Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:40:12 (4528)

2003-03-06 18:40:12# 128. lþ. 90.6 fundur 637. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:40]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til nýrra laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Frv. þetta er í meginatriðum samið af nefnd sem skipuð var 25. september 2001 og hafði það verkefni að endurskoða lög nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu árum í stjórnsýslu náttúruverndarmála, m.a. með nýjum lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999. Einnig var nefndinni falið að gera tillögur um framtíðarstarfsemi Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.

Í frv. er lagt til að gildissviði laganna verði breytt frá því sem nú er og þau taki í meginatriðum til Laxár, Mývatns og ýmissa nálægra votlendissvæða, en núgildandi lög ná til Laxár og Skútustaðahrepps alls. Gert er ráð fyrir að önnur svæði í Skútustaðahreppi sem hafa hátt verndargildi verði friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum og verður þegar hafist handa við þann undirbúning verði frv. þetta að lögum. Skal þeim friðlýsingum vera lokið fyrir 1. janúar 2007 samkvæmt bráðabirgðaákvæði frv. Auk þess er í frv. nýmæli um sérstaka vernd vatnasviðs Mývatns og Laxár.

Samkvæmt 3. gr. frv. verður óheimilt að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi á landsvæði sem afmarkast af Laxá, Mývatni og nálægum votlendissvæðum. Mörk þessa svæðis eru dregin á korti í fylgiskjali I með frv. Leita skal leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum á þessu svæði. Gert er ráð fyrir að efnislega sé um sambærilega vernd að ræða og er á svæðinu í dag.

Um vernd vatnasviðs Mývatns og Laxár er síðan fjallað í 4. gr. frv. og eru mörk þess dregin á korti í fylgiskjali II. Samkvæmt greininni skal forðast að valda spjöllum á vatnasviði Mývatns og Laxár sem raskað gæti vernd vatnsins og árinnar.

Nýmæli eru í 6. gr. frv. þar sem kveðið er á um gerð verndaráætlunar fyrir vatnasvið Mývatns og Laxár. Gert er ráð fyrir að starfsemi Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn verði óbreytt en stjórn hennar lögð niður. Í stað hennar verði skipað fagráð sem verður forstöðumanni til ráðgjafar um vísindastarf stofnunarinnar, rannsóknastefnu og fagleg tengsl við aðrar stofnanir sem stunda rannsóknir á svæðinu.

Gert er ráð fyrir að lög þessi taki gildi 1. október 2003.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frv. og ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hæstv. umhvn.