Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 14:25:20 (4475)

2003-03-06 14:25:20# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003 vegna aðgerða í atvinnu- og byggðamálum, og ég vil hefja mál mitt á því að lýsa ánægju minni með þær áherslur sem lagðar eru í þessu frv. Við höfum í allan vetur hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lýst okkur hlynnt því að settir yrðu aukafjármunir til vegagerðar eins og hér er lagt til.

En mig langar, virðulegi forseti, í tilefni af ræðu hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur til að koma hér inn á örfá atriði varðandi, við skulum segja, prinsippið í því hvernig litið er á útdeilingu fjár eins og til vegagerðar. Eins og kunnugt er er ætlunin að setja aukalega inn einn milljarð í framkvæmdir á þjóðvegum í þéttbýli á höfuðborgarsvæði, einn milljarð í norðaustursvæði og einn milljarð í norðvestursvæði. Til þjóðvega í þéttbýli úti á landsbyggðinni fer ákaflega lítill peningur. Og þar sem ég þekki best til, og beini ég nú orðum mínum til hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, á Norðurlandi eystra fara 28 millj. á þessu ári í þjóðvegi í þéttbýli. Á þessu svæði má nefna þéttbýli eins og Ólafsfjörð og Dalvík, Akureyri, Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn. Þjóðvegir í þéttbýli í þessum minni sveitarfélögum eru yfirleitt bara línan í gegnum bæina og síðan tengingin niður á viðkomandi hafnir. Skilgreiningin á Akureyri er augljóslega miklu víðari þar sem þar er um 16 þús. manna byggð að ræða.

Nú háttar svo til að höfuðborgarsvæðið sem þéttýli er skilgreint sér þegar rætt er um þessi mál, hverjir eiga að fá og hvar á að leggja áherslur. Þá vil ég beina máli mínu til hæstv. fjmrh., hvort hann í kjölfar þess sem ég er að draga fram núna telji ekki ástæðu til að breyta þessum skilgreiningum og draga út fleiri þéttbýli sem sérfjárhagsáætlun yrði sett fram um. Á Norðurlandi vestra fara t.d. ekki nema 18 millj. í þjóðvegi í þéttbýli og þar má nefna staði eins og Siglufjörð, Sauðárkrók, Hvammstanga, Skagaströnd og fleiri smærri staði, og það eru yfirleitt bara línurnar í gegnum viðkomandi þéttbýli.

Það sem ég er að segja, virðulegi forseti, er það að vegakerfi landsins er auðvitað vegakerfi okkar allra. Það er ekki síður nauðsynlegt og mikilvægt fyrir höfuðborgarsvæðið að líta á vegakerfi landsins sem sitt áhersluatriði, vegna þess að um vegakerfi landsins fer manna- og vöruflutningur í stríðum straumi, hvort sem er til útflutnings, sölu eða vinnslu á höfuðborgarsvæði. Ég held að við verðum að endurskoða skilgreiningar og horfa á málin í nýju ljósi. Þessi skilgreining gildir um öll þéttbýlissvæði í landinu.

Samkvæmt þessari áætlun fer ekkert fjármagn til þjóðvega í þéttbýli á Akureyri. Ef við lítum á áætlanir næstu ára er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum í þjóðvegi í þéttbýli í Akureyrarkaupstað þar sem búa 16 þús. manns. Á Eyjafjarðarsvæði, þéttbýlissvæðinu, búa um 21 þús. manns. Á næsta tólf ára tímabili er hins vegar gert ráð fyrir 21 milljarði til þjóðvega í þéttbýli á höfuðborgarsvæði. Nauðsynlegt er að menn átti sig á þessu og séu algjörlega klárir á hvernig dæmið er sett upp.

Ég er þeirrar skoðunar að þjóðvegurinn frá Akureyri til Reykjavíkur sé ekkert meiri eign eða verðmætari fyrir Akureyringa en fyrir Reykvíkinga. Þjóðvegurinn frá Reykjavík til Selfoss er að mínu mati ekkert meiri eign eða nauðsynlegri fyrir Selfyssinga en fyrir Reykvíkinga.

[14:30]

Ég held að það sé ákaflega hættulegt að stilla málum upp eins og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir gerði áðan. Það fer milljarður til höfuðborgarsvæðisins samkvæmt þessum aukafjárlögum. Það er algjörlega eyrnamerkt þéttbýlinu.

Ég ætla að gera það að tillögu minni til nefndarinnar sem fjallar um þessi mál að endurskilgreina þurfi uppsetningu á fjárframlögum til þjóðvega í þéttbýli. Ég vil sérstaklega taka Akureyrarkaupstað sem dæmi. Bæjaryfirvöld hafa gert áætlanir og eru tilbúin með verkefni sem falla undir þjóðvegi í þéttbýli fyrir 451 millj. kr., en það er ekkert framlag til innan bæjarmarka þessa 16 þúsund manna samfélags. Það er ósanngjarnt í hæsta máta. Ef við tökum milljarðinn sem skilgreindur er fyrir þjóðvegi í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu þá hefði Akureyri átt að fá um það bil 120 millj. í slík verkefni miðað við höfðatölu.

Ég tel nauðsynlegt að taka út fyrir sviga þessi stærstu sveitarfélög á landsbyggðinni og eyrnamerkja framlögin til þeirra eins og gert er með höfuðborgarsvæðið. Ég held að það yrði miklu betri sátt um það og að menn væru sáttari við að þjóðvegakerfið væri okkar allra. Það nýtist okkur öllum hvort sem það er til afurðaflutninga, fólksflutninga, að ég tali ekki um ferðaþjónustu.

