Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 12:34:57 (4460)

2003-03-06 12:34:57# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[12:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frv. til fjáraukalaga sem tengist sérstöku átaki í atvinnu- og byggðamálum, átaki sem ríkisstjórnin gerði samþykkt um þann 11. febrúar sl. að farið skyldi í. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þingflokksformanns Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að auðvitað er skynsamlegt að fara í aðgerðir til að draga úr og vinna gegn atvinnuleysinu sem hefur farið vaxandi undanfarna mánuði. En 6,3 milljarðar á tveimur árum er há upphæð, en það er sú upphæð sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að fari í þetta átak. Og eins og hér hefur komið fram í ræðum hv. þm. er um það deilt hvort forgangsröðun ríkisstjórnarinnar varðandi verkefnin, sem ákveðið hefur verið að þessir peningar renni til, sé hin eina rétta.

Í þessu sambandi hafa menn gagnrýnt áhersluna á nýframkvæmdir í vegamálum og byggingarmálum og hafa komið inn á gagnrýni sem lýtur að kynjahlutfalli þeirra sem mögulega fengju störf við hæfi við þetta átak. Ég tek undir þá gagnrýni, herra forseti. Hér er ekki sýnilegt að tekið hafi verið tillit til þess að stór hluti atvinnulausra er einmitt konur og það kannski ekki endilega úti á landsbyggðinni, heldur ekki síður hér á suðvesturhorninu þar sem þéttbýlið er mest. Ég held því að það sé alveg tilefni til þess að skoða þetta átak í stærra samhengi og skoða þar með hvort kynjunum sé gert jafnhátt undir höfði í þessum efnum. Ég sé ekki að svo sé, herra forseti, og tek þess vegna undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á þennan þátt málsins.

Annað sem hefur verið sérstaklega gagnrýnt í umræðunni er skortur á fjármagni í svokallaða svarta bletti eða sérstaka slysastaði í vegakerfinu. Og þó að ég taki heils hugar undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar um það að ég styðji samgöngubætur og ég styðji það að samgöngubætur séu gerðar af skynsemi og að peningum sé dreift jafnt á milli þéttbýlis og dreifbýlis vil ég hafa nokkur orð um úrbætur varðandi sérstaka slysastaði í umferðinni. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að á þskj. 1014 hef ég lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um þetta efni. Þar kem ég einmitt að því hvort hæstv. samgrh. telji það ekki geta komið til greina að verja ákveðnum hundraðshluta þeirrar upphæðar sem ríkisstjórnin hefur nýverið ákveðið að setja í framkvæmdir í vegamálum einmitt til lagfæringa á svokölluðum svörtum blettum eða sérstökum slysastöðum í vegakerfinu eða til annarra aðgerða sem aukið geta umferðaröryggi.

