Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:54:55 (4506)

2003-03-06 16:54:55# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:54]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að við hv. þm. Guðjón Guðmundsson erum á öndverðum meiði hvað varðar atvinnustefnu fyrir Ísland og Íslendinga. Og ég sætti hv. þm. Guðjón Guðmundsson ekki við mína stefnu og hann mig auðvitað ekki við sína. Þar sem við getum hins vegar náð saman er auðvitað í þessum viðmiðunarmörkum sem hv. þm. nefnir í andsvari sínu. Það er auðvitað í því að ná upp umhverfisstöðlum og ásættanlegum stöðlum á þessum vinnustað. Þegar ég ræddi um það áðan í ræðu minni að fólk sem starfar í kerskálum í álverum væri í ákveðinni heilsufarslegri áhættu er það vegna þess að ég þekki greinar sem hafa verið skrifaðar um þetta og þá er verið að tala um á heimsvísu. Ég er ekki að tala um einstök álver í því sambandi.

Auðvitað skiptir það verulegu máli að hér hefur verið reynt að standa vel að verki í þessum efnum og ég þekki það vel, t.d. í álverksmiðjunni suður í Straumsvík, hvernig búið hefur verið að starfsfólki. Það er búið ákaflega vel að því. Ég þekki það ekki á Grundartanga því það álver hef ég ekki skoðað.

Auðvitað verðum við að standa saman um það að umhverfisstaðlar séu allir virtir þannig að við lágmörkum þá áhættu sem fólk starfar við. Á sama hátt verðum við að einbeita okkur að því að lágmarka umhverfisáhrifin og sjá til þess að alþjóðlegir staðlar sem við höfum undirgengist í þeim efnum séu líka virtir. Hluti af því að virða umhverfislega staðla er t.d. það að grafa háspennulínur í jörð á þeim kafla þar sem þær ógna t.d. búsetu eða annarri atvinnustarfsemi. Ég held að við hv. þingmaður verðum að ná saman í því að fara í að lágmarka öll þessi áhrif sem við eigum á hættu að verði gífurleg ef það er ekki einhver sem stendur á bremsunni. Og ef ég á að vera í því hlutverki að standa á bremsunni er ég alveg til í það.