Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:24:22 (4500)

2003-03-06 16:24:22# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:24]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Við ræðum hér saman frv. til laga um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga og frv. til laga um raforkuver sem lýtur að orkuöflun fyrir stækkun álversins á Grundartanga.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég hafði vænst þess í einfeldni minni að við fengjum lengri frið eftir átökin um álbræðslu í Reyðarfiði en raun er orðin. Það er ekki hægt að segja að ég fagni því að þurfa að koma í ræðustól og fjalla um stækkun álbræðslunnar á Grundartanga daginn eftir að Alþingi afgreiddi frv. til laga um álbræðslu í Reyðarfirði.

Það er auðvitað margt sem búið er að segja og margt sem á eftir að segja í þessu máli. Þó að Norðurál hafi fengið verksmiðju upp á 300 þús. tonn í gegnum mat á umhverfisáhrifum má nefna það hér til sögunnar að línulagnirnar eru ekki enn samþykktar og línulögnin sem hafði verið sett í mat á umhverfisáhrifum hefur verið kærð, þ.e. úrskurður Skipulagsstofnunar hefur verið kærður. Eftir því sem ég best veit hefur kæran legið óhóflega lengi hjá hæstv. umhvrh. og ekki er búið að úrskurða í því máli. Hér eru því ekki öll kurl komin til grafar frekar en endranær. Svo eigum við eftir að sjá hverju fram vindur með orkuöflun á Nesjavöllum og orkuöflun á Reykjanesi því að, eins og frv. til laga um breytingu á lögum um raforkuver gefur til kynna, er hér verið að tala um orkuöflun frá þremur ólíkum stöðum og í tengslum við hana þarf auðvitað að reisa línur í gegnum þrjú ólík landsvæði. Línulögnin sem um hefur verið fjallað, þ.e. Sultartangalína 3, hefur mætt gífurlegri andstöðu í byggðarlaginu sem hún á að fara um.

Ef ég bara staldra aðeins við það, herra forseti, fóru fram undirskriftir gegn þeirri línu í Hvalfjarðarstrandarhreppi og Svínadal og ég held að ég megi segja að það hafi safnast 500--600 undirskriftir gegn þessari línu, Sultartangalínu 3, sem átti að liggja í tengivirkið á Brennimel. Hreppsnefndarmenn skrifuðu undir þær áskoranir til Landsvirkjunar að línan yrði ekki látin liggja ofan jarðar heldur grafin í jörð, en eftir því sem ég best veit mun það hafa, að mati landsvirkjunarmanna, átt að hleypa kostnaðinum upp um eina 2 milljarða. Það var ekki fögnuður í herbúðum landsvirkjunarmanna vegna þess.

En ég bendi á, herra forseti, af því að við erum nýbúin að ræða hér álverið í Reyðarfirði, að 2 milljarðar er einmitt talan sem Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði að úrskurður umhvrh. í því máli kostaði Landsvirkjun, 2 milljarðar sem Friðrik Sophusson sagði að við gætum ekki sent orkukaupandanum heldur yrði hinn almenni skattborgari að taka þann reikning á sig.

Nú fullyrði ég, herra forseti, að ef við, hinir almennu skattborgarar, þurfum að taka aftur á okkur 2 milljarða vegna álæðis ríkisstjórnarinnar að skattborgarar vilja leggja ýmislegt af mörkum til þess að koma háspennulínunum sem hér um ræðir í jörð. Víraflækjurnar og háspennumöstrin sem fyrirhugað er að reisa, ef af þessum framkvæmdum verður, fara í gegnum gífurlega dýrmætt landsvæði. Þær fara í gegnum landsvæði sem þúsundir ferðamanna nýta og njóta á hverju einasta ári. Við erum að tala um mjög mikla andstöðu landeigenda á þessu svæði, og kæra þeirra hefur enn ekki verið virt hjá umhvrh., enn liggur ekki neinn úrskurður fyrir. En ég krefst þess, herra forseti, að við tökum inn í þessa umræðu möguleikana á að þessar línulagnir verði þá allar settar í jörð, a.m.k. frá því að þær koma í byggð sem er kannski um 10 km leið frá því að þær koma niður af hálendinu og að Brennimel. Það væri algjört lágmark að ríkisstjórnin legði hér sitt af mörkum í því að lágmarka umhverfisáhrifin sem annars yrðu gífurleg.

