Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:11:27 (4494)

2003-03-06 16:11:27# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:11]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gat nú ekki annað en brosað út í annað þegar hv. þm. sagði að ég sæi mjög þröngt í þessum atvinnu- og útflutningsmálum okkar. Ég held að flestir þingmenn séu sammála um það að ef einhverjir sjá þröngt í þessum málum þá eru það hv. þingmenn Vinstri grænna sem yfirleitt eru á móti þessari atvinnuuppbyggingu sem við erum að tala hér fyrir, þingmenn stjórnarflokkanna og fleiri. Þar er þröngsýnin að mínu mati, en ekki hjá mér.

Hv. þm. talaði um gríðarlega áhættu af þessum mikla álútflutningi. En hver tekur þessa áhættu? Ekki tökum við þessa áhættu. Erlendir aðilar byggja þessa verksmiðju og taka áhættuna. Í öllum atvinnurekstri er áhætta og þessa áhættu taka þeir sem fara út í byggingu þessara verksmiðja.

Það er rétt sem hv. þm. sagði. Ég hef ekki heyrt hann tala niður til þessara starfa. Ég sagði hins vegar í andsvari mínu að hv. þingmenn Vinstri grænna hefðu gert það, talað hér, að mér hefur fundist, niðrandi um störf við mengandi stóriðju. Mér hefur fundist þeir gera lítið úr þeim störfum og hef reyndar farið í andsvar við þá áður út af því.

Hv. þm. nefndi, sem ég kom ekki að í fyrra andsvari mínu, að þessum stóriðjufyrirtækjum væri ívilnað í sköttum. Það er nú svo að bæði Norðurál og Ísal eru með 33% tekjuskatt í sínum samningum. Nú er búið að færa tekjuskattinn á atvinnulífið á Íslandi í 18% og auðvitað er ekkert óeðlilegt að þessi atvinnurekstur búi við sömu kjör og aðrir. Það er verið að gera í þessu frv., þ.e. að laga skattamál Norðuráls að skattumhverfi fyrirtækjanna í landinu.

Hv. þm. sagði líka að ekki væri pláss fyrir margar risaverksmiðjur eins og hann orðaði það. Hvað eru þær margar þessar risaverksmiðjur? Það er Ísal og það verður væntanlega Fjarðaál. Það er nú varla hægt að tala um risaverksmiðju hjá Norðuráli með sín 180 þús. tonn. Það er þá þriðji risinn ef hún flokkast sem risi.