Skattaskjól Íslendinga í útlöndum

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:48:39 (4467)

2003-03-06 13:48:39# 128. lþ. 90.94 fundur 474#B skattaskjól Íslendinga í útlöndum# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ísland tók þátt í hinu Evrópska efnahagssvæði í tíð ríkisstjórnar Sjálfstfl. Það hafði í för með sér frelsi í fjármagnsflutningum, mikla uppsveiflu í atvinnulífinu, hækkandi laun launþega og marga jákvæða hluti. Þetta er hin blómlega og jákvæða hlið medalíunnar. En það er líka neikvæð hlið, þ.e. að þetta opnar möguleika á að menn stundi skattundanskot sem er afskaplega neikvætt. Til að vinna á móti því hafa menn styrkt skattrannsóknarstjóra, Fjármálaeftirlitið og Samkeppnisstofnun til að vinna gegn þessu siðleysi. Nú er unnið að því að gera bókhald íslenskra fyrirtækja sambærilegt við bókhald erlendra fyrirtækja. Þar er verk að vinna.

En fyrst og fremst þurfa skattalögin að vera rökrétt, gagnsæ og einföld. Þá minnka möguleikarnir til undanskota og þá batnar staða þeirra sem hafa eftirlit með þessum skatti. Við þurfum áfram að vinna í að gera skattalögin einföld, léttbær og rökrétt til að vinna á móti þeirri neikvæðu hlið medalíunnar þannig að við njótum þeirra jákvæðu hluta sem frelsinu fylgja.