Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:59:34 (4457)

2003-03-06 11:59:34# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi svarta bletti í vegakerfinu og á landsbyggðinni skildi ég hv. þm. þannig að hann vildi afmarka þá og leggja fé til þeirra á undan öðrum verkefnum. Ég hef út af fyrir sig ekki neina skoðun aðra en að þingmenn í hverju kjördæmi eiga að sjálfsögðu að halda áfram að skipta sínu vegafé og velja þá úr þau verkefni og raða þeim niður sem þeir telja rétt að ráðast í. Ég hef út af fyrir sig engar athugasemdir við það að menn geri það með þeim hætti sem þingmaðurinn lagði til. Ef hann hefði hins vegar meint hvort það ætti að hafa sérstaka fjárveitingu til þessara kafla sem hann kallar svarta bletti finnst mér það út af fyrir sig koma til greina, og taka það þá af óskiptu fé. Þá yrðum við líka að taka sambærilega bletti á höfuðborgarsvæðinu til þess að gæta jafnræðis í því.

Ég vil segja um þá byggðaáætlun sem vitnað er til að þegar hún var undirbúin sat ég í starfshópi um hana. Mér fannst á skorta í lokaskjali að allar þær áherslur kæmu fram sem ég vildi. Ég sendi því greinargerð til iðnrh. um það sem ég vildi bæta við. Sú afgreiðsla sem varð í þinginu var sú pólitíska niðurstaða að staðfesta þær tillögur sem komu fram í áætlun ríkisstjórnarinnar auk þess sem viðbót var svo komin fram í áliti meiri hluta iðnn., og það samanlagt er byggðaáætlunin. Síðan gerðu Vestfirðingar eigin byggðaáætlun af því að þeir töldu, og höfðu nokkuð til síns máls að mínu viti, að nokkuð skorti á áhersluna varðandi Vestfirði, og það kom skýrt fram hjá hæstv. iðnrh. í morgun að hún lítur til þeirrar áætlunar líka.