Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:59:26 (4472)

2003-03-06 13:59:26# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við ræðum fjáraukalög fyrir árið 2003. Tilefni þess er að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að bregðast við atvinnuleysi eða grípa til tiltekinna aðgerða í atvinnu- og byggðamálum, eins og segir hér á titilkápu frv.

[14:00]

Ég velti því þess vegna fyrir mér, herra forseti, hvort hér sé um alveg sérstakt og sjálfstætt mál að ræða eða hvort hér sé um sama málið að ræða og það sem hæstv. iðnrh. var nokkrum sinnum búin að greina frá, þ.e. að þegar kæmi að sölu ríkisbankanna yrði tilteknum hluta þess fjármagns sem með þeim hætti kæmi í ríkissjóð varið til samgöngumála. Eru þetta sömu peningarnir eða eigum við enn von í viðbótarfjármagn til samgöngumála vegna sölu ríkisbankanna? Mér finnst mjög mikilvægt, herra forseti, að það sé alveg ljóst hvort verið er að nota sömu peningana tvisvar, ef það má orða það svo, eða tvö loforð einu sinni, eða hvað er hér á ferðinni? Er hér á ferðinni bara sjálfstæð ákvörðun ríkisstjórnar til að bregðast við í atvinnu- og byggðamálum eða er verið að efna loforðið um aukið fjármagn til samöngumála þegar búið væri að selja ríkisbankana?

Þetta var nú bara svona til þess að vita nákvæmlega hvað við værum með í höndunum og ég þykist vita að hæstv. fjmrh. muni bregðast við og svara þessu skjótt svo að við getum þá rætt frv. á réttum forsendum.

Sú umræða sem hér hefur farið fram í morgun hefur eðlilega dregið svolítið lit af því hvaðan menn koma, fyrir hvaða kjördæmi menn eru kosnir hingað á Alþingi, þegar þeir koma inn í þessa umræðu um aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum. Það er sannarlega rétt sem hér hefur verið fjallað um, landsbyggðin hefur verið og virðist því miður um fyrirsjáanlega framtíð verða vettvangur frumframleiðslunnar á meðan hin afleiddu störf verða aðallega á höfuðborgarsvæðinu og þá í stærra þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins, hin afleiddu störf, hin tæknivæddu störf, þau störf sem krefjast meiri menntunar.

Í þeirri skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskólans gaf út ekki alls fyrir löngu var fjallað um byggðir og búsetuþróun og kom það einmitt fram að það er að verða ákveðið menntunargap milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Herra forseti. Ég held að það sé eitthvað það alvarlegasta sem hefur verið með þeim hætti staðfest fyrir okkur sem höfum fjallað um þessi mál á undanförnum árum og áratugum að sú vinna að byggðamálum sem fram hefur farið hefur þrátt fyrir allt leitt til þessarar dapurlegu niðurstöðu, landsbyggðin situr uppi með hin einfaldari störf sem krefjast minni menntunar en hin afleiddu störf, en störf sem krefjast menntunar og þekkingar og bjóða upp á fjölbreytni verða til í stærra þéttbýli, sérstaklega hér á suðvesturhorninu.

Það má þess vegna ætla, herra forseti, að rétt eins og Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði munu leiða af sér fleiri störf í Reykjavík heldur en þar eystra gerist það sama með þessar framkvæmdir hér. Með óbeinum hætti verða til fleiri störf á höfuðborgarsvæðinu, í kringum þessar fjárveitingar, heldur en verða til úti á landi. Þetta er sá veruleiki sem við erum að fást við og við getum velt fyrir okkur hvernig eigi að bregðast við honum.

Við í Samfylkingunni höfum ítrekað látið það koma fram sem megináherslu okkar í byggðamálum að menn skoðuðu menntamálin, menn litu til þess hvernig hægt væri að mæta landsbyggðinni hvað varðar menntun og meiri menntun vegna þess að þar lægi lykillinn að eðlilegri, fjölbreytilegri uppbyggingu atvinnulífsins. Við höfum m.a. flutt um það tillögur hvernig hægt væri í rauninni að nútímavæða framhaldsskólana, skapa hinn nýja framhaldsskóla, sem gæti verið vettvangur, ekki bara fyrir nám á framhaldsskólastigi heldur fyrir símenntun og endurmenntun þess vinnuafls sem verður sífellt að takast á við breytingar í atvinnulífinu og auknar menntunarkröfur og, herra forseti, líka farvegur fyrir háskólamenntun. Þó að menn geti hver með sinni tölvu sótt sér ákveðið fjarnám, raunar bæði í framhaldsskólanámi og háskólanámi, er það svo að þeir sem hafa litla formlega menntun, sem því miður er staðreyndin um allt of marga víða um land, þurfa meiri hvatningu en þá að setjast fyrir framan tölvu og byrja að vinna einir og sér. Þeir þurfa meiri stuðning og menn eiga að horfast í augu við þann veruleika og takast á við hann ef þeim er alvara með byggðamálin.