Þannig er það t.d. í mínu kjördæmi, Norðurlandi eystra. Vegna staðhátta höfum við þurft að nota hér um bil allt vegafé í austurleiðina, frá Húsavík að Þórshöfn á Langanesi. Það er mjög erfið vegagerð og kostnaðarsöm. En út frá minni skilgreiningu og sýn á þessi mál er þessi vegur ekkert frekar Akureyringa en annarra. Reyndin er bara sú að allt þetta fé hefur í góðu samráði verið látið fara þangað. Þetta er mjög stórt mál, sérstaklega ef menn ætla að efna til átaka milli þéttbýlisins og dreifbýlisins um skiptingu þessara fjármuna. Þetta er mjög stórt mál.

Ég tel nauðsynlegt að taka þessi mál upp í þeim dúr sem ég nefni hér. Ég legg á það áherslu, sérstaklega hvað varðar Akureyri, að hér verði gerð bragarbót á. Ég tel að langflestir þingmenn sem fara ofan í þessi mál og skoða um hvað er að ræða finnist að athuguðu máli mikið sanngirnismál að bæjarfélagið Akureyri, með 16 þúsund íbúa, njóti sömu formúlu varðandi framlög til þjóðvega í þéttbýli eins og hér gildir. Það er mjög nauðsynlegt.

Allar þær óskir sem bæjarstjórn Akureyrar hefur sett fram varðandi þjóðvegi í þéttbýli eru nauðsynlegar framkvæmdir. Þar hefur mjög lítið gerst á undanförnum árum, mjög lítið. Að stofni til er það línan í gegnum bæinn sem um ræðir, tengingar niður á hafnir, útivistarsvæði og þess háttar. Á Akureyri er ekki um mislæg gatnamót að ræða, sem eru ákaflega dýr, þannig að hlutfallslega eru þessar nauðsynlegu vegabætur innan kaupstaðarins mjög ódýrar, eins og sett er fram af hendi bæjarstjórnarinnar á 451 millj. kr.

Í sambandi við menningarhúsin vil ég segja að ég er hlynntur því að við byggjum menningarhús. En ég hefði líka viljað sjá aðrar áherslur hvað varðar menningarhúsin. Í raun eiga landsmenn mjög mikið af vannýttum menningarhúsum um allt land, svokölluðum félagsheimilum. Ég held að menn ættu að skoða það alvarlega að setja upp einhvers konar sjóð sem gæfi sveitarfélögum á landsbyggðinni möguleika á því að fjármagna viðhald og endurbætur á þeim húsum og félagsheimilum sem til eru í landinu. Þetta er fyrst og fremst spurning um endurbætur og viðhald en það væri gríðarleg stoð í því ef sveitarfélögin gætu sótt um einhvers konar framlag til tæknivæðingar þessara húsa. Þá er borðleggjandi að blómstrandi menningarlíf um allt land gæti notað þessi hús í auknum mæli frá því sem nú er, myndarleg hús í langflestum tilvikum. Þau eru þungur baggi í rekstri fyrir sveitarfélögin og mjög erfitt að tæknivæða þau þannig að ungt fólk í dag telji sig geta notað þau sómasamlega. Ég legg til að menn skoði hvort ekki sé ástæða til þess í langflestum tilfellum að styðja sveitarfélögin til að halda þessum menningarhúsum gangandi um allt land. Það held ég að sé mjög mikilvægt.

Virðulegi forseti. Ég er ekki að gera athugasemdir við þetta átak. Ég tel það góðra gjalda vert. En ég legg þunga áherslu á það sem ég hef sagt um þjóðvegi í þéttbýli. Ég vil fá þær leiðir endurskilgreindar. Ég held að til lengri tíma litið getum við forðast þessi átök á milli þéttbýlis og dreifbýlis, ef við endurskilgreinum framlögin eða setjum þau í annan farveg til þéttbýlisins. Þetta er mikið sanngirnismál. Vegakerfið er okkar allra. Gott vegakerfi um allt land er forsenda þess að hér sé líflegt atvinnulíf sem byggir á landsbyggðinni allri. Það verður að skilgreinast sem okkar allra. Þetta með að taka þéttbýlissvæðin út fyrir sviga og gera séráætlun um þau tel ég að væri mikið sanngirnismál. Við getum svo velt fyrir okkur hver stærðarmörkin eiga vera, hvort skilgreina eigi þetta við þéttbýli með þúsund manns eða eitthvað svoleiðis eða hvort við eigum að fara heldur hærra, fara t.d. upp í stærð Ísafjarðarkaupstaðar eða þar um bil. En það að þéttbýlissvæðin á landsbyggðinni gjaldi fyrir vegakerfið innan kjördæmisins er ekki rétt sýn, alls ekki.

Ég sé að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, kollegi minn af Norðurlandi eystra, situr hér í salnum. Hún getur náttúrlega staðfest það sem ég er að segja. Við höfum verið sammála um það, þingmannahópurinn, að nota þá peninga sem við höfum haft í austurleiðina frá Húsavík allt þetta kjörtímabil. Það hefur tekið langmest af okkar framlögum. Afleiðingin er náttúrlega þessi. Þetta er sérstaklega augljóst gagnvart sveitarfélaginu Akureyri sem horfir ekki fram á neinar, þrátt fyrir þessa innspýtingu til aðgerða í atvinnu- og byggðamálum, framkvæmdir í þjóðvegum í þéttbýli næstu tólf árin, fari svo sem horfir varðandi vegáætlun.

Virðulegi forseti. Ég vildi undirstrika þetta. Ég vona sannarlega, þegar farið verður í þessi mál í nefndinni, að hún taki á þessum skilgreiningarmálum, sérstaklega gagnvart Akureyri og stærri þéttbýlisstöðum. Í þeirri athugun mætti taka með Ísafjörð, Egilsstaði o.s.frv.