Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:26:42 (4448)

2003-03-06 11:26:42# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:26]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. tók upp gamalkunnugan tón og reyndi að ýfa upp deilur milli höfuðborgar og landsbyggðar. Ég vil segja um það að ég tel óþarft verk af hálfu þingmannsins að beina málflutningi sínum í þessar áttir og taka þar undir málflutning talsmanns síns flokks sem lét þau orð falla að tilgangur hennar með því að stíga inn í landsmálin væri sá að gæta sérstaklega að hagsmunum Reykjavíkurborgar og Reykvíkinga. Það er nefnilega algjörlega ósatt mál, herra forseti, að þessi ríkisstjórn hafi eitthvað sérstaklega hlunnfarið Reykvíkinga í ákvörðunum sínum, hvort heldur litið er til fjárfestinga eða reksturs.

Og af því að hv. þm. var að tala um svarta bletti í umferðarmálum vil ég leyfa mér að segja að þessi málflutningur þingmannsins setur svartan blett á tunguna á þingmanninum. Hv. þm. á að vanda sig meira í málflutningi en fram kom í ræðu hennar. Fyrir það fyrsta hefur hlutur höfuðborgarsvæðisins farið vaxandi í stofnvegafé undanfarin ár. Í öðru lagi hefur gríðarlegum fjármunum verið varið til atvinnuuppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu fyrir atbeina ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda. Þar vil ég í fyrsta lagi minna á deCODE. Þrír bankar sem þá voru í eigu ríkisins keyptu hlutabréf í deCODE fyrir 6 milljarða króna, herra forseti, segi og skrifa 6 milljarða. Það er hærri upphæð en samanlagt hefur farið til atvinnumála á landsbyggðinni í áraraðir. Þetta var gert til að byggja upp atvinnufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og því til viðbótar voru sett sérstök lög til að tryggja grundvöllinn undir starfsemi þessa fyrirtækis.