Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 10:56:49 (4442)

2003-03-06 10:56:49# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, JB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[10:56]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003, núna að vori. Ég vil í upphafi máls míns lýsa ánægju minni með að hér skuli vera lagt fram frv. til fjáraukalaga að vori eða rétt fyrir þinglok. Það hefur verið skoðun mín að það eigi að vera föst regla að gefa út fjáraukalög að vori, þingið afgreiði þau áður en sumarfrí þar hefst til þess að taka þá á fjárveitingum eða leiðréttingum á tekjum sem gætu hafa komið upp í fjárlögum með fjáraukalögum eins og lög kveða á um.

Ég hef flutt um þetta frv. til laga, einmitt um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins, þar sem áréttað er að fjáraukalög skuli gefin út með reglubundnum hætti. Þess vegna fagna ég því að hér skuli það vera gert. Þetta er í fyrsta skipti í þau fjögur ár sem ég hef setið á þingi sem þetta er gert og ég hygg að sú umræða sem hefur verið tekin hér á undanförnum þremur þingum um það að gefa út fjáraukalög, standa við lagafyrirmæli hvað varðar lagasetningar um fjárveitingar og fjárlög, hafi borið þann árangur að þetta frv. skuli vera lagt fram. Ég vona að þetta verði til þess að hér eftir verði það fastur siður af hálfu Alþingis að leggja fram frv. til fjáraukalaga að vori og svo aftur að hausti, þetta verði reglubundið, en annars komi fjáraukalög fram eftir því sem þörf er á og lög kveða á um. Það er alveg sérstök ástæða til að hæla hæstv. fjmrh. fyrir þetta framtak.

[11:00]

Ég vil geta þess að ég var orðinn nokkuð smeykur um að ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. legðu ekki fram með frv. Hinn 25. febrúar sl. skrifaði ég, sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln., formanni fjárln. bréf þar sem ég spurðist fyrir um hvað liði vinnu við fjáraukalög. Ég benti á þá lagalegu skyldu sem hvílir á þinginu, að leggja fram frv. til fjáraukalaga þegar þyrfti. Þá höfðu nýlega verið gefnar yfirlýsingar um verulegar breytingar á fjárlögunum. Ég skrifaði fjárln. bréf og spurði hvort ekki kæmi fram fjáraukalagafrv. Ég fagna því að sú skuli raunin.

Hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir inntaki þessa frv. Eins og hæstv. ráðherra sagði er þetta frv. fyrst og fremst bundið ákveðnum aðgerðum í atvinnu- og byggðamálum og tíndar til ákveðnar yfirlýsingar sem hæstv. ríkisstjórn gaf um fjárveitingar til ákveðinna þátta. Þar hafa fyrst og fremst verið aukin framlög til samgöngumála og til vegagerðar en einnig til byggingar menningarhúsa og byggðaaðgerða. Allt eru þetta í sjálfu sér hin þörfustu mál og ekkert nema gott um þau að segja. Sum þeirra hefðu að vísu getað farið á sjálf fjárlögin en það er þó gott að fá þetta fram.

Varðandi framlag til atvinnuþróunarátaks þar sem lagt er til að stofnað verði nýtt viðfangsefni, atvinnuþróunarátak með 700 millj. kr. framlagi og gert ráð fyrir að Byggðastofnun ráðstafi fjármagninu til verkefna á sviði atvinnuþróunar á landsbyggðinni, vildi ég gjarnan spyrja hæstv. iðnrh. hvort ekki sé jafnframt verið að taka á fjárhagsvanda atvinnuþróunarfélaganna sem hæstv. ráðherra gaf vilyrði fyrir sl. haust við undirbúningsvinnu fjárlaga. Hún gat ekki staðið við þau orð við afgreiðslu fjárlaganna. Þá skorti verulega á þær fjárveitingar sem atvinnuþróunarfélögin höfðu vænst. Þau höfðu vænst aukinna fjárveitinga og fengið góð fyrirheit sem ekki var staðið við við afgreiðslu fjárlaga í fyrra. Verður ekki hugað að því að bæta þessa fjárhagsstöðu atvinnuþróunarfélaganna?

Ég minnist þessa af því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks framsóknarmanna, er hér. Hann gerði athugasemdir við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin. Hann lét að því liggja að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við fyrirheit sem hv. þm. taldi hafa verið gefin í þeim efnum að styrkja fjárhag atvinnuþróunarfélaganna. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort ekki sé alveg pottþétt af hálfu ríkisstjórnarinnar að hluti af þessu fjármagni fari beint til að styrkja verkefni og stöðu atvinnuþróunarfélaganna.