Byggðamál eru nefnilega, herra forseti, ekki bara það að Byggðastofnun fái tiltekna peninga og menn fari í það að reyna að viðhalda hér þeim störfum sem byggja á náttúru\-nýtingu víða um landið þó að það sé mikilvægt og e.t.v. það eina sem á ýmsum stöðum er hægt að fást við með góðum árangri --- það segir reynslan okkur --- heldur hlýtur byggðastefna að miða að því að það sé gróska, uppbygging og líf þar sem byggð er í þessu landi. Og það er alveg ljóst að á nýrri öld fæst það ekki nema með menntun. Menntun leiðir af sér þá fjölbreytni sem við sækjumst eftir, þá grósku og þá möguleika sem fólk vill sjá.

Það hefur verið athyglisvert að skoða hvernig menn hafa verið að reyna í ýmsum öðrum löndum að takast á við byggðabreytingar með því að segja sem svo, eins og við höfum reyndar verið að gera líka: Jú, landbúnaðurinn er nú hér að leggjast af, eða veiðimennskan er nú að leggjast hér af, frumframleiðslan er nú að leggjast hér af, við skulum bara taka til við ferðaþjónustu. Og þá er eins og ferðaþjónusta sé kannski ekki mikið annað en að innrétta einhvers staðar huggulegan krók þar sem hægt er að selja kaffi og veita fólki næturskjól.

En það er ekki þannig. Það þekkjum við mætavel eftir þá uppbyggingu sem hefur verið á ýmsum sviðum ferðaþjónustu hér hjá okkur á undanförnum árum, við vitum að þetta nægir ekki. Það trekkir ekki endilega ferðamenn á tiltekin svæði á landinu þó að þar sé hægt að fá bæði kaffi og rúm. Nei, fólk er að sækjast eftir meiru. Ferðamenn vilja komast í snertingu við þann lifandi raunveruleika sem þeim er sagt að sé í þessu landi, kynnast menningu fólks, komast í snertingu við það atvinnulíf og almennt það líf sem fólkið í landinu lifir eða hefur lifað. Og það gerist ekki, herra forseti, ef við ekki menntum fólkið okkar, ef við ekki hjálpum því til að takast á við þessar breytingar, þannig að þeir sem ætla að taka á móti ferðamönnum kunni t.d. að tala erlendar tungur, búa til söluvöru úr menningu sinni, sýna og lyfta upp því sem veitir þeirra svæði þá sérstöðu sem á að vera þess virði að koma og skoða hana, koma og njóta hennar.

Þess vegna, herra forseti, veit ég ekki alveg hvort ég er dús við að það sem hér liggur fyrir séu endilega aðgerðir í byggðamálum, en sannarlega skiptir máli að hér er verið að setja 3 milljarða til vegamála. Sannarlega skiptir það máli. Og ég rifja þá aftur upp það sem ég hóf ræðu mína á: Eru þetta milljarðarnir sem áttu að koma til samgöngumála út úr sölu ríkisbankanna eða eru það einhverjir aðrir milljarðar? Það þurfum við að fá að vita, það skiptir verulegu máli.

Herra forseti. Ef við horfum á dagskrána virðist þetta vera einn af þeim dögum í þinginu sem við fáumst meira og minna við sértækar aðgerðir í atvinnulífinu. --- Og nú mundi ég gjarnan vilja að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson og hæstv. fjmrh. lækkuðu aðeins sinn fund. Ég hef orðið núna, að mér skilst. (ÓÖH: Við biðjumst afsökunar.) --- Það er þannig, herra forseti, að ef maður rennir yfir dagskrána í dag er hér meira og minna um sértækar aðgerðir að ræða í atvinnulífinu og það þrátt fyrir að flesta daga dynji á okkur núna að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi einmitt ekki verið með afskipti af atvinnulífinu, hún sé svo óskaplega mikið í þessu almenna, að setja almennar leikreglur.

