Þriðja kynslóð farsíma

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 21:32:11 (4556)

2003-03-06 21:32:11# 128. lþ. 90.8 fundur 659. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[21:32]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er engin skuldbinding af hálfu stjórnvalda gagnvart því að áfram verði þróun í farsímatækninni. Við sjáum bara hvað er að gerast í dag. NMT-kerfið er að draga sig í hlé ef svo mætti segja. Við gerum ráð fyrir því að hér komi þriðja kynslóðin. Hún kemur ofan í GSM-símakerfið, 900 og 1.800 kerfin og hina svokölluðu ,,kynslóð tvö og hálft``, þ.e. GPRS-tæknina sem hefur verið til staðar en ekkert orðið úr í raun og veru. Þessi þróun heldur því áfram.

Stjórnvöld bjóða út leyfi fyrir GSM-símanum 900 og 1.800 og svo núna þessari þriðju kynslóð án allra skilyrða. Símafyrirtækin verða að sæta því að áframhaldandi þróun eigi sér stað og áður en langt um líður gæti komið fjórða kynslóðin í þessum kerfum. Áhættan liggur því hjá símafyrirtækjunum. Ég tel að því beri að fagna að tækninni fleygi fram. Stjórnvöld geta ekki tekið á sig neinar skuldbindingar sem tengjast því að fram komi ný tækni sem ryður hinni gömlu úr vegi.