Umferðarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:57:50 (4609)

2003-03-10 12:57:50# 128. lþ. 93.38 fundur 489. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur) frv. 26/2003, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:57]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. um frv. til laga um breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987, er sérstaklega lúta að meðferð bótakrafna vegna tjóna erlendis.

Meginmarkmið frumvarpsins er að auðvelda tjónþola að fá bætur vegna umferðarslyss í EES-ríkjum og Sviss. Lagt er til að dómsmálaráðherra viðurkenni svonefndan tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöð í þessu skyni. Ekki er þó gert ráð fyrir að komið verði á fót opinberri stofnun heldur að samtökin Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. annist þetta hlutverk.

Tilefni frumvarpsins er innleiðing tilskipunar 2000/26/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja, og um breytingar á tilskipunum 73/239/EBE og 88/237/EBE, svokallaðrar fjórðu tilskipunar um ökutækjatryggingar. Lagt er til að sömu ákvæði um ábyrgðartryggingu ökutækja og gilda nú gagnvart EES-ríkjunum gildi einnig gagnvart EFTA-ríkjunum sem ekki eru aðilar að EES, þ.e. Sviss, í samræmi við ákvæði hins nýja stofnsamnings EFTA, Vaduz-samningsins sem ég gat um fyrr í dag.

Þá er lagt til með frumvarpinu að lagastoð nokkurra reglna varðandi vátryggingarskylduna verði styrkt, svo sem að því er varðar hvaða vátryggingafélög annast lögmæltar ökutækjatryggingar, og kveðið á um skylduaðild vátryggingafélaga sem taka að sér ábyrgðartryggingu skráningarskyldra vélknúinna ökutækja að samtökunum Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sf. Loks er lagt til að felld verði niður sérstök viðurkenning eða skráning dómsmálaráðherra á vátryggingafélögum sem annast lögmæltar ökutækjatryggingar. Áskilnaður um viðurkenningu dómsmálaráðuneytisins á vátryggingafélagi sem annast ábyrgðartryggingu skráningarskyldra ökutækja er frá þeim tíma þegar vátryggingafélög þurftu ekki sérstakt leyfi til að annast vátryggingastarfsemi. Með núgildandi skipan á starfsleyfi til vátryggingastarfsemi verður ekki talin þörf á að áskilja sérstaka viðurkenningu dómsmálaráðherra vegna þeirrar tegundar vátrygginga sem hér um ræðir.

Fram hefur komið ábending um að í stað hugtaksins ,,tjónsuppgjörsaðili`` í frumvarpinu færi betur að nota hugtakið ,,tjónsuppgjörsmiðstöð`` þar sem fyrra hugtakið þykir of líkt hugtakinu ,,tjónsuppgjörsfulltrúi`` sem jafnframt er notað í frumvarpinu. Nefndin leggur til breytingu hvað þetta varðar.

Komið hefur fram að tilnefning tjónsuppgjörsfulltrúa og stofnun tjónsuppgjörsmiðstöðvar í öllum EES- og EFTA-ríkjunum muni auðvelda tjónþola að reka bótakröfu sína eftir umferðarslys í öðru aðildarríki. Það er mat nefndarinnar að þetta sé til mikilla bóta jafnframt því sem tjónþoli þurfi þá ekki lengur að reka kröfu sína gagnvart erlendu vátryggingafélagi, sem getur skapað misskilning vegna tungumálaerfiðleika, heldur getur hann rekið málið gagnvart tjónsuppgjörsfulltrúa vátryggingafélagsins í heimalandi sínu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi breytingum:

1. Í stað orðsins ,,tjónsuppgjörsaðila`` í 2. efnismgr. 1. gr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi í viðeigandi falli: tjónsuppgjörsmiðstöð.

2. Við 3. mgr. a-liðar 5. gr. bætist: nr. 60/1994.

Eins og ég hef áður getið, herra forseti, er þetta nál. samþykkt samhljóða frá hv. allshn.