Þriðja kynslóð farsíma

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 21:17:03 (4553)

2003-03-06 21:17:03# 128. lþ. 90.8 fundur 659. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[21:17]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að halda langa þar sem ræðu hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur farið ágætlega yfir þetta mál. Það er þó eitt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um, þ.e. hvernig hann líti á stöðu þeirra sem fái þessar úthlutanir að gildistímanum loknum. Ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra lýsi yfir því hvort hann telji að þeir sem fái þessar úthlutanir eigi einhvern rétt fram yfir aðra til að fá úthlutað að liðnu þessu tímabili.

Ég vil einnig segja að mér finnst það ekki öfundsvert hlutverk sem hæstv. ráðherra velur eftirmanni sínum, að skera úr um, eftir því fyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir hér, hverjir eigi að fá þessar úthlutanir. Þetta mun að lokum enda með einhvers konar handvali ef margir sækja um. Þessi stigagjöf sem hér er gert ráð fyrir og þær reglur sem menn eru að tala um að setja og hæstv. ráðherra fór yfir áðan, sem hann taldi rökstuðning fyrir því að fara þá leið, að hægt væri að gera ákveðnar kröfur til viðkomandi aðila um hvernig þeir stæðu að uppbyggingu og þjónustu. Þetta eru allt kröfur sem hægt er að setja fram og hafa innifaldar í að bjóða þetta upp og gefa markaðnum og þeim sem á honum ætla að starfa kost á að keppa eftir eðlilegum leikreglum um hverjir eigi að fá þetta hnoss.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki einn af þeim sem vilja endilega hafa vit fyrir mönnum í atvinnulífinu. Ég held að menn gangi of langt í því. Það er einfaldlega þannig að í samkeppnisþjóðfélagi verða menn að meta hlutina sjálfir. Þeir sem lána þeim peninga verða líka að meta aðstæður og það á að tryggja að teknar séu, svona í flestum tilfellum, sæmilega skynsamlegar ákvarðanir.

Hérna ætla stjórnvöld að hafa vit fyrir þeim fyrir fram sem eiga að veita þessa þjónustu og sjá til þess að þeir sem fá þessi réttindi, sem virðist vera aðaltilgangurinn með þessu frv., fái þau helst fyrir ekki neitt. Hugmyndin á bak við það er sú að neytendur muni þá fá betri þjónustu og lægri gjöld. Það getur út af fyrir sig verið ágætishugsun og afstaða, að vilja að neytendur njóti þessa. En það er alfarið undir samkeppnisumhverfinu komið hvaða verð verður innheimt af neytendunum. Þegar stjórnvöld úthluta gæðum, eins og hér er um að ræða, ber fyrst og fremst að ástunda réttlæti og jafnræði.

Ég held að með þessari aðferð sé verið að setja, eins og ég sagði áðan, eftirmann hæstv. ráðherra í verulegan vanda þegar hann þarf að fara að úthluta leyfunum. Þessar reglur verða örugglega umdeildar. Það er spurning og hæstv. ráðherra fer kannski betur yfir á eftir, þ.e. af hverju ásarnir verða fjórir en ekki eitthvað annað, og þjónustuhlutverkin skilgreind í þessum fjórum hólfum sem þarna verða til. Ég veit ekki með hvaða hætti menn hafa komist að niðurstöðu um að þetta væri nákvæmlega það sem þessi markaður þyrfti á að halda. Það væri fróðlegt að heyra meira um það.

Áhyggjur mínar snúa fyrst og fremst að því að mér finnst að þarna hafi stjórnvöld ekki jafnræði í huga. Ég tel að menn séu þarna að grípa inn í markaðinn með aðferðum sem yfirleitt beri að reyna að forðast og menn séu að reyna að hafa vit fyrir þeim sem stunda atvinnurekstur af þessu tagi og hafa áhuga á að taka að sér að veita þessa þjónustu. Það eiga menn bara hreinlega ekki að gera. Það er ekki hlutverk stjórnvalda að hafa vit fyrir markaðnum.