Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 14:51:46 (4482)

2003-03-06 14:51:46# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[14:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum. Frv. er á þskj. 1091 og er 671. mál þingsins.

Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkisstjórninni og iðnaðarráðherra verði heimilað að gera samninga við Norðurál hf. um stækkun álvers félagsins í allt að 300.000 tonn í tveimur áföngum.

Með lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, var iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um byggingu álvers á Grundartanga og voru samningar þessa efnis undirritaðir 7. ágúst 1997. Lá þá fyrir mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi fyrir allt að 180.000 tonna álveri á Grundartanga. Byggingu 1. áfanga álversins með um 60.000 tonna ársframleiðslugetu af áli lauk í júní árið 1998 og hófst þá framleiðsla í kerskálum álversins.

Lögunum var breytt með lögum nr. 12/2000 þegar veitt var heimild til ákvörðunar fasteignaskatts vegna stækkunar mannvirkja í tengslum við aukningu á framleiðslugetu úr 60.000 í 90.000 tonn. Stjórnvöld, Landsvirkjun og Norðurál undirrituðu viðauka við samninga um álverið 14. júní 2000 þegar ákvörðun var tekin um að stækka álverið úr 60.000 tonna ársframleiðslu í 90.000 tonn. Framkvæmdum við þann áfanga lauk um mitt ár 2001 og framleiðir félagið nú um 90.000 tonn á ári.

Á síðasta ári voru samþykkt lög nr. 75/2002, um breytingu á lögum nr. 62/1997, þar sem Norðuráli var heimilað að taka þátt í öðrum félögum og fjárfesta í öðrum atvinnurekstri en áliðnaði.

Í september árið 2000 óskaði Norðurál formlega eftir því við iðnaðarráðuneytið og Landsvirkjun að teknar yrðu upp hið fyrsta formlegar samningaviðræður um orku vegna þriðja áfanga álversins. Í upphaflegum áætlunum var gert ráð fyrir að álverið yrði stækkað úr 90.000 tonnum í 180.000 tonn en tækniframfarir gerðu það að verkum að hagkvæmara er talið að stækka álverið úr 90.000 tonnum í 240.000 tonn.

Fljótlega varð ljóst að ekki væri unnt að afla orku til 150.000 tonna stækkunar í einum áfanga og var því tekin ákvörðun um að skipta stækkuninni í tvo áfanga. Jafnframt var ljóst að ekki væri unnt að taka ákvörðun um stækkun fyrr en fyrir lægi niðurstaða í mati á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Fyrir liggur nú úrskurður setts umhverfisráðherra þar sem fallist er á framkvæmdina að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Samhliða þessu frv. er því lagt fram frv. um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, þar sem lögð er til heimild til að reisa Norðlingaölduveitu, stækkun Nesjavallavirkjunar og virkjunarframkvæmdir á Reykjanesi.

Þótt aflað sé heimilda fyrir stækkun í allt að 300.000 tonn er gert ráð fyrir að stækkunin komi til framkvæmda í tveimur áföngum, annars vegar um 90.000 tonn sem lokið verður árið 2005 og hins vegar um 60.000 tonn árið 2009. Stefnt er að því að hefja byggingarframkvæmdir við fyrri hluta stækkunar álversins á þessu ári og er framkvæmdatími áætlaður 24--30 mánuðir. Stefnt er að því að gangsetning vegna framleiðsluaukningar um 90.000 tonn hefjist árið 2006. Til lengri tíma litið er ætlun Norðuráls að auka framleiðslugetu álversins með því að auka straum í kerskálum. Þannig miða áform fyrirtækisins að því að ná allt að 300.000 tonna framleiðslugetu þegar til lengri tíma er litið. Hefur fyrirtækið því nú þegar látið meta umhverfisáhrif og fengið starfsleyfi fyrir stækkun í allt að 300.000 tonn.

Helstu mannvirki fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar álversins í allt að 300.000 tonn eru tankar fyrir hráefni, kerskálar, steypuskáli, skautsmiðja, þurrhreinsibúnaður, spennistöð og starfsmannahús. Öll tækni og tæki sem koma til vegna ráðgerðrar stækkunar álversins verða sem fyrr í samræmi við alþjóðlegar skilgreiningar á bestu fáanlegu tækni og er þá átt jafnt við framleiðslutækni sem og tækni við hreinsun útblásturs með þurrhreinsibúnaði.