Nú er þess skemmst að minnast, herra forseti, að hér í þingsölum var rædd umferðaröryggisáætlun ríkisstjórnarinnar sem á að gilda næstu ár, ég man ekki hvort það er til ársins 2006 eða hvort hún á að gilda lengur, en í öllu falli er hún það plagg sem þingmenn lýstu almennt ánægju með á síðasta þingi. Óánægjuröddin varðandi skort á fjármagni til umferðaröryggisáætlunarinnar var reyndar líka hávær í þeirri umræðu. Í fjárlagaumræðu sl. haust reyndu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að vekja athygli á því að umferðaröryggisáætlunin, sem er metnaðarfullt plagg í sjálfu sér, kostar fjármuni. Hún útheimtir fjármuni en þeir eru ekki til staðar. Þessi gagnrýni hefur verið viðvarandi síðustu mánuðina. Og enn þá verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með ríkisstjórnina, að þegar allt í einu eru til fjármunir og það er gert metnaðarfullt átak í þessum efnum skuli ekki vera sérmerktir fjármunir nákvæmlega til þessara þarfa, að leiðrétta sérstaka slysastaði í vegakerfinu. Þessir slysastaðir eru til staðar í vegakerfi höfuðborgarinnar en ekki síður í dreifbýlinu og sannleikurinn er sá að ef skoðuð er arðsemi umferðarframkvæmda, arðsemi framkvæmda við umferðarmannvirki, eru þetta framkvæmdirnar sem skila mestum arði, langsamlega mestum arði. Þess vegna gagnrýni ég ríkisstjórnina fyrir það að ekki skuli hafa verið afmarkaðir sérstakir fjármunir í þessu átaki til að leiðrétta sérstaka slysastaði. Ég vil eiginlega fá svör: Hvers vegna var það ekki gert? Hvers vegna setti ríkisstjórnin ekki sérstaklega eyrnamerkta fjármuni út úr þessari köku allri til þessara þarfa? Það er vitað mál að Vegagerðin hefur ekki nema um það bil 100 millj. til þessara þarfa á hverju ári, og er það, samanborið við 5 milljarða í heildarpúllíuna, Nýframkvæmdir Vegagerðarinnar, sáralítið, sérstaklega þegar litið er til þeirrar miklu arðsemi sem af gæti hlotist, og þeirra harmleikja sem við gætum sparað okkur ef við færum í aðgerðir af þessu tagi. Ég hefði svo gjarnan viljað sjá, herra forseti, að hér hefði verið lögð áhersla á framkvæmdir af þessu tagi, bæði í dreifbýli og hér innan hðfuðborgarsvæðisins. Ég spyr hvort ekki sé hægt að gera bragarbót, hvort ekki megi klípa einhvern ákveðinn hundraðshluta af kökunni til að setja nákvæmlega í verkefni af þessu tagi.

Þá hefur einnig verið gagnrýnd hér sú mikla áhersla á nýframkvæmdir, og að það séu eingöngu byggingarframkvæmdir og vegagerð sem hljóti náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar þegar fara á í átak af þessu tagi. Um forgangsröðunina vil ég hafa nokkur frekari orð, og tek þá undir með þeim sem hafa vakið athygli á því að vísinda- og rannsóknastarfsemi í landinu hefur verið fjársvelt á undanförnum árum. Þess er skemmst að minnast, herra forseti, að þegar farið var í gegnum þrjú viðamikil frv. á þessu þingi, og reyndar á því síðasta líka, um Vísinda- og tækniráð, um opinberan stuðning almennt við vísindarannsóknir og um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, voru þær gagnrýnisraddir sem heyrst hafa úr þessum stóli sömuleiðis mjög háværar, þ.e. það hefur lítið að segja að breyta fyrirkomulaginu á stuðningi við rannsókna- og vísindastörf ef ekki á að setja aukna fjármuni í þennan málaflokk. Í ljósi þess hversu háværar gagnrýnisraddirnar voru hér fyrir örfáum vikum úr þessum ræðustóli lýsi ég sömuleiðis yfir vonbrigðum mínum með að ríkisstjórnin skuli þá ekki hafa getað séð tækifæri hér til þess að auka fjármuni til rannsókna- og vísindastarfsemi.

Nú hefur það gerst í millitíðinni, herra forseti, að Vísinda- og tæknisjóður hefur úthlutað í síðasta sinn til verkefna á sviði rannsókna og vísinda. Það er athyglisvert að skoða upphæðirnar sem sjóðurinn hafði til úthlutunar, við rekum augun í það að samtals voru veittar 370 millj. kr. til 175 verkefna. Af 6,3 milljörðum sem ætlaðir eru í þetta átak ríkisstjórnarinnar til að bæta úr í atvinnumálum og til að styrkja byggðamálin eru 370 millj. kr. sáralág upphæð. Sérstaklega vek ég athygli á því að af þessari köku sem veitt var úr Vísinda- og tæknisjóði voru einungis 12,5 millj. kr. sem fóru til nýrra verkefna í hugvísindum og einungis 15 millj. kr. sem fóru í rannsóknir innan félagsvísinda. Þetta eru einmitt þær greinar sem ég hafði mörg orð um úr þessum ræðustóli að ættu undir högg að sækja í úthlutunum til vísinda- og rannsóknamála og hér kemur í ljós að heildarúthlutunin til nýrra verkefna á þessu sviði er afar lág í krónum talið. Ég hefði viljað sjá, herra forseti, að ríkisstjórnin áttaði sig á samhenginu hér, áttaði sig á því að atvinnuleysi hefur aukist mikið hjá ungu menntafólki, hlutfallslega mest þegar hlutfallstölur eru skoðaðar á síðustu missirum, og þess vegna hefði ég talið svo gífurlega mikilvægt að ríkisstjórnin víkkaði sjóndeildarhring sinn þegar ákveðið er að fara í þetta átak og að hún hefði sett ákveðinn hundraðshluta í vísinda- og rannsóknastarfsemi.