Í sannleika sagt eru framkvæmdirnar þannig og fyrirhyggjan svo lítil hjá stjórnvöldum í þessum efnum að það er bara vaðið af stað og það á að gera allt fyrir krónu, kúk og kanel, það á ekki að borga það sem til þarf til þess að hægt sé að segja að bestu umhverfisvenjur séu viðhafðar í þessum framkvæmdum. Besta fáanleg tækni er alþjóðlegir staðlar sem við eigum að fara eftir við framkvæmdir af þessu tagi, og bestu umhverfisvenjur eru auðvitað líka staðlar sem við eigum að hafa í huga í þessum efnum. Þegar línulagnirnar til þessarar álbræðslu eru skoðaðar fullyrði ég að áformin sem uppi eru eru flaustursleg, þau eru hálfgerð útsöluáform, þau eru í öllu falli áform sem ekki fara eftir bestu stöðlum í umhverfismálum. Því getum við breytt núna í þessari umfjöllun, herra forseti.

[16:30]

Það eru til samtök, Samtök gegn loftlínum í Hvalfirði, sem hafa unnið í þessu máli. Þótt hv. þm. Guðjón Guðmundsson hafi talað um að menn á svæðinu væru mjög hlynntir þessum stækkunaráformum verð ég að vekja athygli hv. þingmanns á því að einnig eru uppi mjög öflug mótmæli í sveitunum sem þurfa að taka á sig allt víravirkið og öll möstrin sem um ræðir. Eigi að afla þessarar orku frá þremur ólíkum stöðum erum við ekki bara að tala um Sultartangalínu þrjú heldur mögulega þrefalda stærð slíkra lína, og á endanum sitjum við kannski uppi með álíka spagettí og á Hellisheiðinni þar sem eru samsíða tvær línur með 16 vírum, hvor lína, gífurlegt umhverfislýti.

Eftir því sem við komumst næst eru þessar tvær línur samsíða vegna þess að menn gleymdu að tala saman. Menn vissu ekki hvor af öðrum, Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun. Þannig voru gerð plön um tvær línur. Þegar menn komust að því að hægt væri að sameina þær í eina sögðu þeir það of seint. Svona dónaskap gagnvart umhverfinu verðum við að leggja af. Hér er slys af sama tagi í uppsiglingu og nauðsynlegt að í þessari umræðu verði allt gert til að koma í veg fyrir umhverfissóðaskap af því tagi, sem hefur viðgengist hér. Það er kominn tími til að á þessi mál verði litið heildstætt, en ekki anað út í hlutina á þeim hraða sem ríkisstjórnin hefur tíðkað upp á síðkastið.

Herra forseti. Þessu frv. á þskj. 1090 var dreift á borð þingmanna í fyrrakvöld í mjög miklum önnum þingsins. Auðvitað hefur ekki gefist nægur tími hjá þingmönnum til að lesa þessi tvö mál þannig að fólk verður að taka viljann fyrir verkið. Við erum illa undirbúin fyrir þetta mál sem er talsvert að vöxtum. Það hefur ekki gefist eðlilegt svigrúm fyrir þingmenn til að kynna sér málin eða fara í saumana á þeim. Til marks um fljótræðið, herra forseti, langar mig að grípa niður í athugasemdir við lagafrv. um raforkuverin. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ekki er unnt að hefjast handa við undirbúning fjármögnunar á verkefninu nema fyrir liggi í hvaða framkvæmdir verður ráðist vegna orkuöflunar og að leyfi hafi verið veitt fyrir þeim framkvæmdum. Fyrir liggur að ákvörðun um stækkun álversins verður að taka mjög fljótt ef unnt á að vera að ljúka framkvæmdum við fyrri hluta stækkunarinnar áður en framkvæmdir vegna álvers í Reyðarfirði ná hámarki.``

