Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:18:31 (4447)

2003-03-06 11:18:31# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003 vegna aðgerða í atvinnu- og byggðamálum. Vissulega er það fagnaðarefni þegar brugðist er við sívaxandi atvinnuleysi með fjármagni til atvinnusköpunar og aðgerða í byggðamálum en það sem mig langar til að velta fyrir mér í þessari umræðu er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Ég minni á að byggðamál eru ekki síður málefni þéttbýlis en dreifbýlis.

Eins og komið hefur fram og kemur fram hér er verið að selja ríkiseigur fyrir nokkra milljarða, og þeim fjármunum er varið til byggingar menningarhúsa og vegagerðar. Þegar menn skoða nánar hvernig þessum fjármunum til vegagerðar er skipt niður kemur í ljós að þar sem atvinnuástandið er einna verst er minnst fjármagnið til framkvæmda. Á sjöunda þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá og 70% þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu. Með þessum aðgerðum munu ekki nema nokkur hundruð þeirra fá vinnu, þá að mestum líkindum mest karlar og þá iðnaðar- og verkamenn miðað við að hér á að fara út í vegagerðina.

Ég minni á að konur eru um það bil helmingur atvinnulausra og þær virðast ekki eiga mikið skjól hjá ríkisstjórninni miðað við áætlanir um atvinnusköpun í þessu ástandi.

Þegar menn skoða einnig nánar hvernig fjármagninu er skipt niður á landsvæði kemur í ljós að það eru aðeins 18% af því fé sem ætlað er til vegagerðar sem kemur til höfuðborgarsvæðisins þar sem 70% atvinnulausra eru. Ef maður kíkir enn nánar á þetta eru það ekki nema tæpar 400 millj. sem koma í hlut Reykvíkinga, þ.e. um þriðjungur þess fjár sem á að koma í vegagerð hér. Þetta kemur mér á óvart í ljósi þess að fjmrh. er þingmaður Reykvíkinga, sömuleiðis forsrh. og formaður hins stjórnarflokksins vill verða þingmaður Reykvíkinga. Svona eru skiptin á þeim bæ.

Ég get tekið undir að menn hefðu e.t.v. átt að setja meira fjármagn í umferðaröryggismál. Hér á undan mér nefndi hv. þm. Einar Már Sigurðarson svarta bletti sem ég tek vissulega undir að þurfi að taka á, svörtum blettum í umferðinni. (KHG: Líka svartir blettir ...) En ég hefði gjarnan viljað sjá hér aukið fé koma til annarra þátta, t.d. velferðarkerfisins. Hér bíða þúsundir eftir félagslegum íbúðum. Hefði ekki mátt koma einhverjum hluta af þessu fé þangað? Um leið og þar væri uppbygging væri verið að leysa brýnan vanda þúsunda á höfuðborgarsvæðinu.

Ég minni líka á þekkingarþorpið í Vatnsmýrinni. Hér er verið að setja fjármagn í menningarhús á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Það er svo sem ágætt þó að ég hafi orðið vör við það að menn hafi kannski ekkert verið of kátir með þessa peninga, a.m.k. heyrðist það einhvers staðar að þeir hefðu frekar viljað fá peningana í annað en menningarhús. En þarna er verið að reyna að efna hluta af loforði sem gefið var fyrir síðustu kosningar.

Ég minni á það að fram undan eru stórframkvæmdir úti á landi og þá hefur verið talað um að höfuðborgarbúar verði að vera umburðarlyndir og jafnvel draga saman framkvæmdir á þeim tíma sem mestar framkvæmdirnar eru fyrir austan. Í ljósi þess hefði átt að koma meira til skiptanna á höfuðborgarsvæðið.

Ég vil einnig nefna það hér að ég sakna þess að í þessu frv. til fjáraukalaga skuli ekki vera fjárveiting til barna- og unglingageðdeildar sem við ræddum í gær. Það hefur komið í ljós að það vantar 212 millj. til þess að leysa bráðan vanda sem barna- og unglingageðdeildin á í um þessar mundir og það er algjörlega óljóst hvort þeir peningar muni koma til að leysa þann vanda. Það hafa komið fram tillögur sem eru mjög góðar og ættu að geta leyst vandann en þær duga skammt ef ekki kemur til fjármagn. Ég hefði haldið í ljósi þess vilja sem kom fram hjá hæstv. heilbrrh. í gær að þeir fjármunir hefðu komið fram í frv. til fjáraukalaga áður en þingi lyki.

Ég vil einnig nefna það að líkt og félagi minn, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, sakna ég þess að Almannavarnir skuli ekki vera nefndar í frv. og það er ýmislegt fleira sem maður saknar úr frv., t.d. ýmis loforð Sjálfstfl. frá því á síðasta kjörtímabili og fram á þetta. Þar má nefna íþróttahús við Menntaskólann í Hamrahlíð sem hv. þm. Björn Bjarnason marglofaði þegar hann var menntmrh. en ekkert hefur verið gert í. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvort það loforð sé gleymt og grafið.

Herra forseti. Ég vildi nefna þessi atriði sérstaklega vegna þess að við erum ekki sátt við það hér á höfuðborgarsvæðinu hvernig ríkisstjórnin forgangsraðar því fjármagni sem kemur til atvinnu- og byggðamála. Við munum skoða það á meðan þetta þingmál er til umfjöllunar hér og afgreiðslu að gera brtt. við frv. í ljósi þeirrar forgangsröðunar sem hér kemur fram. Það er ekki hægt að sætta sig við það að meiri hluti þjóðarinnar sé svona afskiptur í þessu frv. Við verðum að hafa það hugfast að það á að fara að setja mikla fjármuni út á landsbyggðina á næstu árum og höfuðborgarbúar hafa verið mjög umburðarlyndir að því er varðar afskipta hluta af vegafé undanfarin ár því að menn hafa verið með hlutfallslega lítið af fjármagni til vegagerðar á höfuðborgarsvæðið. Nú tel ég sem þingmaður Reykvíkinga að röðin sé komin að höfuðborginni.