Viðbótarfjárfestingarkostnaður vegna stækkunar í 240.000 tonn er áætlaður um 525 milljónir bandaríkjadala. Áætlað er að kostnaður við fyrsta áfanga stækkunarinnar verði um 330 milljónir bandaríkjadala en seinni hluti kosti um 195 milljónir bandaríkjadala. Reikna má með að heildarfjárfesting Norðuráls á Grundartanga verði þá komin í um 825 milljónir bandaríkjadala eða um 66 milljarða íslenskra króna miðað við gengi í febrúar 2003.

Reikna má með að árlegt útflutningsverðmæti Norðuráls tvöfaldist við stækkun í 180.000 tonn og verði að jafnaði rúmlega 20 milljarðar króna á ári miðað við spár um þróun álverðs á Evrópumarkaði. Að loknum seinni áfanga stækkunar álversins í 240.000 tonn má reikna með að árlegt útflutningsverðmæti Norðuráls verði um 40 milljarðar króna miðað við sömu forsendur.

Hæstv. forseti. Í gildi eru samningar við Norðurál hf. og Columbia Ventures Corporation um byggingu og rekstur allt að 90.000 tonna álvers að Grundartanga. Samkomulag um stækkun álversins felur í sér gerð annars viðauka við fjárfestingarsamning og annars viðauka við lóðarsamning, eins og nánar er lýst í athugasemdum með frv. Viðaukasamningarnir hrófla ekki við þeim grundvallaratriðum sem felast í upprunalega samningnum heldur fela í sér frekari útfærslu vegna stækkunar álversins.

Undirbúningur stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga hefur farið fram í samræmi við gildandi löggjöf og hefur almenningur átt þess kost að hafa þar áhrif á undirbúningsstigi.

Umtalsverðar grunnrannsóknir hafa farið fram á umhverfisþáttum og lífríki umhverfis iðnaðarsvæðið á Grundartanga, bæði áður en Íslenska járnblendifélagið tók til starfa árið 1979 og áður en álver Norðuráls var gangsett.

Í kjölfar grunnrannsókna hafa iðnfyrirtækin á Grundartanga staðið sameiginlega að umhverfisvöktun í Hvalfirði frá árinu 1999. Vöktunin er framkvæmd samkvæmt áætlun til tíu ára í senn og unnin í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins. Tilgangur vöktunar er m.a. að meta hvort kröfur starfsleyfis séu uppfylltar og skoða áhrif stækkunar á umhverfi með samanburði við grunngildi helstu umhverfisþátta. Rannsóknir og vöktun ná til loftgæða, gróðurs, jarðvegs, jarðvatns, ferskvatns, úrkomu og búfénaðar.

Meginniðurstöður ofangreindra rannsókna og vöktunar á Hvalfjarðarsvæðinu sýna að áhrif iðnfyrirtækjanna á Grundartanga hafa verið innan þeirra marka sem sett voru í starfsleyfi þeirra og að áhrif á umhverfið hafi verið í lágmarki. Iðnaðarsvæðið er svo sem gefur að skilja aðaluppspretta brennisteinstvíoxíðs og flúors, en þó er styrkur þessara efna í lofti vel innan viðmiðunarmarka fyrir loftgæði. Aðaluppspretta brennisteinstvíoxíðs til þessa hefur verið járnblendiverksmiðjan en aðaluppspretta flúors hefur verið álverið. Rannsóknir sýna einnig að meginuppspretta svifryks á Hvalfjarðarsvæðinu er utan iðnaðarsvæðisins. Nánari grein er gerð fyrir niðurstöðum umhverfisrannsókna og vöktunar í fylgiskjali III með frumvarpi þessu.

Í nóvember 2000 sendi Norðurál Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum stækkunar Norðuráls á Grundartanga með framleiðsluaukningu í allt að 300.000 tonn á ári. Niðurstaða Skipulagsstofnunar lá fyrir 9. janúar 2001 og var tillagan samþykkt með skilyrðum. Í kjölfar þessa var unnin matsskýrsla vegna stækkunar álversins og var hún lögð fram hjá Skipulagsstofnun í mars 2002. Með úrskurði, dags. 27. maí 2002, féllst Skipulagsstofnun á fyrirhugaða stækkun Norðuráls á Grundartanga í allt að 300.000 tonn á ári.

