Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 15:08:51 (4485)

2003-03-06 15:08:51# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það grunndæmi sem hæstv. ráðherra vitnaði í áðan og er í fskj. VIII með frv. um álver við Reyðarfjörð gerir ráð fyrir þremur möguleikum. Þessi er einn af þeim. Og hæstv. ráðherra nefndi réttilega að það hefur verið ákveðinni óvissu háð hvort og hvenær hægt væri að ráðast í þær framkvæmdir sem hér er verið að fjalla um núna.

Það sem ég kalla eftir, herra forseti, er það hversu meðvituð stjórnvöld eru gagnvart þeim áhrifum sem allar þessar framkvæmdir hafa nú þegar á efnahagslífið og þar með atvinnulífið í landinu. Það er alveg ljóst að þetta grunndæmi fjmrn. stenst ekki og það veit hæstv. ráðherra. Það þarf ekki annað en að lesa tölurnar og horfa síðan á veruleikann til að átta sig á því. Þess vegna kalla ég eftir því hvort eitthvað annað hafi verið gert. Hafa einhverjir aðrir verið beðnir um að skoða málið? Hvað segir Seðlabankinn? Hann var með ákveðnar viðvaranir varðandi þróun gengisins fyrir ári síðan, einmitt vegna þessara væntinga, en það var eins og stjórnvöld og fjmrn. gerðu ekkert með þær spár eða ábendingar sem þar komu fram. Fjmrn. hélt sig bara áfram við þær tölur sem menn þar reiknuðu út við skrifborðið sitt án þess, að því er virðist, að hafa höndina nokkurs staðar á slagæð atvinnu- og efnahagslífsins.

Herra forseti. Það er ekki boðlegt þegar við stöndum frammi fyrir þeim veruleika sem nú er í íslensku efnahagslífi ef ekki er hægt að reiða hér fram pappíra sem segja okkur eitthvað um það hvers er að vænta í náinni framtíð. Þó að menn hafi eingöngu haft álverið í Reyðarfirði --- nú segi ég ,,eingöngu`` um þessa stóru framkvæmd og Kárahnjúkavirkjun --- nægði það til að setja hér allt á annan endann hvað varðaði gengismálin, og hvað mun þá gerast núna? Nú er að koma enn ný fjárfesting sem er fyrr á ferðinni. Hvaða áhrif mun hún hafa? Treystir enginn sér til þess að velta vöngum yfir því og þá í leiðinni til hvaða aðgerða stjórnvöld gætu gripið til mótvægis?