Raforkuver

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:31:41 (4524)

2003-03-06 18:31:41# 128. lþ. 90.5 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:31]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú þannig að mér finnst betra að fá lögfest þessi atriði sem fram koma í frv. þrátt fyrir raforkulagafrv. sem er vonandi að koma frá nefnd. Ég vona að hv. þingmaður sætti sig við það svar að mér finnst það betra. Mér heyrist að henni þætti það verra. En svona er nú þetta. Hvort ég treysti þingmönnum betur en embættismönnum þá skiptir auðvitað miklu máli að treysta bæði embættismönnum og þingmönnum og þegar þeir leggja saman getur oft komið bara býsna gott út úr því. Þess vegna vænti ég þess að hv. iðnn. muni ásamt embættismönnum fara yfir þetta mál og vonandi sætta sig nokkurn veginn við það eins og það lítur úr þannig að það geti komið fljótlega frá nefndinni. Eins og ég hef sagt áður þá finnst mér þetta vera tiltölulega einfalt mál, en mikilvægt engu að síður. Þarna er um hagkvæma virkjanakosti að ræða.

Um það hvort búið sé að semja við fyrirtækið þá hafa samningar verið áritaðir af embættismönnum en ekki undirritaðir. Við erum því vissulega komin nokkuð á veg með að ljúka samningum við Norðurál, þannig að það liggi fyrir, og það hefði ég átt að vera búin að segja sjálfsagt fyrir löngu í umræðunni. En það fórst nú einhvern veginn fyrir.

Ég held að það sé nú aðallega þetta sem hv. þm. kom inn á. Hún talar um að enginn tími sé fyrir vönduð vinnubrögð. En eins og ég segi þá tel ég að þetta sé það einfalt mál að ég treysti iðnn., sem er mjög reynslurík orðin af að fjalla um mál sem þetta, ákaflega vel til þess að ljúka málinu á stuttum tíma.