Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:30:27 (4450)

2003-03-06 11:30:27# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:30]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda þingmanninum á að þær framkvæmdir sem eru að fara í gang fyrir austan og þær framkvæmdir sem eru að fara í gang í vegamálum á næstu mánuðum kalla eftir heilmiklu vinnuafli og reyndar meira vinnuafli en við getum náð fram innan lands á þessum tíma. Um innflutning á erlendu vinnuafli verður því að ræða að einhverju marki. En eitt er alveg ljóst í því. Langstærstur hluti vinnuaflsins við þessar framkvæmdir mun koma héðan af höfuðborgarsvæðinu. Öll stærstu verktakafyrirtæki landsins eru á höfuöborgarsvæðinu. Halda menn að þau muni ekki bera sig eftir verkum, hvort heldur er í vegagerð, virkjanaframkvæmdum, byggingu álvers eða tengdum framkvæmdum? Að sjálfsögðu. Þess vegna er nokkuð augljóst að sá fjöldi starfa sem mun skapast vegna þessara framkvæmda mun fyrst og fremst koma fólki til góða á höfuðborgarsvæðinu. Á því leikur enginn vafi og á það hefur margoft verið bent af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil bæta við einu máli enn til þess að undirstrika það að ríkisstjórnin hefur verið að taka ákvarðanir sem byggja upp atvinnulíf í höfuðborginni. Ég vil nefna væntanlegt menningarhús í Reykjavík. Það er fyrir atbeina ríkisvaldsins sem tekst að byggja upp ekki bara menningarhús heldur líka stóran hótelrekstur á höfuðborgarsvæðinu. Ríkið mun leggja til rúma 3 milljarða kr. af skattfé almennings, ef ég man rétt 3,3 milljarða kr., til að koma þessu húsnæði upp og þeirri atvinnustarfsemi sem henni tengist í gang. Það mun skapa feiknarlegan fjölda starfa, herra forseti.