Hér er ríkisstjórnin eins og rófuskelltur refur, á harðahlaupum undan sjálfri sér. Reyðarálsverkefnið var samþykkt í gær og við horfum fram á 18 mánaða tímabil sem ríkisstjórnin þykist þurfa að redda atvinnuástandinu í landinu. Hún ætlar því að þröngva þessu verkefni með skóhorni og töngum inn í þetta 18 mánaða tímabil. Nú á bara að láta hendur standa fram úr ermum og rumpa af einni álverksstækkun og eins og þremur orkuverum eins og ekkert sé sjálfsagðara á mettíma.

Vinnubrögð af þessu tagi, herra forseti, eru forkastanleg. Þau eru ríkisstjórn Íslands til skammar. Ef hér væri unnið af einhverju viti og þekkingu og af einhverri alúð gagnvart þjóð og landi væri auðvitað búið að gera langtímaáætlun um þessi mál fyrir löngu. Þá er ég að tala um langtímaáætlanir varðandi orkunýtingu og stóriðju á Íslandi. Það er auðvitað ekki forsvaranlegt, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli lævíslega lauma inn áætlunum um að gera Ísland að stærsta álútflutningsríki álfunnar án þess að um það séu teknar pólitískar ákvarðanir. Þær pólitísku ákvarðanir liggja ekki fyrir.

Það er heldur ekki forsvaranlegt, herra forseti, að ríkisstjórnin ætli að nýta meira eða minna allar þær orkuauðlindir sem land okkar býr yfir í álbræðslu. Við þurfum að taka pólitíska ákvörðun um hvort við erum sátt við og hlynnt því að orkuauðlindir okkar séu nýttar á þennan hátt. Sú pólitíska ákvörðun hefur ekki verið tekin heldur er ríkisstjórnin að vinna hvert verkefni fyrir sig. Á endanum stendur þjóðin frammi fyrir því að ríkisstjórnin hafi gert hana að stærsta álútflutningsríki álfunnar, ríki sem framleiðir orku á þriðja heims verði fyrir stór álver.

Af því að hv. þm. Guðjón Guðmundsson talaði um það hér að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs --- hann nafngreindi reyndar sérstaklega hv. þm. Jón Bjarnason --- töluðu niður til þeirra sem vinna störfin í álverunum ... (GuðjG: Þetta er rangt, ég nefndi ekki Jón Bjarnason í því sambandi.) Það kann vel að vera að mér hafi misheyrst, herra forseti, þar sem ég hlustaði á ræðu hv. þm. í sjónvarpskerfi okkar og vann jafnframt að undirbúningi fyrir þessa ræðu. Í öllu falli ræddi hv. þm. um að verið væri að tala á niðrandi hátt eða niður til þeirra sem ynnu störf í álverum. Ég ætla aðeins að koma inn á það. Ég spyr hv. þingmann: Gerir hann sér ekki grein fyrir þeirri hættu sem starfsmenn í álverum standa frammi fyrir vegna þeirrar mengunar sem óhjákvæmilega hlýst af álbræðslunni? Sannleikurinn er sá, og það sýna tölfræðirannsóknir um allan heim, að álversstarfsmenn eru í aukinni áhættu hvað varðar ákveðna sjúkdóma. Þar er t.d. verið að tala um krabbamein í lungum og öndunarfærum, sem er vegna útblásturs óheilsusamlegra lofttegunda í þeirra nánasta vinnuumhverfi.

