Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:36:57 (4600)

2003-03-10 12:36:57# 128. lþ. 93.36 fundur 353. mál: #A almenn hegningarlög# (brot í opinberu starfi) frv. 54/2003, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:36]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að hafa vakið athygli á þessu. Þetta er einmitt eitt af þeim atriðum sem við ræddum sérstaklega í nefndinni, fórum mjög vel yfir og hnykkjum sem sagt sérstaklega á því að hugsunin er hverjir fara virkilega með opinbert vald. Í þessu samhengi er afskaplega mikilvægt að refsiheimildirnar séu skýrar og skýrleiki þeirra merkjanlegur.

Við erum með þessu í raun ekki að skoða stöðu viðkomandi launamanns sem slíka, eins og í þeim tilvikum sem hv. þm. nefndi þegar búið er að færa valdið frá póstinum yfir til verktaka og einkaaðila, heldur er í raun skoðað hverju sinni hvort viðkomandi einstaklingur fari raunverulega með opinbert vald og geti ráðstafað opinberum fjármunum og hagsmunum. Í þessu tilviki vil ég m.a. benda á nokkuð nýlegan hæstaréttardóm sem kemur m.a. inn á þetta þar sem verið er að reyna að skilgreina betur hugtakið opinber starfsmaður.

Tilgangurinn með þessu frv. er einmitt að reyna að afmarka betur nákvæmlega hver er opinber starfsmaður. Fer hann raunverulega með opinbert vald og getur hann ráðstafað opinberum hagsmunum? Ef svo er þá er hann opinber, þ.e. þá fellur hann undir þessa skilgreiningu, hugtakið opinber starfsmaður. Þar af leiðandi ber hann refsiábyrgð sem slíkur.