Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 15:04:30 (4483)

2003-03-06 15:04:30# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Undanfarna daga og vikur hefur geisað í samfélaginu og sömuleiðis hér á Alþingi mikil umræða um áhrif þess að verið er að ráðast í svo miklar framkvæmdir á Austurlandi, sem við þekkjum. Nú síðast í gær var samþykkt heimild til hæstv. iðnrh. til þess að ganga til samninga um byggingu álvers í Reyðarfirði. Áhyggjur manna hafa ekki hvað síst verið vegna þeirra efnahagslegu áhrifa sem þessar framkvæmdir munu hafa, og hafa nú þegar. Þar hafa menn ekki hvað síst haft áhyggjur af gengisþróuninni undanfarið og síðan áhrifum hins háa gengis á aðra framleiðslu- og samkeppnisatvinnuvegi, á útflutningsgreinarnar yfirleitt.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvað hafi verið skoðað nú, þegar verið er að mæla fyrir málum sem munu setja enn frekara trukk á fjárfestingar í þjóðfélaginu, með þróun gengisins.

Það er alveg ljóst að grunndæmi fjmrn. er fullkomið ómark. Það sem þar stendur eru í besta falli væntingar, en a.m.k. hvergi nálægt veruleikanum. Þar eru menn að tala um verðbólgu í 130 stigum sem er ívið lægra meðaltal en á síðasta ári, en veruleikinn hefur verið allt annar og er allt annar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hefur verið skoðað varðandi þessar nýju framkvæmdir sem hér er verið að fjalla um að hinum samanlögðum? Þá bið ég um eitthvað annað en grunndæmi fjmrn.