Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 12:01:51 (4458)

2003-03-06 12:01:51# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, RG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[12:01]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í umræðuna sem Kristinn H. Gunnarsson vakti í ræðu sinni um atvinnuuppbyggingu þessarar ríkisstjórnar almennt. Ég ætla fyrst og fremst að bera fram spurningar til hæstv. fjmrh. En ég ætla hins vegar að koma inn á einn afmarkaðan þátt sem tengist Framsfl. og atvinnuuppbyggingu. Það er frá upphafsdögum og aðdraganda þeirrar ríkisstjórnar sem Framsfl. myndaði með Sjálfstfl.

Muna menn eftir kosningatrikkinu vorið 1995 þegar Framsfl. sagðist ætla að búa til 12 þúsund störf? Framsfl. ætlaði að búa til 12 þúsund störf. Muna menn eftir auglýsingunum þar sem litlir krakkar og unglingar birtust á sjónvarpsskjánum og sögðu: Ég ætla að verða kennari. Ég ætla að verða flugfreyja. Ég ætla að verða verkfræðingur. Ég ætla að verða hjúkrunarkona. Þetta var hugnæmt og fallegt. Stór orð voru höfð uppi í trausti þeirra tækifæra sem Framsfl. vissi þá að fólust í EES-samningnum. Það var nefnilega staðreynd sem ekki náði vel í gegn því miður að þetta vor var byrjaður hagvöxtur hér á landi. Hann var byrjaður vegna þeirrar vinnu sem hafði farið í gang og náðst fram í ríkisstjórninni á kjörtímabilínu á undan, þ.e. að ná fram og lögfesta EES-samninginn og þar með skapa þau tækifæri sem hver hugsandi maður gerði sér grein fyrir að var að finna í þessum samningi. Þess vegna var svo auðvelt að senda bara inn auglýsingar um hvað öll börnin og unglingarnir ætluðu að verða. Allir vissu að nú var land tækifæranna að ganga í garð. Þannig var það.

En stundum kemur að einhverjum reikningsskilum. Nú heyrist æ víðar manna á meðal: Bíddu nú við. Ef það dygði bara að Framsfl. færi í ríkisstjórn til að búa til störf, eins og það hljóðaði svo einfaldlega, hvernig má þá vera að á meðan Framsfl. er í ríkisstjórn séu að glatast störf í stórum stíl? Af hverju afstýrir Framsfl. ekki í ríkara mæli því að störf glatist? Það er ekki mjög langt síðan Guðmundur Árni Stefánsson fór í umræðu við hæstv. félmrh. út af yfirvofandi atvinnuleysi og hæstv. félmrh. lýsti því yfir að hér væri ekkert atvinnuleysi og engin alvara á ferðum. Hann hafði ekki gert sér grein fyrir því að það var orðið mjög mikið atvinnuleysi meðal háskólamenntaðs fólks. Hvers vegna? Vegna þess að þessi hópur valdi, þegar hann missti vinnuna, að fara í framhaldsnám, fara á námskeið, í viðbótarnám og gera eitthvað til að bæta stöðu sína á þeim tíma sem virtist vera að renna upp með þröng á vinnumarkaði og samdrætti. Þetta vil ég segja um atvinnuuppbyggingu Framsfl. Ég er ekki viss um að Framsfl. eigi auðvelda tíma fram undan á komandi vikum fram að kosningum þrátt fyrir þá 4,7 milljarða sem eru til umræðu í dag.

Þá ætla ég að víkja að erindi mínu við hæstv. fjmrh. Þetta eru nefnilega einstaklega áhugaverð fjáraukalög. Allt liggur eiginlega fyrir, engar óvæntar uppákomur eru í þessu frv., ó nei, nema þá helst að við erum ekki að tala um 6 milljarða heldur 4,7 vegna þess að áheyrendur heyrðu í fréttum þann dag sem komið var fram með þennan góða boðskap að fara ætti í atvinnuátak --- þá var alltaf talað um 6 milljarða. Ég er alveg sannfærður um að flestallir sem á hlýddu töldu að leggja ætti til 6 milljarða á þessu ári. En þeir eru 4,7. Ég ætla ekki að gera lítið úr því vegna þess að sátt er um að fara í atvinnuátak. Nú eru 4,7 milljarðar til skiptanna.

Umræðan um úthlutun fjármagnsins hefur staðið í margar vikur í þjóðfélaginu og í fjölmiðlum. Hún hefur ekki farið fram í þessum sal fyrr en í dag. Þingmenn hafa ekki haft neina aðkomu að þessum ákvörðunum, ekki þingmenn stjórnarandstöðunnar. Þingmenn, líka stjórnarandstöðunnar, hafa haft aðkomu að vegagerðarþættinum á fundum sínum með Vegagerðinni. Þá var þegar búið að tilkynna og ákveða skiptinguna og fjárhæðina. Þingmenn fengu að koma að því ef það voru einhverjar breytingar eða lagfæringar á því sem menn voru búnir að hugsa sér. Um það ætla ég að spyrja hæstv. fjmrh., þ.e. að þessi vinnubrögð vekja spurningar og hljóta að vekja okkur þingmenn alla til umhugsunar.

