Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:07:00 (4492)

2003-03-06 16:07:00# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála því sem hv. þm. sagði, að við séum að gera Ísland að einhliða álframleiðslulandi. Það kemur oft fram hér í þinginu að við séum að verða allt of stórir á heimsmarkaðnum á áli. En hvað erum við stórir? Heimsmarkaðsframleiðslan á áli er 25 milljón tonn. Hún vex um 3% á ári sem er 875 þús. tonn. Við erum að framleiða í Ísal og Norðuráli 260 þús. tonn á ári. Ef allt gengur eftir, stækkun sem Ísal hefur talað um, þessi stækkun á Norðuráli og byggingin fyrir austan, þá erum við komin í 932 þús. tonn. Ef við hugsun tíu ár fram í tímann og Norðurál getur klárað sínar stækkanir, þá verðum við komin í 1.052 þús. tonn, sem er 4% af heimsframleiðslunni. Hv. þm. sagði að við værum að keyra atvinnulíf okkar í mikla einhæfni. Það er nefnilega alveg þveröfugt. Við erum að losa okkur út úr einhæfninni. Við erum að auka undirstöðurnar í þjóðarbúskap okkar og útflutningi. Við höfum verið gríðarlega háð sjávarútvegi, gríðarlega háð honum og höfum upplifað það í gegnum tíðina að dýfurnar í sjávarútvegi hafa skapað okkur mikla erfiðleika. Við erum að renna sterkum stoðum undir útflutning okkar og þjóðarhag.

Hv. þm. sagði að ekki væri verið að gagnrýna störf við stóriðju og fór að mæra stóriðjumenn. En ég man nú að hv. þm. Vinstri grænna hafa hér aftur og aftur á undanförnum árum talað niður til starfa við mengandi stóriðju. Ég fagna því ef það er að breytast og óska hv. þm. til hamingju með það.

Hann talaði um samkeppnisstöðu skipasmiðja og vélsmiðja á Akranesi. Ég fullvissa hv. þm. um að fáir gleðjast meira yfir þessari væntanlegu framkvæmd en einmitt þau fyrirtæki því þau hafa gríðarleg viðskipti á Grundartanga og þetta er ein kjölfestan í starfsemi þeirra. Að halda að þessi fyrirtæki séu á móti þessari stækkun er náttúrlega alveg út í hött.

Hv. talaði um tekjur af ferðaþjónustunni sem er alls góðs makleg. Ég minni samt á að í ferðaþjónustunni eru yfirleitt láglaunastörf því miður. Því er öfugt farið í stóriðjunni.

Ég spyr svo bara hv. þm. í lok þessa andsvars hvort hann sé á móti þessu frv., hvort hann er á móti stækkun Norðuráls.