Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 10:31:14 (4559)

2003-03-10 10:31:14# 128. lþ. 93.2 fundur 675. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (endurútgáfa) frv. 22/2003, Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[10:31]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem efh. og viðskn. flytur. Þannig er að með lögum nr. 133/2001 og lögum nr. 152/2002, um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, var ákveðið að endurútgefa lög um tekjuskatt og eignarskatt.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum í tengslum við fyrirhugaða endurútgáfu á þeim. Ekki er um efnisbreytingar á lögunum að ræða, heldur einungis einfaldar lagfæringar, svo sem uppfærslu á tilvísunum í lög sem fallið hafa úr gildi og niðurfellingu eða breytingar á ákvæðum sem láðst hefur að gera í tengslum við aðrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt eða í tengslum við breytingar á öðrum lögum.