Ég sagði áðan að almennur stuðningur væri við að fara í átak og eins í mínum flokki við að reyna að bregðast við útlitinu og afstýra stærri áföllum með því að gera eitthvað strax. En spurningin sem vaknar er hvernig staðið var að þessu. Ég spyr: Hvernig var haldið á undirbúningi þessarar tillögu. Við vitum að sumir þingmannahópar voru á fundum hjá Vegagerðinni daginn áður en tilkynningin kom. Daginn áður en tilkynningin kom eða daginn þar á undan var umræða hér um vegáætlun eða samgönguáætlun.

Við hverja var rætt þegar ríkisstjórnin ákvað að kynna að hún ætli að skipta 6 milljörðum kr. á kjördæmin, 6 milljörðum sem eru bara 4,7 á þessu ári? Við hverja var rætt? Það er nefnilega mjög farsælt að ná víðtækri samvinnu þegar fara á í svona átak. Í raun er mjög farsælt að hafa víðtækt samráð þegar taka þarf á mikilvægum málum í þinginu. Það sem fyrst og fremst skilur okkur frá öðrum þingum er að í stórum málum, þegar reyna á að ná fram nýrri lagasetningu í stórum og miklum málaflokkum, þá er reynt að ná víðtækri sátt í nágrannaþingum okkar, ekki hér.

Ég er upptekin af þessu. Þegar taka þarf á þarf að hafa samráð. Ég bendi auðvitað á þingið sem er mjög mikilvægt. Þegar fara á í framkvæmdir af þeim toga sem hér hafa verið kynntar hlýtur að vera mikilvægt að eiga viðræður við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Alþýðusambandið og jafnvel hagsmunahópa á einhverju sérstöku sviði til að átta sig á hvar mikilvægast er að bregðast við, hverju maður skapar betri aðstæður síðar með því að setja í það fjármagn núna.

Af því að ég hef nefnt stjórnarandstöðuna og að við erum óvön því að við okkur sé rætt, virðulegi forseti, ætla ég að vekja athygli á því að Sverrir Hermannsson var í viðræðuþætti í morgunútvarpinu. Hann er sá þingmanna sem lengst man aftur í tímann til starfa Alþingis. Hann gerði það eiginlega að meginmáli sínu að hann hefði miklar áhyggjur af því hvernig Alþingi hefði þróast og hversu veikt það væri orðið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þegar ég tala um stjórnarandstöðuna getur því vel verið að ég eigi að tala um þingið allt. Ég hef ekki hugmynd um hvort yfirleitt var talað við þingmenn úr stjórnarflokkunum þegar úthlutun þessara fjármuna var undirbúin. Þess vegna er ég upptekin af því við hverja var rætt og hvernig skipting fjárins var ákveðin.

Mér finnast þau vinnubrögð sem ég hef orðið vitni að sem áhorfandi afskaplega gamaldags. Rokið er til og ákveðið að nú sé tíminn til að gera eitthvað. Ákveðinni fjárhæð, 6 milljörðum --- 1,6 reyndar árið 2004 --- 4,7 milljörðum er skipt hér. Fingri er brugðið á kjördæmin og milljörðunum skipt.

Um morguninn þennan sama dag áður en fréttamannafundur var haldinn, áður en fréttin barst, ræddi ég við við formann öldrunarráðs. Hún fór yfir það með mér hversu erfitt ástand væri varðandi byggingu hjúkrunarheimilanna og þungann í hjúkrunarmálum aldraðra. Fjárskortur hrjáir framkvæmdir í gangi. Mikilvægt hefði verið, hefði þess verið nokkur kostur, að fá viðbótarfjármagn í þær framkvæmdir sem þegar var búið að ákveða samt og ríkið væntanlega leggja blessun sína yfir með því að viðurkenna slíkar framkvæmdir í Framkvæmdasjóði, sé það gert. Þarna var t.d. tækifæri til að gera átak sem beindist ekki bara að þessum hópi með því að skapa hjúkrunarrými fyrir fólk sem bíður og skiptir ekki bara máli fyrir allar þær fjölskyldur sem eiga í erfiðleikum meðan fólk bíður heima eftir rými á slíkum stöðum heldur væri það líka gífurlega mikilvægt fyrir Ríkisspítalana sem ég er reyndar nýbúin að heimsækja. Þar hafa menn áhyggjur af því hversu mörg legurými eru bundin á þessu tæknisjúkrahúsi sem er allt of dýr kostur fyrir almenn legurými. Skoðun á því að setja t.d. ákveðið fjármagn til að flýta framkvæmdum í gangi sem tefjast af því að fjármuni vantar hefði líka getað tekið á vanda Ríkisspítalanna. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh.: Var þetta skoðað eða voru menn ákveðnir í að peningar sem átti að setja í framkvæmdir ættu alls ekki að fara í þess konar byggingar sem sneru að velferðinni eða þessum þætti sem mörgum ber þó saman um að er sá málaflokkur sem verður í umræðunni og kastljósi verður beint að á þessu kosningavori? Var skoðað að bæta ástand í framhaldsskólum þar sem byggingarframkvæmdir bíða?

