Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 17:01:49 (4509)

2003-03-06 17:01:49# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[17:01]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum um álbræðslu á Grundartanga. Ég sit í iðnn. fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Ég ætla við fyrstu umræðu ekki að hafa langt mál um þetta frv. En ég set stórt spurningarmerki við frv. þar að lútandi að heimilt verði að fara í 300 þús. tonn. Nú þegar er heimild fyrir 180 þús. tonna framleiðslu fyrir þetta álver, þ.e. leyfilegt er að stækka úr 90 þús. tonnum í 180 þús. tonn.

Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram varðandi þessa málsmeðferð. Hér er verið að henda stórmálum inn í þingið á allra síðustu dögum þess. Vika er eftir af þinginu. Í iðnn. erum við með gríðarlega stór mál til meðferðar, svo sem raforkulögin og einsýnt er að iðnn. verður að vinna í þessum málum yfir helgina. Í sjálfu sér held ég að frv. til laga um álbræðslu á Grundartanga þurfi ekki að taka mjög langan tíma vegna þess að nefndin er fest í því vinnuferli sem átti sér stað varðandi álbræðslu í Reyðarfirði og þekkir þess vegna mjög vel til þeirra mála. Þetta er náttúrlega sambærilegt. En hér hangir miklu meira á spýtunni en bara Grundartangaverksmiðjan vegna þess að afla þarf orku til þess að stækkunaráform geti orðið að veruleika.

Ég nefndi áðan að verksmiðjan hefur heimild til þess að fara í 180 þús. tonna framleiðslu. En breytingin hér er sú að aukið er við heimildir verksmiðjunnar þannig að hún geti farið í 300 þús. tonn.

Það sem hangir á spýtunni varðandi þessar auknu heimildir og það að fara úr 90 þús. tonnum í 180 þús. tonn er auðvitað gríðarleg raforkuöflun. Það er einkum þar sem iðnn. þarf að fara virkilega vel yfir málin. Þar kemur fram í gögnum að áformað er að í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur verði Nesjavallavirkjun stækkuð úr 90 megavöttum í 120 megavött. Ein vél verður sett í gang á Nesjavöllum. Þetta eru virkilega hlutir sem ég tel að hv. iðnn. þurfi að fá mjög góðar upplýsingar um vegna þess að komið hefur fram að niðurdráttur er í svæðinu á Nesjavöllum, þ.e. þar minnkar þrýstingur, enda kemur fram í gögnum að bora mun þurfa fleiri holur eftir því sem árin líða á Nesjavöllum. Það er náttúrlega stóralvarlegur hlutur að setja orkulindir höfuðborgarinnar á spil. Við þurfum náttúrlega að vita til lengri tíma litið hvað við erum að gera í þessum efnum. Þess vegna er mjög brýnt að hæstv. iðnn. fái mjög glöggar upplýsingar um að áform um að auka orkuöflun á Nesjavöllum muni ekki leiða til einhverra stórvandræða hér að örfáum áratugum liðnum hvað varðar orkuöflun til höfuðborgarinnar frá Nesjavöllum.

Við gerum okkur öll grein fyrir því að jarðhitasvæði eru líka á Hellisheiði þar sem Orkuveitan er að þreifa fyrir sér. En þar er svo sem ekkert fast í hendi.

Það er líka ástæða fyrir hv. iðnn. að fara yfir áform um að auka orkuvinnslu hjá Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi og á Reykjanesi. Ég vil sjá og setja í umræðu allan þann pakka vegna þess að síðast þegar ég átti samtöl með hæstv. iðnn. við forsvarsmenn Hitaveitu Suðurnesja var sá skilningur í mínum huga eftir þau samtöl að mjög langan tíma tæki að virkja t.d. á nýju svæðunum á Reykjanesi, menn þyrftu að þekkja orkusvæðin, vélarnar þyrftu að koma taktfast inn og þetta væri ekki gert einn, tveir og þrír. Mér skilst að tiltölulega auðvelt sé að auka framleiðsluna um 16 megavött í Svartsengi sjálfu. En hitt orkusvæðið er sjálfstætt og ónumið. Mér finnst því að nefndin þurfi að fara ákaflega vel yfir í þessa hluti og gera sér grein fyrir því hvert við stefnum.

Það er líka algjörlega óviðunandi að samþykkja frv. til laga um þvílíka stækkun Norðuráls þegar enn hefur ekki litið dagsins ljós áætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Að manni læðist sá grunur að áform ríkisstjórnarinnar séu þau að áætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma muni ekki líta dagsins ljós fyrr en búið er að hnýta það með leyfum að stækka Grundartanga, álverið í Straumsvík og svo náttúrlega það sem komið er í höfn frá hinu háa Alþingi, verkefnið fyrir austan. Við hljótum að krefjast þess að áætlun um nýtingu vatnsafla og jarðvarma sé grunnur að þeim leyfum sem er verið að gefa eða áformum af þessu tagi.

Mér finnst þess vegna einboðið að hv. iðnn. verði að fara vel yfir þessi mál á grunni þess að gríðarlegrar orkuöflunar þarf við til að hægt sé að auka framleiðsluna eins og áformað er. Ég bendi á að verksmiðjan á Grundartanga hefur þegar leyfi fyrir helmings stækkun og það þarf um 150 megavatta afl í þessa helmings stækkun.