Þau ár sem ég hef setið á Alþingi finnst mér ég samt hafa þurft að takast á við býsna mikið af sértækum reglum, sértækum reglum þegar verið er að koma af stað atvinnufyrirtækjum sem ríkisstjórnin vill að komist á laggirnar. Þá er ég að tala um stóriðjufyrirtæki, ríkisábyrgð fyrir deCODE, ýmsar aðgerðir í sjávarútvegsmálum, byggðakvóta --- mjög sértæk aðgerð í byggðakvóta, herra forseti. Ég er að tala um það sem við erum m.a. að fjalla um hér í dag, ég er að tala um það hvernig ríkisstjórnin hefur oft og einatt nálgast þau verkefni sem lúta að atvinnuþróun.

Ég hef heyrt hvað forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar segja og hvernig þeir vilja merkja sig sem flokk sérstöðunnar hvað það varðar að þeir vilji jú hafa hinar almennu reglur og að á undanförnum árum hafi hinar almennu reglur einmitt verið aðall þeirra af því að þær hafi verið að verða til á undanförnum áratug. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði okkur það reyndar hér áðan að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefði haft það í för með sér að almennar reglur hefðu orðið til á Íslandi. Það er rétt, þær urðu til. Við fengum almennar reglur með samningnum um EES. En ríkisstjórnin var kannski misfljót að taka upp þær reglur sem komu með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hún var býsna snögg að taka upp frelsisreglurnar en vélin hikstaði meira þegar kom að samkeppnisreglum. Kannski voru menn ekki alveg jafntilbúnir til að taka upp leikreglurnar eins og þeir voru tilbúnir að taka upp frelsið. En, herra forseti, við hljótum auðvitað að vilja hafa hér frelsi með leikreglum, það fer best á því að þetta tvennt fylgist að.

Það sem þetta frv. fyrst og fremst snýst um eru samgöngumálin, menningarhúsin tvö á Akureyri og í Vestmannaeyjum og síðan þessar 700 millj. til Byggðastofnunar. Ég fagna því að það kosningaloforð sem gefið var hér fyrir fjórum árum er nú að hluta til komið á blað. Fyrrverandi menntmrh., nú hv. þm. Björn Bjarnason, gaf það út eftir að loforðið um menningarhúsin kom fram að það væri hugsað þannig að hlutföllin yrðu 60:40 á milli ríkis og sveitarfélaga. Það væri fróðlegt að vita hvernig þessi milljarður á að skiptast á milli Akureyrar og Vestmannaeyja. Ég veit að Akureyringarnir hafa unnið afskaplega vel í sínu máli og eru komnir langt með áætlanir sínar. Lítur ríkisstjórnin svo á að þessi milljarður sé endanleg greiðsla til þessara tveggja menningarhúsa og mun hún þá með þeim hætti skorða af greiðslur ríkissjóðs eða mun ríkisstjórnin standa við það hlutfall sem Björn Bjarnason gaf út um 60% hlut ríkisins í byggingu þessara menningarhúsa?

Síðan, herra forseti, langar mig til að kalla eftir svari við því sem kom hér fram áðan í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þar sem hann var að tala um byggðastefnuna gagnvart Reykjavík. Hann talaði um að hún hefði lukkast svo vel og eitt af því sem stjórnvöld hefðu gert hefði verið að setja, að mig minnir, 6 milljarða sem hlutafé í deCODE. Það voru reyndar ríkisbankarnir, en hann talaði um stjórnvöld. Mér fannst þetta athyglisverð framsetning af hálfu stjórnarliða. Framsetningin gefur það til kynna að ríkisstjórnin hafi með einhverjum hætti staðið að baki þeim ákvörðunum ríkisbankanna að fjárfesta í þessu tiltekna fyrirtæki. Þess vegna spyr ég: Var það þannig? Var það ríkisstjórnarákvörðun að ríkisbankarnir á þeim tíma tækju þá ákvörðun að setja þetta fé í fyrirtækið? Það hlýtur að skipta máli hvort þarna var um að ræða faglega ákvörðun bankanna, sem héldu að þeir væru að setja fé sitt í arðvænlegt fyrirtæki, eða hvort hér var um að ræða pólitíska ákvörðun ríkisstjórnar. Hvað átti hv. þm. við með ,,stjórnvöld`` þegar hann fór yfir þetta með okkur?