Ég segi, herra forseti: Ég skil fullkomlega þörfina, hvort sem er Akurnesinga eða Reyðfirðinga, fyrir atvinnuuppbyggingu. Ég skil mætavel þörf þjóðarinnar fyrir atvinnuuppbyggingu og þörfina fyrir að dreifa henni um landið. En ég skil ekki þessa áráttu stjórnvalda, að einu hugmyndirnar sem virkilega fá brautargengi hjá stjórnvöldum, fá fyrirgreiðslu, skuli vera stóriðjuhugmyndir. Þar er stærstur hluti starfanna unninn í óheilsusamlegu umhverfi, þar sem fólk er í umhverfi sem setur það í heilsufarslega áhættu við störf sín. Það er þess vegna hægt að segja að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð tali af umhyggju fyrir fólki sem starfar í áliðnaði. Við vörum við því að störf af þessu tagi verði svo mörg og í raun einu störfin sem ríkisstjórnin leggur á sig að styðja við í þessu landi. Sannleikurinn er auðvitað sá að hér er um áhættusöm störf að ræða. Þau eru því miður unnin í heilsuspillandi umhverfi. Ég mundi gjarnan vilja sjá ríkisstjórnina búa þegnum sínum störf þar sem heilsu fólks væri ekki ógnað.

Þá langar mig, herra forseti, að staldra aðeins við orkuöflunina sem nauðsynleg er fyrir þessa álversstækkun sem á endanum fer, eftir því sem mat á umhverfisáhrifum fyrirtækisins Norðuráls gerir ráð fyrir, upp í 300.000 tonn. Það hafa ekki verið svo litlar deilur um Norðlingaölduveitu, þann orkukost sem Landsvirkjun hefur lagt til sem hinn eina möguleika til að sjá þessari stækkun fyrir orku. Þær miklu deilur stóðu lengi, herra forseti, og óþarfi að rekja þá sögu í einhverjum smáatriðum hér. Þess er skemmst að minnast að hæstv. settur umhvrh., Jón Kristjánsson, kvað upp úrskurð sem menn hafa gert að umtalsefni í ræðum sínum í dag. Sá úrskurður byggir á tillögu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens um mjög mikið lækkaða lónhæð og tilfærslu á Norðlingaöldulóni.

Ég minnist þess, herra forseti, að í lok febrúar var tekið viðtal við Friðrik Sophusson, forstjóra Landsvirkjunar, um úrskurð hæstv. ráðherra. Friðrik Sophusson var inntur eftir því hvernig honum litist á þennan úrskurð og tillögu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens. Svo við rifjum aðeins upp, herra forseti, gerir hún ráð fyrir því að veitulónið verði einungis 3,3 ferkílómetrar, það verði í 566 metra hæð yfir sjó, en það lón kæmi þá í staðinn fyrir 29 ferkílómetra lón sem gert var ráð fyrir að yrði í 575 metra hæð yfir sjó, samkvæmt mati á umhverfisáhrifum, í matsskýrslunni sem Landsvirkjun lagði fram.

Friðrik Sophusson vitnar í þessu Morgunblaðsviðtali sem ég hef hér fyrir framan mig af vef Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu. Hann tók fram að markmið Landsvirkjunar væri fyrst og fremst að halda sér fyrir utan friðlandið með lónið í samræmi við úrskurðinn. Síðan tók hann fram að Landsvirkjun liti alls ekki svo á að hún væri bundin af tillögu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens. Hér er vitnað til orða forstjórans þar sem hann segir á vefsíðu Landsvirkjunar að lónhæðin geti farið í allt að 568,5 metra því að sú lónhæð haldi lóninu utan friðlandsins.

