Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 17:36:16 (4515)

2003-03-06 17:36:16# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[17:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál er hér til umræðu, stækkun álvers Norðuráls í Hvalfirði. Ég held að varla sé hægt að deila um að þessu fyrirtæki er nauðsynlegt að koma verksmiðju sinni í þannig horf að hún geti örugglega verið samkeppnishæf til framtíðar. Það er ljóst af því sem hefur komið margoft fram frá sérfræðingum á sviði þessarar framleiðslu að til þess að vera samkeppnishæfar inn í framtíðina þurfa verksmiðjur að vera býsna stórar. Verksmiðja af þeirri stærð sem hér hefur verið í gangi á Grundartanga nær ekki þeirri stærð sem þarf. Þó að þar hafi gengið vel hefur verksmiðjan notið þess að hafa verið þó nokkuð vel heppin með aðstæður á álmarkaði í upphafi síns ferils. Ég vildi byrja á því að segja þetta.

Síðan vekja ýmsir hlutir í frv. upp spurningar. Mér verður nú á að spyrja til að byrja með um 1. gr. frv. Það kom mér satt að segja töluvert á óvart að lesa þar að það skuli eiga að vera sérstakt félag og önnur kennitala á þessari stækkun álversins. Ég átta mig ekki í fljótu bragði á því af hverju það er og ég vil biðja hæstv. ráðherra að útskýra það fyrir okkur hvernig á því stendur að þessi leið er valin. Hver eru rökin fyrir því? Ég held að það sé hollt fyrir þingið að vita það. Ég spyr líka að því af einni annarri ástæðu. Hún er sú að í 3. gr. frv. er talað um að lækka tekjuskatt eða hafa lægri tekjuskatt en er á félaginu núna. Ég átta mig ekki í fljótu bragði alveg á því hvort sú lækkun á tekjuskatti sem þarna er um að ræða á bara við um þetta nýja félag eða hvort gilda eigi 18% tekjuskattur um bæði félögin, bæði Norðurál og nýja félagið með nýju kennitöluna.

Mig langar líka til þess að biðja hæstv. ráðherra að útskýra hvers vegna menn eru svo óskaplega útbærir á lækkun tekjuskatts gagnvart þessum félögum, vegna þess að það er augljóst mál að við þá sem reka stóriðju á Íslandi hefur verið samið um skattamál, raforkuverð og fjölda annarra atriða sem öll saman komin hafa myndað þann pakka sem hefur orðið niðurstaða. Mig rak í rogastans að hlusta á ráðherrana, hæstv. forsrh. t.d., hlaupa til um leið og hann er spurður og lýsa því yfir að eðlilegt sé að lækka skattprósentuna á þessum félögum eins og þessu álveri og álverinu í Straumsvík. Ýmsir hlutir hafa verið uppi á borðum þegar samið hefur verið um raforkuverð og menn hafa greinilega litið á Landsvirkjun sem ríkisfyrirtæki alfarið í þessum skilningi. Ég velti því bara fyrir mér núna hvort þessi mál hafi verið uppi á borðum þegar Landsvirkjun var að semja við Norðurál um raforkuverð þegar rammasamningur var gerður hér fyrir líklega ári síðan eða einhvern tíma á síðasta ári.

Við höfum séð samninga um svo lágt raforkuverð við Landsvirkjun að augljóst er að það hlýtur að hafa verið pólitísk ákvörðun að gera slíka samninga og sú ákvörðun hefur í raun verið lögð á Landsvirkjun af þeim sem þar hafa ráðið á ýmsum tímum. Ég man ekki til þess að ég hafi fengið staðfestingu á því hvert raforkuverðið var þegar upphaflega var samið við Norðurál. Þó hef ég grun um að það sé mun lægra en það raforkuverð sem nú var verið að semja um fyrir nýja álverið fyrir austan. Þá spyr ég: Er þá endilega sanngjarnt að lækka líka skatt á þessum fyrirtækjum? Ég held að mörgum leiki forvitni á að vita af þessu því það er eins og menn séu svolítið fljótir til að koma til móts við hugmyndir um að lækka skatta á þessum fyrirtækjum. Það er bara hreint út sagt engin ástæða til að líta skattamál þessara fyrirtækja sömu augum og almenn skattamál fyrirtækja í landinu einfaldlega vegna þess að allt hefur þetta hangið saman.

