Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 17:22:02 (4514)

2003-03-06 17:22:02# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[17:22]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Daginn eftir að hið háa Alþingi samþykkir heimildarlög vegna álvers við Reyðarfjörð tekur það til umfjöllunar frv. um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga. Það er ekki skrýtið að einhverjum finnist áherslur í atvinnumálum býsna einhæfar um þessar mundir.

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að vekja athygli á atriði sem Samfylkingin vakti rækilega athygli á varðandi álver við Reyðarfjörð. Það er í e-lið 3. gr. þessa frv. Þar er verið er að setja nýja málsgrein inn í samninginn sem nú þegar gildir um álverið við Hvalfjörð.

Þessi nýja grein á að orðast svo, með leyfi forseta:

,,Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þar með talin álfyrirtæki.``

Herra forseti. Ef ákvæðið gagnvart þessu fyrirtæki er með öðrum hætti í gildandi lögum hvaða nauðir rekur til þess að þetta ákvæði sé sett inn núna? Þá kem ég að erindi mínu í umræðuna um þetta mál.

Mér finnst nauðsynlegt að hæstv. ráðherra upplýsi betur en hún gerði í framsögu sinni á hverju þessi ákvæði í 3. gr. byggja. Ég sé svipinn á þeim. Hann er nokkuð ljós. En ég spyr hæstv. ráðherra: Á hverju byggja þessi ákvæði? Af hverju eru þau eins og þarna stendur? Af hverju þarf að breyta ákvæðum sem fyrir eru í samningum á þann veg sem hér kemur fram? Ég óska eftir skýrum svörum.

Liggur fyrir samningur um framkvæmdina? Liggur fyrir samningur sem byggir með einhverjum hætti á þessum ákvæðum? Þegar við fjölluðum um álverið við Reyðarfjörð voru ákvæði frv. að hluta til ákvæði þess samnings eða þeirra samningsdraga sem fyrir lágu. Þar af leiðandi mátti fáu eða engu hnika. Það var heldur ekki gert. Þær breytingar sem voru gerðar voru tæknilegar eða orðalagsbreytingar.

Liggur hér samningur að baki sem gerir að verkum að ákvæðin þurfa að vera með þessum hætti? Eru þau þá undir sömu sök seld og þau ákvæði sem samþykkt voru á Alþingi í gær varðandi álver við Reyðarfjörð, eða er hæstv. ráðherra að skrifa samninginn með þessu frv.?

Þá væri líka athyglisvert að vita, vegna þess að það hlýtur að spila saman, annars vegar orkuverð og hins vegar önnur samningsákvæði: Liggur orkuverðið fyrir? Er Landsvirkjun búin að semja um orkuverð varðandi álbræðslu á Grundartanga við framkvæmdaraðila sem við vitum kannski ekki enn hver verður? Er búið að semja um orkuverð? Ef ekki, hvaða forsendur gáfu menn sér þá í þessum ákvæðum í 3. gr.?

Ég hef skilið það þannig, herra forseti, að allt yrði þetta að spila saman með ákveðnum hætti en þessu kem ég ekki alveg heim og saman og óska eftir skýrum svörum.

Herra forseti. Eftir 2. umr., við afgreiðslu um álverið við Reyðarál var ég með atkvæðaskýringu um skattagreinina. Ég óskaði Alþingi þess þá að við þyrftum ekki oftar að takast á við frumvörp af slíku tagi, þ.e. að hinum sértæku aðgerðum ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum færi senn að ljúka. Líklega mun þeim ekki ljúka fyrr en hér verða kosningar og skipt verður um ríkisstjórn. Satt best að segja þá er svona nánast yfir mann gengið. Hér rekur hver sértæk aðgerðin aðra hjá ríkisstjórn sem reynir að gefa sig út fyrir að vera ríkisstjórn hinna almennu úrræða, með almennar leikreglur. Já, það er nú heldur.

Það er ótrúlegt að á sama tíma og fjallað er um álver við Reyðarfjörð, allar þær sértæku reglur sem það álver fékk og öll þau frávik frá því starfsumhverfi sem önnur íslensk fyrirtæki búa við, skyldi þetta verða til. Af hverju tókust menn ekki á við að reyna að búa til reglur sem gætu þá gilt fyrir fyrirtæki þessarar gerðar eða almennar reglur sem ættu við öll fyrirtæki? Af hverju fóru menn enn á ný þessa gömlu leið hinna sértæku úrræða?

Svarið hlýtur að liggja í því að hér er búið að gera eitthvað fleira. Að baki hlýtur að liggja samningur og orkuverð, eða hvað? Á hverju byggja þessi ákvæði? Það er satt að segja ógeðfellt að þurfa að standa í þessum sértæku aðgerðum gagnvart hverju fyrirtækinu á fætur öðru. Þó að manni sé ekki á móti skapi að þessi uppbygging eigi sér stað er aðferðin slík að það hlýtur að taka á fleiri en mig að þurfa að taka þátt í þessum vinnubrögðum.