Það er kannski ekki úr vegi, herra forseti, að vekja athygli á því að eitt af því sem kvartað hefur verið hvað háværast undan að skorti fé til núna hér á landi eru grunnrannsóknir, t.d. í náttúruvísindum. Og í öllum þeim yfirvofandi framkvæmdum sem hefur verið unnið að á síðustu árum á vegum hins opinbera og t.d. á vegum framkvæmdaraðila á borð við Landsvirkjun hefur komið í ljós að skortur grunnrannsókna á náttúrufari Íslands, jarðfræði, jarðsögu og öðru slíku er tilfinnanlegur og gerir það að verkum að gífurlegur kostnaður fellur í hlut framkvæmdaraðila þegar þarf að skoða hvort við eigum í raun möguleika á því að framkvæma á þessu svæðinu eða hinu. Það er full þörf á því að gera gífurlegt átak í grunnrannsóknarmálum okkar og hér hefði verið kjörið tækifæri sem mér sýnist ríkisstjórnin vera að láta fara fram hjá sér með þeirri forgangsröðun sem hún hefur á málum.

Í þessari umræðu, herra forseti, hefur verið tæpt á ákveðnum deilumálum sem tengjast annars vegar deilunum um höfuðborgarsvæðið og hins vegar um landsbyggðina. Ég vil ekki gera annað en að taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem lýsti því í ræðu á undan mér að við í þessum sal eigum auðvitað að skoða hlutina heildrænt. Þar sem við erum þingmenn þessarar þjóðar er það ekki til eftirbreytni eða fyrirmyndar að standa hér og ætla að ýfa upp einhvers konar deilur eða etja fólki saman, hvort það kemur frá höfuðborginni eða landsbyggðinni. Á hitt ber auðvitað að líta að sá tónn sem var í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar áðan, sá þungaiðnaðartónn sem gætti í máli hans, er auðvitað ekki til fyrirmyndar þegar við erum að skoða þessi mál. Hann réttlætir þessa dreifbýlisslagsíðu sem óneitanlega er á þeirri innspýtingu sem ríkisstjórnin leggur hér til. Hann réttlætir þá slagsíðu með því að fólk hér á suðvesturhorninu eigi í vændum svo mikinn uppbyggingarbríma þegar stækkun álveranna í Straumsvík og á Grundartanga hefst, og þar með virðist þingmaðurinn viðurkenna að það sé ákveðin slagsíða í þessum efnum á innspýtingunni og virðist mér að friðþægingin úr hans ranni eigi að vera stóriðjuframkvæmdir. En ég mótmæli því, herra forseti, að einhvers konar réttlæting af því tagi geti átt sér stað eða sé frambærileg í þessari umræðu.

Herra forseti. Auðvitað er eðlilegt að fagna því að hér skuli vera gert öflugt átak í atvinnu- og byggðamálum. Það er rétt að fagna því að jafnháar upphæðir og hér um ræðir skuli vera aflögu til þess að gera þetta átak, en eins og fram hefur komið er eðlilegt að maður hafi allan fyrirvara á forgangsröðun verkefnanna og ítreka ég það að þar hefði átt að skoða kvennavinkilinn, vinkilinn sem lýtur að vísinda- og rannsóknamálum og þann vinkil sem lýtur að leiðréttingu sérstakra slysastaða í umferðinni.