Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:20:52 (4543)

2003-03-06 20:20:52# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, LB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:20]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil segja í upphafi máls míns um frv. til hafnalaga, mál sem við ræddum einnig fyrir ári, að það kom mér á óvart að þetta frv. skyldi koma fram á nýjan leik. Umfjöllunin um frumvarpið í fyrra leiddi í ljós að nánast allir sem komu að því fundu því flest til foráttu. Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að það kemur mér mjög á óvart að þetta mál skuli koma fram nú, þó ekki væri nema sökum þess að alþingiskosningar eru fram undan. Það er ekki laust við að maður fái á tilfinninguna að hæstv. samgrh. hafi verið plataður til þess að leggja þetta frv. fram.

Almennt vil ég segja, virðulegi forseti, og taka undir það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan, að kjarninn í þessu, meginstefnan, er sú að afnema ríkisstyrki til hafna. Það er kjarninn og meginþemað í frv. Ég hefði talið að slík grundvallarbreyting hefði þurft mun lengri aðdraganda en hér er gert ráð fyrir. Þetta er slík grundvallarbreyting að því er varðar aðstöðu sjávarbyggða landsins. Horfum til þess og veltum fyrir okkur því að hafnirnar eru lífæðar þessara byggða. Nyti hafnanna ekki við væri ólíklegt að þar hefði haldist byggð. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að etja þessum byggðum saman í samkeppni á þann hátt sem hér stefnir í verð ég að segja að það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Við verðum líka að horfa til þess að þróun íslenska skipastólsins, einkanlega fiskiskipastólsins, hefur verið í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað og flestir rekja til núverandi fiskveiðistjórnarkerfis. Skipum hefur verið að fækka og aflaheimildir færst á færri hendur. Það er því ljóst að samkeppnisstaða hafnanna hlýtur að vera mjög erfið. Það eru að verða til fáir stórir á þessu sviði sem mun gera það að verkum að samkeppnisstaða hafnanna verður erfið. Þegar höfnunum er teflt saman á þann hátt sem hér er lagt til er í raun verið að offra lífsbjörginni, ef svo má að orði komast, virðulegi forseti. Það verði að fara mjög vandlega yfir þetta mál. Svo stórt er það, stórt í sniðum og skiptir þessar byggðir það miklu máli.

Virðulegi forseti. Af þessum sökum kom það mér mjög á óvart að þetta mál skyldi koma fram og mælt skyldi fyrir því nú þegar um vika er eftir af þinginu, a.m.k. gera áætlanir ráð fyrir því. Þess vegna verður mjög erfitt fyrir samgn. að fara jafnítarlega yfir þetta mál og nauðsynlegt er.

Kannski endurspeglast markmið frv. best í athugasemdinni frá fjármálaráðuneytinu. Þar kemur fram að á þessu ári, verði frv. að lögum, muni sparast um 1.000 milljónir, þ.e. styrkveitingar til hafna á landsbyggðinni munu dragast saman sem því nemur.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þeim ásetningi og vilja manna til að spara. Ég er hins vegar ekki viss um að menn hafi hugsað þetta til enda. Ég held að enginn hér inni mótmæli því að það getur verið mikil áhætta í því fólgin að tefla höfnunum saman á þann hátt sem hér kemur fram. Ég er sammála því sem komið hefur fram hjá fyrri ræðumönnum, að í reynd séu engar forsendur fyrir samkeppni á þessu sviði, því að etja byggðunum saman. Byggðirnar eiga allt sitt undir því að hafnirnar nýtist og á land berist afli og annað þess háttar. Með þessu er verið að etja byggðunum saman og hugsanlega ýta til hliðar þeirri lífsbjörg sem þær eiga allt sitt undir.

Virðulegi forseti. Ég tel að menn hafi ekki hugsað þetta nægilega. Finnst mönnum ekki staðan á landsbyggðinni nægilega erfið þó að þessari hugmynd verði ekki hrint í framkvæmd? Þá tel ég miklu heiðarlegra og eðlilegra, úr því að menn vilja gera slíka aðför að landsbyggðinni, að menn teikni, líkt og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi í ræðu sinni áðan, bara nýtt Íslandskort. Menn gætu þá sett það nákvæmlega upp hvar eigi að vera byggð og hvar ekki. Ég held það sé miklu heiðarlegra en að etja byggðunum saman í samkeppni á þann hátt sem hugmyndin að baki þessu frv. gerir ráð fyrir. Ég held að væri miklu ærlegra að fara þá leið heldur en ætla byggðunum að éta hver aðra innan frá með þessum hætti.

Ég vil taka undir annað sem hér kom fram áðan. Ég er smeykur um að hæstv. samgrh. oftúlki mjög, svo ekki sé nú dýpra í árinni tekið, afstöðu Hafnasambandsins til þessa máls. Þegar þeir komu fyrir nefndina fyrir ári þá var afstaða þeirra sem töluðu fyrir Hafnasambandið allt önnur. Ég vil líka geta þess að ég sat hafnasambandsþing og heyrði þá gagnrýni sem þar kom fram. Það þarf mikinn vilja og jafnvel skáldskaparhæfileika til að geta túlkað það á þann hátt að hafnasambandsþingið hafi stutt hugmyndirnar í þessu frv.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég hef miklar áhyggjur af þessu frv. og veit að það mun kippa fótunum undan mörgum höfnum landsins. Þá spyr maður, virðulegi forseti: Hver verður staða byggðanna þá? Því verða menn að svara. Það má ekki bara etja mönnum á foraðið og vita ekki hvert þeir ætla.

Virðulegi forseti. Ég vil ekki segja að ekki kunni að koma til með að þurfa að gera einhverjar breytingar á þessu fyrirkomulagi. En ég er smeykur um að menn hafi ekki farið með þessa tilteknu hugsun nægjanlega langt. Maður spyr líka, í því ljósi að hafnir eru lífæðar þessara byggða: Hvað rekur menn í þetta núna, nokkrum dögum fyrir kosningar? Það verður mjög erfitt að fara vandlega yfir frumvarpið, einfaldlega vegna tímaskorts. Ég veit að formaður nefndarinnar, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, er allur af vilja gerður til að gera þetta eins vel og kostur er. Það er einfaldlega þannig að það er það skammur tími eftir af þinginu að okkur mun aldrei takast að fara yfir þetta frv. eins og nauðsyn krefur.

Í frv. er opnað á þann möguleika að breyta höfnum í hlutafélag. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að slá þann möguleika út af borðinu í einu vetfangi en ég held að við þurfum að hugsa vandlega til hvaða niðurstöðu það getur leitt. Við þurfum að hugsa það mjög vandlega og það verður ekki gert á þeim skamma tíma sem eftir er. Það verður líka að segjast að röksemdafærsla hæstv. ráðherra fyrir þeim möguleika var heldur létt í vasa.

Ég vil segja, við 1. umr., að ég hef miklar efasemdir um málið. Ég óttast að verði það að veruleika séum við að opna á nokkurs konar rússneska rúllettu þar sem ræðst hvaða byggðir lifa og hvaða byggðir deyja. Ég lít svo á að þetta sé það alvarlegt mál, virðulegi forseti, að þinginu sé ekki sæmandi að ætla sér að afgreiða það á þeim örfáu dögum sem eftir eru.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka tillit til þess hve skammt er eftir af þinginu. Þingið mun aldrei geta fjallað um þetta mál eins og þarf. Ég hvet hæstv. ráðherra til að draga úr áherslu sinni á að þetta frv. fari í gegn. Ég lít svo á, virðulegi forseti, að eins og málum er háttað nú sé það stórhættulegt.