[15:00]

Að beiðni iðnaðarráðuneytis lagði efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins mat á þjóðhagsleg áhrif fjárfestinga í virkjunum, byggingu álvers í Reyðarfirði og stækkun álvers á Grundartanga. Niðurstöður efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins eru birtar í fylgiskjali VIII með frumvarpi til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði.

Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum stækkunar Norðuráls á Grundartanga er gerð grein fyrir samfélagslegum áhrifum á rekstrartíma. Þar kemur fram að á undanförnum árum hefur fólki fjölgað á atvinnusvæði Norðuráls og að stækkun með verulegri fjölgun starfa stuðli að framhaldi á þeirri þróun. Gert er ráð fyrir 300--450 nýjum framtíðarstörfum í álveri Norðuráls eftir fulla stækkun í 300.000 tonna ársframleiðslu en heildarfjöldi starfsmanna í álverinu mun því verða 500--650. Hlutfall starfsmanna af Vesturlandi hefur verið að aukast frá því að Norðurál hóf starfsemi og er nú 84%, en aðrir starfsmenn koma af höfuðborgarsvæðinu. Líklegt er að raunin verði svipuð eftir stækkun álversins. Líklegt er talið að flestir þeirra sem flytjist til svæðisins af öðrum landsvæðum velji sér búsetu á Akranesi.

Af núverandi starfsmönnum álversins eru um 14% konur, og starfar rúmlega helmingur þeirra í viðhaldsdeild, kerskála eða skautsmiðju. Hlutfall kvenna í áliðnaði hefur vaxið á undanförnum árum og er það stefna Norðuráls að ráða sem flestar konur til starfa. Á undanförnum árum hefur störfum fyrir konur fækkað á svæðinu, m.a. vegna samdráttar í verslun á Akranesi með tilkomu Hvalfjarðarganga.

Samdráttur hefur verið í landbúnaði undanfarin ár og hefur störfum í greininni þar af leiðandi fækkað. Stækkun álversins mun stuðla að áframhaldandi búskaparmöguleikum. Bændur geta sótt störf í álverinu samhliða búskap sem gerir þeim kleift að búa áfram á jörðum sínum þrátt fyrir samdrátt í landbúnaði. Mörg smærri fyrirtæki í iðnaði og byggingarstarfsemi munu njóta góðs af framkvæmdum við stækkun álversins og umfangsmeiri rekstri þess. Áhrifin felast í sölu á þjónustu og vörum til álversins. Einnig munu skapast störf vegna tengdrar uppbyggingar á svæðinu. Mörg fyrirtæki hafa þegar byggst upp og öðlast reynslu í tengslum við uppbyggingu Norðuráls og er sú reynsla góður undirbúningur fyrir frekari stækkun. Stækkunin mun fela í sér aukna möguleika á verkefnum fyrir þessi fyrirtæki. Hugsanleg neikvæð áhrif felast í að önnur iðnfyrirtæki gætu misst starfsfólk til álversins vegna aukinnar samkeppni um vinnuafl.

Stækkun álversins mun leiða til aukinnar eftirspurnar eftir bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði á svæðinu. Aukin eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði ræðst af íbúafjölgun á svæðinu, breytingum í fjölskyldustærð og þörf fyrir endurnýjun eldra húsnæðis. Líklegt er að eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði muni verða mest vart á Akranesi. Hennar gæti einnig orðið vart í öðrum sveitarfélögum, þ.e. Borgarbyggð, Skilmannahreppi og Hvalfjarðarstrandarhreppi.

Þjónusta og grunngerð sveitarfélaga á áhrifasvæði álversins er góð og er ekki talið að grípa þurfi til viðamikilla ráðstafana á þeim sviðum þótt fjölgun kunni að verða á íbúum á svæðinu í kjölfar stækkunar Norðuráls.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu staðreyndir varðandi fyrirhugaða stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga og áhrif þess. Ég leyfi mér að vísa til greinargerðar með frv. varðandi skýringar við einstakar greinar þess. Þá leyfi ég mér, hæstv. forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.