Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 15:11:10 (4486)

2003-03-06 15:11:10# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er ríkisstjórnin meðvituð um að grípa þurfi til aðgerða þegar þessar framkvæmdir verða í hámarki. Það hefur alltaf legið fyrir og það er margbúið að segja það úr þessum ræðustóli. Það hefur farið fram sérstök umræða um mótvægisaðgerðir. Það liggur alveg fyrir. Það er hins vegar ekki hægt að tíunda í smáatriðum í dag út í hvaða aðgerðir verður farið. (SvanJ: Ég er að tala um núna.) Við erum nýbúin að taka ákvörðun um það af hálfu stjórnarflokkanna og ríkisstjórnar að fara út í aðgerðir fljótlega í sambandi við vegagerð og fleira til þess að hafa svigrúm til að draga úr þeim framkvæmdum, hugsanlega, þegar að því kemur að framkvæmdir sem varða stóriðjuna verða í hámarki.

Ég vil gjarnan fá að segja það að lokum, af því að hv. þm. talar mikið um mótvægisaðgerðir, að ég hef ekki trú á því að almennt væri mikið verið að tala um mótvægisaðgerðir í samfélaginu ef stjórnarandstaðan réði hér ríkjum. Það væri ekkert að gerast.