Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:20:20 (4498)

2003-03-06 16:20:20# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:20]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Þessi málflutningur hv. þingmanns er alveg með eindæmum. Til hans hefur verið beint spurningum, bæði af mér og hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni. Fæstum þeirra svarar hann. Hann kýs hins vegar að slá hér fram hreinum ósannindum. Hann talar um stofnstyrki, og hvað yrði ef ferðaþjónustan fengi ámóta stofnstyrki. Það er ekkert um það að ræða að ríkið sé að leggja fjármuni í álverksmiðjur, hvorki á Grundartanga né fyrir austan. Það veit hv. þm.

En ég ítreka þá spurningu sem hér hefur komið fram: Þekkir hv. þm. ekki þau nýsprotafyrirtæki sem sprottið hafa upp í samstarfi álverksmiðja sem núna eru starfandi og ýmissa þjónustuaðila og einstaklinga?

Ég vil líka taka upp þá spurningu sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson beindi til hv. þingmanns: Mun hv. þm. Jón Bjarnason styðja stækkun álverksmiðju á Grundartanga?

Hv. þm. talaði um að með því að auka álframleiðslu á Íslandi væri verið að auka áhættuna í íslensku efnahagslífi. Telur hv. þm. það meiri áhættu fyrir efnahagslíf á Íslandi að hafa þar tvær meginstoðir, sjávarútveg og álframleiðslu, en einungis eina meginstoð, nefnilega sjávarútveginn?

Ég vil svo að lokum spyrja hv. þm. og heiti á hann að svara þeim spurningum sem fyrir hann hafa verið lagðar: Er hv. þm. að einhverju leyti í andstöðu við félaga sína hjá Vinstri grænum á Akranesi? Ef ég man rétt boðuðu þeir það fyrir síðustu kosningar að þeir teldu alls ekki óskynsamlegt að stækka álverksmiðjuna á Grundartanga. Það, ef ég man rétt, var boðskapur Vinstri grænna fyrir sveitarstjórnarkosningar á Akranesi. Er þá hv. þm. Jón Bjarnason ósammála félögum sínum á Akranesi?