Skattaskjól Íslendinga í útlöndum

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:54:32 (4470)

2003-03-06 13:54:32# 128. lþ. 90.94 fundur 474#B skattaskjól Íslendinga í útlöndum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:54]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er ekki skortur á lögum eða reglum sem veldur skattundanskoti, segir hæstv. fjmrh. Ég held að þetta sé ekki rétt. Staðreyndin er sú að upp úr 1990 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum sem afnámu að mestu leyti takmarkanir og eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnsflutningum. Þessar breytingar eru þýðingarmiklar forsendur fyrir tilfærslunni í skattalegum tilgangi og gera allt eftirlit torvelt.

Við ætluðum ekki að skapa gróðrarstíu spillingar, segir hæstv. fjmrh. Sú hefur engu að síður orðið raunin. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin sem farið hefur með völd í landinu undir forustu Sjálfstfl. allar götur frá 1991 hefur gefið bröskurunum í þjóðfélaginu lausan tauminn. Þetta er bara staðreynd. Mér fundust mjög athyglisverðar ábendingar sem komu frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þar sem hann bar saman hlutskipti venjulegs launamanns annars vegar sem er undir ströngu kastljósi og eðlilega meðan ekki má skerða frelsi braskaranna. Það er brot á mannréttindum, segir þessi ríkisstjórn.

Síðan vék hæstv. ráðherra að samstarfi innan OECD til að koma í veg fyrir neikvæða skattasamkeppni milli ríkja og undanskot undan skatti með fjármagnstilflutningi landa í milli. Vita menn að íslenska ríkisstjórnin hefur verið til skoðunar hjá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, fyrir að brjóta það alþjóðlega samkomulag sem unnið hefur verið að innan OECD um að uppræta skattaparadísir. Þar á bæ þótti álitamál hvort hin alþjóðlegu viðskiptafélög sem hér var komið á fót í sérstöku samstarfsverkefni viðskrn. og Verslunarráðs með ærnum tilkostnaði, að sjálfsögðu á kostnað skattborgara, væru í samræmi við samkomulagið. Ríkisstjórnin hefur verið til skoðunar fyrir að brjóta þetta samkomulag. Síðan segja menn: Við erum öll sammála.

Það sem við í Vinstri hreyfngunni -- grænu framboði höfum gert í dag er að setja fram ítarlegar spurningar til hæstv. ráðherra um hvort ekki verði hafist handa um að kortleggja þessi mál.