Ég minnist t.d. áralangs þrýstings nemenda Hamrahlíðarskóla, þar sem íþróttaaðstöðu skortir, beiðna þeirra um úrræði og þess að kallað væri eftir að hafist yrði handa við að byggja íþróttahúsið. Þeir sem til þekkja telja að slík bygging hefði ekki kallað á neinn stórrekstur ef hafist hefði verið handa við byggingu íþróttahúss við þennan mjög svo fjölmenna framhaldsskóla í Reykjavík. Var rætt um þessa hlið? Var þetta eitthvað skoðað? Var skoðað hvað það þýddi að fara í byggingarframkvæmdir almennt í ríkari mæli þegar menn voru að skipta með sér fjárhæðinni eða voru menn allan tímann ákveðnir í að fara eingöngu í vegaframkvæmdir og svo þessi menningarhús sem þó eru illa undirbúin?

[12:15]

Ræddu menn í ríkisstjórninni átak í byggingu leiguíbúða? Við ræddum um þau mál um daginn. Einnig var rætt um slíkt átak fyrir tveimur árum. Þá var hæstv. félmrh. bjartsýnn á að hægt væri að ná samvinnu við sveitarfélögin, verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina um sameiginlegt átak til að byggja leiguíbúðir. Þetta er óleystur vandi í samfélaginu. Var í alvöru skoðað hvar atvinna skapaðist, miðað við þau orð sem féllu í umræðunni í morgun hjá hv. þm. Pétri Blöndal? Hann benti á að atvinnan skapaðist ekki endilega í því kjördæmi sem peningarnir væru eyrnamerktir. Var það rætt í ríkisstjórninni hverjar væru bestu samfélagsaðgerðirnar eða hittust menn á skyndifundi, ákváðu að nú væri ástæða til að gera eitthvað og skelltu út 6 milljörðum?

Takið eftir fjárhæðinni, 6 milljörðum. 6 milljarðar sem maður skellir út í fréttunum eru miklu flottari tala en 4,7 milljarðar. Hittust menn á skyndifundi í ríkisstjórninni og skelltu út 6 milljörðum með því að drepa fingri á kjördæmin án þess að tala við kóng eða prest? Þetta er það sem ég vil ræða um við hæstv. fjmrh. varðandi vinnubrögð. Ég bíð spennt eftir því að fá að vita hvort fjmrh. leiðir mig í allan sannleikann um hvernig ríkisstjórnin stóð að málum. Ekki virðist Vegagerðin, sem höndlar með stærsta hluta fjármagnsins, hafa vitað mikið um þessi mál daginn áður en tilkynningin kom, miðað við umræður á fundum Vegagerðarinnar þá dagana.

Mig langar mjög mikið að spyrja hæstv. fjmrh. um annað. Eru þetta peningarnir sem alltaf áttu að fara í vegagerð, peningar sem ákvörðun var tekin um í ríkisstjórninni og kynnt fyrir allnokkru síðan, að fjármagn sem kæmi inn fyrir sölu ríkisfyrirtækja ætti að fara í vegaframkvæmdir, að eyrnamerkja ætti þá í vegaframkvæmdir? Eins konar samgöngupeningar áttu að koma inn fyrir sölu ríkisfyrirtækjanna. Er núna verið að nota samgöngupeningana tvisvar? Nýja átakið til atvinnusköpunar, eru það vegagerðarpeningarnir sem áttu að fara í samgöngumál? Ef þetta eru peningarnir sem boðað hafði verið að ættu að fara í samgöngumál, að ætti að eyrnamerkja samgöngumálum, vegagerð, jarðgöngum og brúm, er spurningin hvort einnig sé verið að nota samgöngupeningana í menningarhúsin? Er verið að kippa einum milljarði af samgöngupeningunum og setja í menningarhús? Hvert er ríkisstjórnin að fara í þessum ákvörðunum. Hvað er að marka yfirlýsingarar sem hún hefur gefið og er að gefa þessa dagana?

Aðalspurning mín í þessari umræðu er: Hvernig komust menn að þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir? Við hverja var ráðgast og voru yfirleitt viðhöfð lýðræðisleg vinnubrögð í þessu þýðingarmikla máli?