Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:33:30 (4545)

2003-03-06 20:33:30# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, KVM
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:33]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða frv. til hafnalaga. Það sem mig langar til að nefna fyrst er um misjafna stöðu hafnanna í dag, viðhaldsstöðu. Við getum hugsað okkur höfn sem nýbúin er að fá mjög mikið fjármagn, það er búið að gera mjög mikið fyrir þá höfn en svo er önnur höfn sem á eftir að vinna mikið við til að hún komist í sambærilega stöðu: Hvernig er gert ráð fyrir því að þetta verði jafnað eða bætt? Við getum hugsað okkur að einn staður sé kannski með algjörlega nýuppgerða höfn og glæsilega vegna þess að það pláss var mjög heppið hvað tímasetningu varðar, en svo er kannski pláss í næsta nágrenni einmitt þannig statt að það verði að setja mikið í hafnarframkvæmdir þar. Þá getur verið um töluverðan mismun að ræða. Ég velti þessu hér upp.

Þetta frv. er í raun afleiðing kvótakerfisins sem við búum nú við. Við höfum séð hvernig togarar hafa flust frá byggðum sem hafa gefið tekjur. Við getum tekið Þingeyri sem dæmi þó það hafi nú lagast á vissan hátt, en þó ekki til eins góðs horfs. Við getum líka tekið stað þar sem togarar voru en eru farnir, í ýmsum þorpum, vegna þess að búið er að selja kvótann burtu sem þeir höfðu og kvótastaða byggðanna hefur minnkað. Það gerir það náttúrlega að verkum að þegar minna er landað þá verða tekjurnar minni.

Ég var aðallega að hugsa um þetta í sambandi við hina misjöfnu stöðu hafnanna eftir að þetta frv. verður orðið að lögum og hvernig eigi að bregðast við slíku.

Að öðru leyti ætla ég ekkert að tjá mig frekar um þetta mál.