Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:26:40 (4598)

2003-03-10 12:26:40# 128. lþ. 93.36 fundur 353. mál: #A almenn hegningarlög# (brot í opinberu starfi) frv. 54/2003, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:26]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, sem lúta að broti í opinberu starfi.

Við fengum í hv. allshn. á fund til okkar fulltrúa dómsmrn., Rögnu Árnadóttur, og Róbert R. Spanó, sem er núna starfsmaður hjá umboðsmanni Alþingis. Einnig fengum við umsagnir frá Landssambandi lögreglumanna, Sýslumannafélagi Íslands, lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, ríkissaksóknara, Bandalagi háskólamanna, Póst- og fjarskiptastofnun og Lögmannafélagi Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á XIV. kafla almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Helsta markmið frumvarpsins er að afmarka nánar hugtakið opinber starfsmaður í nánar tilgreindum ákvæðum kaflans þannig að skilgreining þess hóps opinberra starfsmanna sem ákvæði kaflans taka til verði skýrari. Þá eru lagðar til orðalagsbreytingar á nokkrum stöðum jafnframt því sem það er fært til nútímalegra horfs.

Helstu ástæður framangreindra breytinga eru þær að oft hefur skapast vandamál við ákvörðun þess hvort einstaklingur sé opinber starfsmaður í refsiréttarlegu tilliti. Með frumvarpinu er því lögð til sérstök refsiréttartúlkun á hugtakinu opinber starfsmaður og jafnframt orðuð sú leiðbeiningarregla að aðeins þeir opinberu starfsmenn sem fengið hafa heimildir að lögum til að geta tekið eða hafa áhrif á ákvarðanir um réttindi og skyldur einstaklinga eða lögaðila eða ráðstafa eða hafa áhrif á ráðstöfun opinberra hagsmuna verði taldir opinberir starfsmenn í þessum skilningi nema annað verði skýrlega ráðið af túlkun á einstökum refsiákvæðum.

Með hliðsjón af þeirri almennu leiðbeiningarreglu sem hér um ræðir er lögð á það áhersla að við mat á því hvort tiltekið refsiákvæði XIV. kafla hegningarlaga eigi við um háttsemi starfsmanns hins opinbera verði að taka sérstaklega til skoðunar hvort honum hafi með lögum í rýmri merkingu verið veittar valdheimildir sem hafi til að bera þau einkenni sem lýst var hér að framan. Þetta á þó aðeins við þegar ákvæði XIV. kafla hegningarlaga hafa að geyma almenna afmörkun á hugtakinu opinber starfsmaður án nánari skýrgreiningar en ekki þegar hlutaðeigandi refsiákvæði kveða skýrt á um tilgreinda starfsmenn hins opinbera.

Loks er lagt til í frumvarpinu að gildissvið 133. gr. hegningarlaga um opinberan starfsmann sem gætir fanga verði rýmkað og nái nú einnig til þess þegar opinber starfsmaður hefur það verkefni að gæta sakbornings sem sviptur hefur verið frelsi sínu. Að gefnu tilefni skal tekið fram að hugtakið sakborningur hefur ákveðna refsiréttarlega merkingu og er notað um þann einstakling sem grunaður er um refsiverða háttsemi. Hér er því t.d. ekki átt við einstakling sem vistaður er í fangageymslu vegna ölvunar eða óspekta á almannafæri. Þótti nefndinni rétt að taka þetta skýrlega fram, m.a. vegna ábendinga frá Landssambandi lögreglumanna. Þegar gerður var samanburður á 133. gr. hegningarlaga og samsvarandi ákvæði 149. gr. dönsku hegningarlaganna kom í ljós að íslenska ákvæðið var efnislega þrengra. Þannig tekur danska ákvæðið samkvæmt orðalagi sínu og mati fræðimanna einnig til sakborninga á rannsóknarstigi máls, hvort sem um er að ræða gæsluvarðhaldsfanga eða sakborninga sem vistaðir eru í fangageymslu án þess að gæsluvarðhaldsúrskurður liggi fyrir. Danska ákvæðið var fyrirmynd hins íslenska ákvæðis þegar það var sett og því eru lagðar til framangreindar breytingar.

[12:30]

Þá hefur komið fram nauðsyn þess að lagfæra orðalag og efnisatriði í 5. gr. frumvarpsins sem og í 137. gr. laganna. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að nýjum málslið verði bætt við 137. gr. laganna. Þar er fjallað um starfsmann lögaðila sem fengið hefur opinbert leyfi til póstdreifingar eða til að annast fjarskipti á grundvelli slíks leyfis. Hugtakið póstdreifing er notað yfir afmarkaðan þátt póstþjónustunnar, þ.e. dreifinguna sem slíka. Í 4. gr. laga um póstþjónustu, nr. 19/2002, er póstþjónusta skilgreind sem þjónusta sem nær til móttöku og söfnunar, flokkunar, flutnings og skila á póstsendingum gegn greiðslu. Rekstrarleyfi eru gefin út til þeirra sem sinna póstþjónustu samkvæmt þessari skilgreiningu. Því leggur nefndin til að í stað hugtaksins póstdreifing komi póstþjónusta.

Þá hefur verið bent á að um langt skeið hefur póstdreifing í dreifbýli verið unnin af verktökum, t.d. eru allir svokallaðir landpóstar Íslandspósts verktakar. Þeir mundu þar af leiðandi ekki falla undir hugtakið starfsmenn lögaðila í 5. gr. frumvarpsins og verknaðarlýsing ákvæðisins tæki því ekki til þeirra. Því er lögð til sú breyting að það sé hafið yfir allan vafa að þeir sem sinna póstþjónustu eða fjarskiptum sem verktakar falli einnig undir 137. gr. almennra hegningarlaga.

Jafnframt hefur komið fram að hugtakið símamálefni í 137. gr. laganna er hvergi notað í núverandi löggjöf um fjarskipti. Samkvæmt orðsins hljóðan nær hugtakið líklega aðeins til hefðbundinnar talsímaþjónustu, þ.e. tals á milli tveggja manna. Fjarskipti í nútímaskilningi eru hins vegar orðin miklu víðtækari, t.d. gagnaflutningur, tölvupóstsendingar o.fl. Í 3. gr. laga nr. 107/1999, um fjarskipti, eru hugtökin fjarskipti og fjarskiptaþjónusta skilgreind á eftirfarandi hátt: ,,Fjarskipti: Hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum, með þráðlausri útbreiðslu eða öðrum rafsegulkerfum.`` ,,Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum, öðrum en sjónvarpi eða hljóðvarpi.`` Þá er í 137. gr. fjallað um símamálefni. Með hliðsjón af því sem að framan greinir leggur nefndin til að í stað orðanna ,,póst- eða símamálefni`` komi orðin póst- eða fjarskipta þjónustu til að samræmis sé gætt.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem kveður á um í viðkomandi þingskjali.

Hv. allshn. leggur því til þessar breytingar og mælir með samþykkt frumvarpsins. En ég vil geta þess að þetta álit frá hv. allshn. er samhljóða og var m.a. Ögmundur Jónasson áheyrnarfulltrúi samþykkur afgreiðslu þessa máls.