Svo að lokum, herra forseti, af því að tími minn fer nú óðum að styttast hér er rétt að fara aðeins yfir þátt Byggðastofnunar í þessu frv. Hér er talað um atvinnuþróunarátak. Lagt er til að stofnað verði nýtt viðfangsefni með 700 millj. kr. framlagi, og þetta nýja viðfangsefni á að heita atvinnuþróunarátak. Það eina sem við fáum að vita, herra forseti, er að gert er ráð fyrir að Byggðastofnun ráðstafi fjármagninu til verkefna á sviði atvinnuþróunar á landsbyggðinni og að við ráðstöfun fjárins verði tekið mið af þeim áherslum sem fram koma í byggðaáætlun 2002--2005 og síðan að haft verði samráð við aðra sem vinna að atvinnuþróunarverkefnum.

[14:15]

Nú er mér, herra forseti, ekki ljóst hvaða áherslur það eru í byggðaáætlun 2002--2005 sem þarna á að fara eftir. Ég þekki vel þá byggðaáætlun sem hér var samþykkt. Ég sit sjálf í iðnn. þar sem fjallað var um byggðaáætlun, og þegar kom að endanlegri afgreiðslu hennar minnir mig að um hafi verið að ræða 47 almennt orðaðar línur um áherslur. Okkur var öllum ljóst af hverju þetta endaði svona. Það var vegna þess að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman um hvað ætti að fylgja með þannig að allar útfærslur urðu eftir einhvers staðar annars staðar.

Ég tók eftir því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan að byggðaáætlunin hefði verið afgreidd þannig að bæði þær áherslur sem fram komu með tillögunni þegar hún var fyrst lögð fram og áherslur meiri hluta iðnn. væru hluti af byggðaáætluninni. Ég minnist þess ekki, herra forseti, að málíð hafi verið afgreitt þannig enda sér þess ekki stað ef flett er upp á tillögunni. Þar eru bara þessar 47 línur almennt orðaðar, gætu verið teknar upp úr nánast hvaða kvenfélagssamþykkt sem er um landið vítt og breitt væru kvenfélög á annað borð að fjalla um byggðamál. Þar var ekkert handfast.

Mér finnst dálítið spennandi að vita hvað menn ætla að gera við þessar 700 millj. ef þeir ætla að styðjast við þessar línur --- mig minnir að þetta hafi verið fimm efnispunktar --- vegna þess að ég a.m.k. gat aldrei skilið það þegar þetta var afgreitt hér að málið hefði verið afgreitt með þeim hætti sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kýs nú að skilja. Kannski kýs hann að skilja það svona vegna þess að hann sjálfur var búinn að leggja dálitla vinnu í einmitt þessi útfærsluatriði og var ekki sáttur við hvernig þeim lyktaði. Eigi að síður, herra forseti, finnst mér ekki mjög skýrt hvert menn stefna þarna.

Ég er hins vegar alveg tilbúin til að horfa einfaldlega til þess að Byggðastofnun fái að gera á faglegan hátt tillögur um það hvernig þessum 700 millj. verði varið. Ég treysti fullkomlega því fólki sem þar vinnur, vel menntuðu fólki sem hefur ágæta þekkingu á þeim sviðum sem stofnunina varða, til að skoða með hvaða hætti þessum fjármunum verði best varið til atvinnuþróunar úti um landið, en velti því þá fyrir mér í leiðinni hvort hér eigi að verða um styrki að ræða eða lán. Það kemur ekki fram í þessari tillögu. Við gætum ímyndað okkur að hér væri um óafturkræfa styrki að ræða, miðað við umbúnað málsins, og það má vel vera að það hafi komið fram í morgun þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir tillögunni hvort sú var raunin, en það hefur þá farið fram hjá mér. Það skiptir verulegu máli, ekki síst vegna þess, herra forseti, að ef um styrki á að vera að ræða held ég að okkur vanti þann ramma sem þarf þá að starfa innan, þ.e. að okkur vanti þær almennu leikreglur sem við getum þá notað til þess að þær framkvæmdir sem ráðist verður í og þeir styrkir sem veittir verða séu a.m.k. innan þeirra marka sem ESA hefur sett okkur fyrir, með byggðakosti sínum í fyrsta lagi, í öðru lagi að þeir verði hafnir yfir pólitíska tortryggni, að það verði ekki enn einu sinni örlög landsbyggðarinnar að fá á sig þann svip að þar gerist hlutir gjarnan fyrir pólitískt pot, að ég segi ekki skæklatog. Mér finnst það eiginlega það ömurlegasta sem ég upplifi þegar niðurstaðan af góðum ásetningi Alþingis verður að fólkið í landinu sitji eftir með þá tilfinningu eina.