Auðvitað viljum við sjá hvert stefnir í framtíðinni t.d. hvað varðar orkuöflun til hinnar almennu notkunar á höfuðborgarsvæði. Ætla menn bara án áætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma að binda orkunotkunina við þessi stóru fyrirtæki og sitja upp einn góðan veðurdag með mjög takmarkaða möguleika fyrir almenna notendur hér? Eru menn að setja á spil orkulindir Reykjavíkur eins og á Nesjavöllum? Það hefur verið talað um það áður. Það eru bara nokkrir mánuðir síðan menn sögðu í mín eyru þar á bæ að mjög heppilegt væri að setja ekki inn aukavélasamstæður núna því ástæða væri til þess að fylgjast vel með svæðinu, hvernig það artaði sig og nú kemur fram í gögnum að örlítill niðurdráttur er í svæðinu sem bendir til þess að kannski sé varasamt að fullnýta það. Ef hægt er að fullnýta það og menn trúa því að það sé hægt, hve mörg ár er þá verið að tala um? Er verið að tala um 10, 20 eða 30 ár?

Við sem höfum fylgst með orkunýtingu á þessu sviði gerum okkur grein fyrir því að menn hafa víða lent í vandræðum á hitaveitusvæðum þar sem dælt hefur verið óeðlilega miklu út úr jarðhitasvæðum og orkuveitur hafa lent í vandræðum og gríðarlegum kostnaði þar að lútandi. Þetta verðum við að fá að vita. Við verðum að fá framtíðarsýn til nokkurra áratuga bæði hvað varðar jarðhitasvæði Reykjavíkurborgar og ekki síður jarðhitasvæði Suðurnesjamanna. Af hverju er þetta írafár? Þessu er kastað inn í nefndarvinnu viku fyrir þinglok. Þetta eru óvönduð vinnubrögð. Þetta nær ekki nokkurri átt. Hér er verið að tala um þvílíkt stóra hluti, ekki bara verksmiðju heldur orkupólitík höfuðborgarsvæðisins í heild sinni. Vandaðra vinnubragða þarf við.

Þetta er í allt öðru formi en ég hef fengið upplýsingar um eins og ég gat um áðan, bæði hvað varðar Nesjavallasvæði og Reykjanessvæði. Hvers vegna er nú allt í einu hægt, hæstv. iðnrh., að fara út í orkuöflun sem nemur 80 megavöttum á Reykjanesi þegar upplýsingar eru gefnar bara fyrir örfáum mánuðum um að það verði að gerast hægt og rólega með því að setja inn 10--15 megavatta túrbínur eftir því sem menn þekkja og kunna á svæðið? Þetta eru grundvallarspurningar sem við verðum að fara yfir.

Það þarf orkuöflun fyrir þessari helmingsstækkun sem leyfi er fyrir. Það eru 150 megavött. Hvar ætla menn að taka restina? Við verðum að fá að vita hvar það á að vera. En ekki er til rammaáætlun þannig að enginn veit. Þetta er pólitík sem byggir á því að skella sér á magann og sjá hvernig fer. Það er engin heildstæð stefna.

Hvað eiga menn von á því að höfuðborgarsvæðið vaxi að mannfjölda og hvernig eiga menn von á því að iðnaðurinn byggist upp hér á þessu svæði sem augljóslega þarf orku? Ætla menn brenna allar brýr að baki sér þannig að þeir aðilar þurfi að afla sér miklu dýrari orku kannski allt annars staðar af landinu? Við höfum engin svör við þessum framtíðaráformum. Um þetta snýst málið.

Það er engin ástæða til þess að gefa þessa auknu heimild núna upp í 300 þús. tonn. Ekkert liggur á. Fyrirtækið hefur heimild til þess að tvöfalda framleiðslu sína og til þess þarf 150 megavött. Af hverju þarf að fara með frv. í gegnum þingið núna viku fyrir þinglok um að fyrirtækinu sé heimilt að fara upp í 300 þús. tonn?

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst koma fram með þessar athugasemdir við 1. umr. um málið. Auðvitað munum við kalla aðila til umsagnar eins og hægt verður miðað við þennan tíma í hv. iðnn. Það er augljóst. En tíminn er mjög knappur. Bara næsta helgi er eftir til vinnu og síðan þingdagarnir í næstu viku.

Síðan vil ég bara segja eitt í sambandi við atvinnustefnu. Okkur hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði er legið á hálsi fyrir að tala niðurlægjandi um þá sem vinna í álverum. Það er alls ekki svo. Hins vegar hafa stjórnarliðar talað t.d. um ferðamannaþjónustuna sem atvinnugrein byggða á láglaunastörfum. Þeir sem tala þannig um ferðaþjónustuna vita ekkert hvað ferðaþjónusta snýst um. Ég veit ekki til þess, hingað til alla vega, að t.d. stéttir eins og flugstjórar væru illa launaðar, ferðaskrifstofufólk, sölumenn, þjónar eða matsveinar á hótelum og veitingahúsum. Málflutningur af því tagi er því gjörsamlega út í hött.

Ég hnýti þessu bara hér aftan í vegna þess að það kom þráfaldlega fyrir í ræðum hv. þingmanna í dag að ferðamannaþjónustan byggðist á illa launuðum störfum.

Virðulegi forseti. Að endingu vil ég árétta það að ég lýsi andúð minni á því að henda inn þessu stóra máli á síðustu dögum þingsins. Ég held að ekki sé nokkur nauðsyn á því. Fyrirtækið hefur heimild til þess að stækka og er í samningum við Landsvirkjun hvað varðar orkukaup til þeirrar stækkunar. Mér er ómögulegt að skilja af hverju þarf að veita heimild til stækkunar upp í 300 þús. tonn þegar ekki liggja fyrir nokkur áform eða nokkur skýrsla um það hvernig við ætlum að nýta vatnsafl og jarðvarma í landinu og að ég tali nú ekki um hér í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðis, vegna þess að þar á orkuöflunin að miklu leyti að fara fram.