Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:12:33 (4444)

2003-03-06 11:12:33# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:12]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé einhver misskilningur hjá hæstv. ráðherra að atvinnuþróunarfélögin hafi þurft þetta fjármagn til eigin rekstrar. Þau þurfa það til fjölbreyttrar atvinnuþróunarstarfsemi sinnar og þátttöku í að efla atvinnulífið. Til þess skortir atvinnuþróunarfélögin verulega fjármagn.

Ég vil áfram inna hæstv. ráðherra eftir því hvort ekki muni liggja fyrir, um leið og þetta frv. fer til fjárln., hugmyndir iðnrh. og hæstv. ríkisstjórnar um ráðstöfun þessa fjár til atvinnusköpunar og atvinnuþróunarátaks. Ég er viss um að Alþingi vill vita af því og hafa eitthvað um það að segja. Það er alveg klárt. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hugmyndir ríkisstjórnarinnar komi ekki fram við þessa umræðu. Það væri ákaflega eðlilegt. Einnig vil ég inna hana eftir því hvort ekki verði horft sérstaklega til atvinnulífs, byggða og búsetu á Norðvesturlandi, Skagafirði, Húnavatnssýslum, Vestfjörðum, Dölum, Snæfellsnesi og norðausturhorninu. Þeir landshlutar verða tvímælalaust afskiptir í þeim aðgerðum sem nú eru fyrirhugaðar eru í atvinnuuppbyggingu annars staðar. Við sem förum um þessi svæði og tölum við íbúana höfum frétt að það er mjög brýnt að koma þar myndarlega inn og styðja við frumkvæði fólksins á þessum landsvæðum.