Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 19:58:12 (4537)

2003-03-06 19:58:12# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[19:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er akkúrat mergurinn málsins að ég er hér m.a. að tala fyrir hönd skattgreiðenda. Það er nefnilega þannig í dag að rekstur hafna á Íslandi er með þeim hætti að tekjurnar standa ekki undir rekstrarkostnaði og við erum hér að beita okkur fyrir því að gera á því breytingu. Það birtist þannig m.a. að sumar hafnir og sum sveitarfélög verða að nota útsvarstekjurnar til þess að standa undir uppbyggingu hafnanna og jafnvel rekstri hafnanna. Ég tel að það sé ekki eðlilegt að útsvarsgreiðendur, þ.e. skattgreiðendur, standi þannig undir rekstri hafnanna og standi þannig fyrir niðurgreiðslu, ríkisstyrkjum og sveitarfélagastyrkjum til sjávarútvegsins. Þess vegna er ég svo sannarlega fulltrúi skattgreiðenda þegar ég lít til þess og mæli með því að sjávarútvegurinn greiði stærri hlut í rekstri og uppbyggingu hafnanna á Íslandi í stað þess að seilast í vasa útsvarsgreiðenda til þess að standa í því.