2003-03-10 12:20:40# 128. lþ. 93.34 fundur 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv. 35/2003, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:20]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. á þskj. 1003 um frv. til laga um breytingar á ákvæðum laga um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur er varða skráningu þessara félaga og stofnana.

Nefndin fékk góða gesti á sinn fund þar sem farið var gaumgæfilega yfir málið.

Meginmarkmið frumvarpsins er að færa skráningu hlutafélaga, einkahlutafélaga, samvinnufélaga og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur frá Hagstofu Íslands til embættis ríkisskattstjóra. Samhliða er flutt frumvarp til laga um fyrirtækjaskrá en þar er lagt til að ríkisskattstjóri annist framvegis færslu fyrirtækjaskrár og útgáfu kennitalna til fyrirtækja, stofnana og annarra aðila samkvæmt nánari ákvæðum þar að lútandi. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það sé liður í framkvæmd þeirrar stefnu sem lýst var í athugasemdum við frumvarp um afnám laga um Þjóðhagsstofnun og felst í því að ná fram frekari hagræðingu í stjórnsýslunni og styrkja um leið hagskýrslugerð með því að endurskipuleggja Hagstofu Íslands og flytja frá henni verkefni sem tilheyra ekki lengur þeirri starfsemi.

Samkvæmt gildandi lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur fer ráðherra Hagstofu Íslands með mál er varða skráningu þessara félaga og stofnana en viðskiptaráðherra fer með málefni þeirra að öðru leyti. Í frumvarpinu er lagt til að hlutaðeigandi lagaákvæðum verði breytt á þann hátt að fjármálaráðherra fari hér eftir með mál sem varða þessa skráningu í stað ráðherra Hagstofu Íslands. Jafnframt er lagt til að núverandi reglugerðarheimildir ráðherra Hagstofu Íslands samkvæmt fyrrgreindum lögum færist til fjármálaráðherra í samræmi við flutning þessara verkefna.

Nefndin tekur undir markmið frumvarpsins og telur þau eðlileg í þeim tilgangi að efla hagskýrsluhlutverk Hagstofunnar.

Bent hefur verið á nauðsyn þess að breyta gildistöku\-ákvæði laganna þannig að yfirfærsla umræddra verkefna verði hnökralaus. Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi breytingu:

Í stað dagsetningarinnar ,,1. apríl 2003`` í 10. gr. komi: 1. júlí 2003.

Þetta var samhljóða álit frá hv. allshn.