Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 19:54:18 (4535)

2003-03-06 19:54:18# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[19:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess sérstaklega, eins og frv. gerir ráð fyrir, að stofnað gæti verið til hlutafélaga sem ættu hafnir. --- Nú tel ég afar mikilvægt að hv. þm. hlusti vegna þeirrar fyrirspurnar sem hann lagði fyrir mig. --- En hv. þm. þekkir það mætavel frá störfum sínum að þeir sem leggja fjármagn inn í fyrirtæki, leggja fram fjármagn til framkvæmda, vilja yfirleitt fá eitthvað fyrir sinn snúð og þess vegna tel ég ekki óeðlilegt að greiddur sé arður af því fjármagni sem lagt er inn í hafnir. Ekki er verið að gera ráð fyrir því sérstaklega að allar hafnir verði hlutafélög, en við opnum þann möguleika og við teljum eins og skýrt kemur fram að eðlilegt sé að greiddur sé arður, svo framarlega sem tryggt verði að tekjurnar sem fást af hafnarstarfseminni séu fyrst notaðar til að byggja eðlilega upp þá þjónustu sem hafnirnar veita og kringum það er girt í frv.

En þegar hv. þm. vísaði til þess sem sagt var um að félögin gætu verið með mismunandi formi, þá á ég fyrst og fremst við um hlutafélög eða sameignarfélög og það eru þau form sem við þekkjum helst í fyrirtækjarekstri á Íslandi.

En ég tel að engin ástæða sé til að gera það tortryggilegt þótt einhverjar hafnir yrðu hlutafélög. Aðalatriði málsins er að sú löggjöf sem hér er verið að mæla fyrir setur mjög skýrar reglur um hlut ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum, hvernig reka eigi hafnirnar og hvernig þjónustunni eigi að vera háttað.