Herra forseti. Ég vek athygli á því að við erum að fjalla um þetta mál sama dag og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir okkur að það hafi verið ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ríkisbankarnir settu 6 milljarða kr. í deCODE sem hlutafé á sínum tíma. Sannarlega er þetta dagur hinna stóru sértæku aðgerða og umfjöllunar um þær.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í einstök atriði 3. gr. Það gerði hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir áðan. En það varð ekki hjá því komist, vegna þess að hún gerði það ekki sérstaklega að umræðuefni, að fjalla um e-liðinn, þ.e. þann lið sem kveður á um útblástur lofttegunda.

[17:30]

Svo virðist að fyrirtæki í áliðnaði ráði því núorðið með hvaða hætti íslensk fyrirtæki leggja á mengunarskatta eða úthluta mengunarkvótum ef til þess kemur í næstu framtíð, þ.e. ríkisstjórnin vill selja íslensk stjórnvöld undir það með hverju frv. á fætur öðru að ef þessi fyrirtæki eigi að greiða útblástursskatt þá þurfi það að vera með almennum hætti og eins og á öll önnur fyrirtæki hér á landi.

Nú er ekkert á móti því að menn reyni að móta reglur sem geti átt við öll fyrirtæki hér á landi. Hins vegar væri æskilegt fyrir íslensk stjórnvöld að geta sjálf haft það á valdi sínu með hvaða hætti þau nálgast þessa skatta, með hvaða hætti þau kjósa að beita hagrænum aðferðum til að draga úr mengun. Það er alveg ljóst að þar sem menn eru farnir að velta þessum hlutum alvarlega fyrir sér hefur bestur árangur náðst þar sem þeir nýta þær aðferðir að þeir hagnist á því að menga minna, þ.e. að menn beiti svokölluðum hagrænum aðgerðum. Það hlýtur að koma að því að Ísland þurfi að gera það líka. Að því hlýtur að koma, þó svo að menn tali hér um endurnýjanlega orkugjafa og hreina orku --- þó að það megi nú setja svolítið innan sviga eins og menn vita --- þá hlýtur að koma að því að við þurfum að stemma stigu við útblæstri.

Þó að Ísland sé eyja er það ekki eyja í mengunarmálum. Það hefur komið fram og kom nú síðast fram í atkvæðaskýringu hæstv. umhvrh. í gær við lokaafgreiðslu frv. um álver við Reyðarfjörð þar hún taldi okkur það til tekna að við værum með vatnsaflsvirkjun sem væri til muna hagkvæmari mengunarbúskap heimsins en kolavirkjanir.

En það hlýtur að koma að því að við þurfum að hugsa okkur um, að við þurfum að grípa til aðgerða sem eru þá í samræmi við það sem aðrir eru að gera. Mér finnst það ekki nógu gott, mér finnst það í rauninni mjög slæmt að íslensk stjórnvöld skuli tilbúin til þess að láta samninga við fyrirtæki í tiltekinni atvinnugrein ráða því hver stefnan á að vera í framtíðinni. Það er sjálfsagt að hafa reglur þannig að þær séu eins gagnvart þeim fyrirtækjum sem eins er ástatt um, þ.e. að fyrirtæki í sömu atvinnugrein búi við sömu reglur, að fyrirtæki í samkeppni búi við sömu reglur. En að ekki megi leggja tiltekin gjöld á tiltekna tegund fyrirtækja nema öll önnur fyrirtæki í landinu borgi slík gjöld einnig, þykja mér, herra forseti, afarkostir fyrir íslensk stjórnvöld.

Nú veltur auðvitað á því hve skýr og afdráttarlaus svör hæstv. ráðherra verða hér á eftir hversu mikið þarf að vinna þetta mál í iðnn. En það er alveg ljóst að bæði þetta frv. og frv. um raforkuver sem kemur hér til umfjöllunar á eftir, þurfa mikla umfjöllun. Ég leyfi mér að gagnrýna það að þessi frv. skuli koma hér fram á síðustu dögum þingsins. Ég leyfi mér að setja spurningarmerki við að þess hafi verið þörf. Það er alveg ljóst að Alþingi verður kallað saman fljótlega eftir kosningar og þá hefði þess verið kostur að takast á við framtíðarmál eins og þessi. Mér þykir verra að Alþingi skuli eiga að fúska með þetta mál eins og greinilega er verið að gera kröfu um og hefði svo sannarlega viljað að málið hefði annan aðdraganda og væri í öðrum búningi en hér liggur fyrir.

Ég veit hver svörin eru við þessu. Þau hafa þegar komið fram. En ég vildi eigi að síður, herra forseti, láta þessa gagnrýni koma hér fram.