríkisstjórn sem nú situr sem mun hafa það verk með höndum. Sem betur fer hillir nú undir að hún ljúki störfum. En ég legg áherslu á að þau málefni verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.