Einnig skiptir máli við umfjöllun um þetta mál í fjárln. hvaða stefnu eða áherslur hæstv. ríkisstjórn hefur varðandi skiptingu þessa fjár. Því er ekki að leyna að landshlutar eins og Vestfirðir, Norðurland vestra, þ.e. Húnavatnssýslur, Skagafjörður, Dalasýsla, Snæfellsnes og Vestfjarðakjálkinn hafa verið afskiptir í stefnumörkun og stuðningi af hálfu hins opinbera við uppbyggingu og eflingu atvinnulífs og búsetu. Þessir landshlutar hafa tvímælalaust orðið afskiptir í þeim efnum. Þar gæti enn sigið á ógæfuhliðina ef ekki verður tekið myndarlega á og ég vil því inna hæstv. iðnrh. eftir því hvort ekki fylgi af hálfu ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar markvissar áherslur og leiðbeiningar um að fjármagn sem veitt er til atvinnuþróunarátaks, 700 millj. kr., sé fyrst og fremst beint á þetta landsvæði og kannski á norðausturhorn landsins sem einnig hefur orðið afskipt. Eiga Skagafjörður, Húnavatnssýslur, Strandir og Vestfirðir allir, Dalasýsla og Snæfellsness ekki að njóta ákveðins forgangs við eflingu og styrkingu atvinnulífs með því framlagi sem hér er verið að ræða? Ég nefni einnig norðaustursvæðið. Mér finnst skipta miklu máli hvaða skilaboð hæstv. ríkisstjórn vill senda í þessari umræðu varðandi auknar fjárveitingar til atvinnuþróunarátaks.

Þetta frv. fer til hv. fjárln. Þar gefst nefndinni tækifæri til að óska eftir upplýsingum um stöðu annarra málaflokka sem hafa verið ræddir í þinginu og samþykkt að þurfi fjármagn til. Ég minnist t.d. ummæla hæstv. heilbrrh. á Alþingi í gær um málefni barna- og unglingageðdeildar sem þá var til umræðu og er afar mikilvægt mál í þjóðfélaginu. Hann sagði þá um þær aðgerðir sem grípa þyrfti til og þingheimur virtist sammála um að grípa þyrfti til, með leyfi forseta:

,,Þær kosta fjármuni sem ég þarf að vinna að því að tryggja.``

Þetta sagði hæstv. heilbrrh. í umræðunni um málefni barna- og unglingageðdeildar og þingheimur virtist sammála um að þar skyldi úr bæta. Ég þykist vita að enginn ágreiningur verði um að taka þetta mál inn í fjárln. og fylgja eftir góðum hug þingsins hvað það varðar svo ég minnist á mál sem nýlega hefur verið rætt.

Það hefur verið minnst á sjúkrahúsmálin. Ég tel einboðið að við skoðum líka stöðu sjúkrahúsanna í þessu tilviki. Það er ekki til að styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni ef skera þarf niður starfsemi á sjúkrahúsum, fækka þar fólki og segja upp. Það er mikil þversögn við þann góða vilja sem þetta fjáraukalagafrv. endurspeglar, þ.e. að vinna að þörfum og mikilvægum verkefnum og styrkja jafnframt atvinnulíf. Ef við horfum upp á æpandi þversagnir á öðrum sviðum er vinnan af hálfu ríkisstjórnarinnar ekki trúverðug. Ég er þess fullviss að það sé eindreginn vilji ríkisstjórnarinnar að þær aðgerðir sem gripið verður til verði í raun til að láta gott af sér leiða og styrkja atvinnulíf. Ég er viss um að fyrirsögn eins og í blaðinu Feyki, um að heilbrigðisstofnunum á Norðurl. v. sé gert að skera niður um tugi milljóna króna á árinu og segja upp fólki, eða eins og stendur í blaðinu Feyki, með leyfi forseta:

,,Okkur er ætlað samkvæmt samningi við ríkið að standa undir ákveðinni þjónustu en ég sé ekki að hægt sé að verða við því með þeim fjárveitingum sem okkur er ætlað.``

Í þessari frétt er rætt um að 25 millj. kr. vanti á Sjúkrahúsið á Sauðárkróki til að standa undir þeirri starfsemi sem þar hefur verið og komi þar ekki til fjárveitingar muni þurfa að beita þar uppsögnum. Ég þykist vita að í takt við þann mikla og góða vilja sem hæstv. ríkisstjórn sýnir með frv. til fjáraukalaga til aðgerða í atvinnu- og byggðamálum þá láti hún ekki svona lagað viðgangast.

Virðulegi forseti. Það er ánægjuefni að taka þetta mál fyrir í fjárln. og taka á þeim þáttum sem tíndir eru til í fjáraukalagafrv. og öðru sem tengist aðgerðum í atvinnu- og byggðamálum. Það er ánægjulegt að sjá frv. með þessum titli koma fram og við skulum vona að við fáum þá að taka upp þau mál sem þar eru brýnust.