Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:28:54 (4449)

2003-03-06 11:28:54# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli því sem hv. þm. segir hér að það sé verið að ýfa upp deilur milli þéttbýlis og landsbyggðar. Það er þvert á móti. Auðvitað verðum við að vinna saman. Eins og kom fram í ræðu minni áðan höfum við á höfuðborgarsvæðinu sýnt því mjög mikið umburðarlyndi að vegafé á undanförnum árum hafi verið meira til landsbyggðarinnar heldur en höfuðborgarsvæðisins. Við höfum haft skilning á því. Þetta er því alls ekki rétt. Það þarf ekki annað en að skoða samgönguáætlun undanfarin ár til að sjá að höfuðborgarsvæðið hefur borið skarðan hlut frá borði og hefur ekki verið mikið kvartað undan því úr ræðustól Alþingis.

Núna er röðin komin að okkur því að hér er mest atvinnuleysi. Hér er 70% þess atvinnuleysis sem er í landinu og nú þurfum við að fá aukið fjármagn, sérstaklega í ljósi þess að framkvæmdirnar á Austurlandi verða á næstu árum og þá þurfum við að taka tillit til þess á höfuðborgarsvæðinu. Þá þurfum við e.t.v. að draga eitthvað saman seglin í ljósi þess að þar eru aðalframkvæmdirnar. Í ljósi þess ætti auðvitað að koma aukið fjármagn núna til höfuðborgarsvæðisins á meðan ástandið er eins og það er.

Ég ætla ekki að fara að ræða um deCODE við hv. þingmann.