Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:52:58 (4454)

2003-03-06 11:52:58# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:52]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom víða við í ræðu sinni og auðvitað væri forvitnilegt að ræða ýmislegt við hann. Ég verð að takmarka það í þessu andsvari en kem væntanlega inn á fleiri þætti í ræðu minni síðar.

Það vakti athygli mína að hv. þm. ræddi m.a. um það fjármagn sem fer hér aukið til vegagerðar. Ég sakna þess þó að hv. þm. kom ekkert inn á það sem ég lagði töluverða áherslu á í ræðu minni, hina svörtu bletti víða um land. Forvitnilegt væri að heyra viðhorf hans til þess hvort það væri ekki ráð, eins og ég ræddi um í ræðu minni, að tekið yrði eitthvert ákveðið hlutfall af þeim fjármunum sem settir eru til þess að fara sérstaklega yfir hina svörtu bletti, það væri byrjað á því gagnvart þessu og síðan haldið áfram inn í vegáætlun.

Það var einnig athyglisvert þegar hv. þm. átti hér býsna góðan ræðustúf um hina vel heppnuðu byggðastefnu sem ríkisstjórnin hefur náð að framfylgja á höfuðborgarsvæðinu. Hann nefndi ýmis dæmi þar um. Ég saknaði þó þess sem hv. þm. hefur oft gert og vildi spyrja hann hvort hann hefði nokkuð breytt um skoðun í þeim efnum. Ég er algjörlega sammála því sjónarmiði sem ég hef heyrt hv. þm. halda fram, að það sé nauðsynlegt að við setjum fram byggðastefnu sem taki tillit til alls landsins, þ.e. að höfuðborgarsvæðið sé með í þeirri byggðastefnu þannig að horft sé heildstætt á hlutina, það sé ekki gert eins og ríkisstjórnin sem hann hefur stutt hefur stundað á undanförnum árum, að vera með sértæka byggðastefnu á höfuðborgarsvæðinu. Í raun og veru er það eina byggðastefnan sem hefur gengið upp. Ég tel að við eigum að geta lært töluvert af þeirri byggðastefnu sem hefur verið stunduð á höfuðborgarsvæðinu og eigum að geta fært hana svolítið yfir landið. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki skipt um skoðun og að jákvæðni hv. þingmanns, sem oft hefur ekki verið til staðar gagnvart ríkisstjórninni sé ekki eingöngu vegna þess að það er örstutt í kosningar.