Herra forseti. Þessi orð forstjóra Landsvirkjunar eru gífurlega alvarleg. Það er auðvitað eðlilegt að þau séu skoðuð í þessari umræðu í samhengi við allt sem á undan er gengið. Ég vildi reyndar, herra forseti, að umhvrh. væri hér viðstödd því það er náttúrlega óeðlilegt við umræður um þetta mál að hæstv. umhvrh. skuli ekki sitja hér og veita þessu máli tilhlýðilega virðingu, og þingmönnum um leið, og þjóðinni sem búin er að takast á um þetta mál árum saman. Sannleikurinn er sem sagt sá að Landsvirkjun telur sig ekki bundna af úrskurði hæstv. ráðherra Jóns Kristjánssonar heldur telur að henni sé bara frjálst að færa þetta lón upp í 568,5 metra. Þá horfir málið allt öðruvísi við, herra forseti.

Ég spyr hæstv. iðnrh.: Er þetta rétt? Getur Landsvirkjun litið þannig á málin að hún sé ekki bundnari af hugmyndinni sem lá að baki úrskurði hæstv. ráðherra, Jóns Kristjánssonar, en svo að Landsvirkjun ætli sér einhliða að ákveða að lónhæðin verði 568,5 metrar? Þessari spurningu verður að svara hér við 1. umr. málsins. Ég geri ráð fyrir því að bæði umhvn. og iðnn. fái þetta mál til umfjöllunar. Ef það hefur ekki verið ætlunin geri ég a.m.k. kröfu um það að umhvn. fái málið inn á sín borð. Hér eru það margir gífurlega gagnrýnisverðir umhverfisþættir sem þarf að líta á og því algjör krafa af minni hálfu að umhvn. fái þetta inn á sitt borð.

Það er mjög alvarlegt, herra forseti, ef úrskurður umhvrh. verður notaður sem tyggigúmmí í höndum Landsvirkjunar og það sem menn þó fengu fram með honum og hafa fagnað í tengslum við hann verði teygt og togað.

Eitt er þó í sambandi við úrskurð hæstv. setts umhvrh. Jóns Kristjánssonar sem valdið hefur deilum. Það er setlónið, svokallað setlón sem er bæði setlón og veitulón, sem gert er ráð fyrir að reist verði upp undir rótum Hofsjökuls, örlítið austanvert. --- Gengur nú hæstv. ráðherra, Jón Kristjánsson, í salinn og ég fagna því. Hann gæti mögulega svarað því sem mér þykir óljóst og hef verið að krefja svara við. Ég vil benda á að setlónið sem ég var komin að í ræðu minni hefur vakið upp margar spurningar og vangaveltur hjá fólki. Nú segja náttúrufræðingar að ef 80% af þessu vatni sem færi í setlón úr Vesturkvíslinni og Litlu-Arnarfellskvíslinni væri möguleiki á að á 20--30, í hæsta lagi 40 árum kæmi í ljós að verin hafi beðið óbætanlegan skaða af því að vatnið hefði verið fjarlægt.

Náttúran vinnur ekki alltaf á sama hraða og ríkisstjórn Íslands. Náttúran vinnur mjög hægt. Þessi ver hafa orðið til í rólegheitum og þau hafa verið varðveitt af náttúrunni og náttúrufarinu í rólegheitum árum saman. Ef við ætlum að taka ákvörðun um að taka Vesturkvíslina að stærstum hluta og Litlu-Arnarfellskvíslina, vatnið sem úr þeim hefur hingað til runnið niður í verin, setja það í setlónið og veita í Þjórsárlón, er hætt við að það geti haft gífurlega alvarlegar afleiðingar á gróðurfar veranna en þau áhrif komi kannski ekki í ljós fyrr en að 20--30 árum liðnum.

Herra forseti. Ætlum við að taka þessa áhættu? Ætlum við að heimila það þegjandi og hljóðalaust að setlónið sem hefur verið deilt um, sem er í sannleika sagt Kvíslaveita 6, þ.e. sjötti áfangi Kvíslaveitu sem Landsvirkjun fær upp í hendurnar sem mótvægisaðgerð en ekki sjálfstæða framkvæmd eins og Landsvirkjun hafði alltaf litið á þetta lón, að umhverfisáhrif þessa lóns verði ekki metin? Það liggur í spilunum. En, herra forseti, ég mótmæli því.