Kosningar til Alþingis

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:51:45 (4607)

2003-03-10 12:51:45# 128. lþ. 93.37 fundur 391. mál: #A kosningar til Alþingis# (talning atkvæða, kjörseðlar o.fl.) frv. 15/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:51]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þessi sjónarmið hv. þm. Ég vil bara árétta þessa stöðu varðandi utankjörfundaratkvæðagreiðsluna. Framkvæmd hennar virðist allt of óviss. Það að svo mörg atkvæði, hvort sem er við sveitarstjórnarkosningar eða kosningar til Alþingis, valdi deilum og séu dæmd ógild vegna einhverra tæknilegra atriða er afar ósanngjarnt. Ég tek undir með hv. þingmanni með að það á að lágmarka hættuna á því. Í tengslum við utankjörfundaratkvæðagreiðslu til Alþingis er t.d. tvö- eða þreföldun á umslögum. Verði eitthvert nafnabrengl eða misvísun á nöfnum er atkvæðið ógilt.

Hvort sem það kemst inn í þetta nál. eða ekki tel ég, í ljósi reynslunnar, bæði af sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum, að það sé full ástæða til að taka á þessu með framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslna þannig að hættan á að viðkomandi atkvæði verði ógild verði algjörlega lágmörkuð. Ég tel ástæðu til að á þessum málum sé tekið.