Síðan langar mig að ræða aðeins um b-lið 3. gr. Þar er búið að semja um hvað eigi að greiða Hvalfjarðarstrandahreppi og Skilmannahreppi vegna fasteignagjalda. Ég get ekki annað en rifjað upp að stjórnvöld á Íslandi halda áfram að verðlauna lítil sveitarfélög með því að velja einhverjum stóriðjufyrirtækjum stað innan landamæra þessara litlu sveitarfélaga. Þessi litlu sveitarfélög sum hver hafa síðan haft mikla fjármuni. Þó að önnur sveitarfélög í nánasta nágrenni hafi í raun mjög litla fjármuni og lepji dauðann úr skel þá hefur verið hægt að malbika heim á hvern bæ í hinum. Á þessu máli hafa stjórnvöld greinilega ekki haft kjark til að taka. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það algjörlega furðulegt að ekki búið að gera það. Og nú eigum við von á enn einu gullsveitarfélaginu austur á landi af því að stjórnvöld eru svo vesöl að þau þora ekki að taka á þessum málum sem er hægt að gera með einföldum hætti, t.d. með því að breyta ákvæðinu um lágmarksfjölda í sveitarfélögum þannig að örfámenn sveitarfélög geti ekki lengur fengið allar tekjurnar af framkvæmdum sem ákveðið er á hv. Alþingi að fara í.

Varðandi lokalið 3. gr., e-liðinn, þá fór hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir yfir það mál áðan. Mig langar til þess að bæta aðeins við þá umræðu. Mér finnst hæstv. ráðherra ekki hafa útskýrt nákvæmlega hvað þetta þýðir. Ég hef þá kannski ekki verið til staðar, a.m.k. hér, og heyrt það og óska eftir því að hæstv. ráðherra útskýri betur hvað þetta þýðir. Ég sé að þarna stendur að slíka skatta og gjöld, þ.e. vegna útblásturs, megi ekki leggja á nema þeir séu lagðir á öll önnur fyrirtæki á landinu, þar með talin álfyrirtæki. Þetta ákvæði gildir því um allan rekstur á Íslandi. Það þarf sem sagt að horfa yfir allt sviðið.

Ég velti því fyrir mér hvað menn hafi eiginlega verið með í huga þegar þeir skrifuðu undir þetta. Meintu menn raunverulega að þetta ætti að gilda um öll fyrirtæki eða er hægt að setja almennt ákvæði sem segir eitthvað á þá leið að öll fyrirtæki á Íslandi sem setja meiri útblástur en tiltekið magn, tiltekinn tonnafjölda á ári, út í loftið, þurfi að borga tiltekið gjald? Mér finnst mjög mikilvægt hvort svar hæstv. ráðherra verður já við þessu því að ef svarið er nei þá er þetta ákvæði þvílíkt glapræði að Alþingi getur bara ekki samþykkt það, finnst mér. Ef menn líta raunverulega þannig á að þetta ákvæði þýði að setja verði einhvers konar mengunarreglugerðir og elta uppi hvert einasta smáfyrirtæki í landinu þar sem mengunin er kannski það lítil að hún skiptir sáralitlu máli í baráttunni við mengun almennt séð, þ.e. að setja þurfi upp þvílíkt bákn til þess að fylgja eftir einhvers konar löggjöf og reglugerðum um mengun á Íslandi vegna þess að menn hafa talið sig þurft að skrifa undir eitthvert ákvæði í tveimur samningum við tvö fyrirtæki sem hafa verið til umfjöllunar á hv. Alþingi núna. Þýðir þetta þetta? Þýðir þetta öll fyrirtæki eða þýðir það að hægt sé að setja reglugerð með almennt orðuðu ákvæði um að fari mengun yfir visst hámark þá verði menn að borga gjöldin? Ég vil skilja þetta ákvæði svona og tel ástæðu til þess að spyrja hæstv. ráðherra um þetta.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta. Ég endurtek að ég tel að skynsamlegt hafi verið af stjórnvöldum hér að reyna að tryggja stækkun þessarar verksmiðju, einfaldlega vegna þess að þessi atvinnurekstur er kominn hingað og full ástæða er til að standa við bakið á þessu fyrirtæki í þeirri viðleitni að gera þennan rekstur sem best samkeppnishæfan til framtíðar og mér sýnist að það sé að gerast. En ég sé ástæðu til að spyrja um þessi atriði sem ég hef hér nefnt og vonast eftir skýrum svörum.