Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:34:07 (4452)

2003-03-06 11:34:07# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:34]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru ótrúlega sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Þessi ræða hefði að einhverju leyti verið rétt fyrir 20 árum en ekki í dag. Hvað gerist í fyrsta lagi núna? Hvað er búið að gerast núna? Verðbréfafyrirtæki fara í gang að selja hlutabréf til að fjármagna þetta. Hverjir vinna þar? Konur og karlar. Frábærar konur og frábærir karlar selja þessi bréf. Síðan fara verkfræðistofur og tæknifræðingar að hanna og skipuleggja útboð. Síðan koma tilboð frá verktökum. Þetta eru allt meira og minna tæknifræðingar og verkfræðingar, háskólafólk, og jafnt konur sem karlar. (Gripið fram í: Ekki jafnt.)

Einhvern tíma í sumar fara ýtukarlarnir í gang, ýtukarlarnir sem því miður eru enn þá flestir karlmenn þó að engin ástæða sé fyrir því önnur en fordómar, hugsanlega kvenna sjálfra. Þeir fara úr störfum hérna í Reykjavík. Þeir voru kannski að baka pitsur í atvinnuleysinu og þeir fara austur að ýta og þá losna störfin á pitsustöðunum við að baka pitsurnar. Svona er vanþekkingin mikil á kerfinu.

Talandi svo um landsbyggðina og Reykjavík, hvar skyldi nú öll þessi starfsemi eiga sér stað, þ.e. verkfræðingarnir, verðbréfasalarnir o.s.frv.? Hvar er Landsvirkjun? Er hún á Vestfjörðum? Ó nei, hún er í Reykjavík og öll þessi störf valda mikilli og aukinni atvinnu í Reykjavík og ég gleðst sem þingmaður Reykvíkinga.