Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 15:35:42 (4615)

2003-03-10 15:35:42# 128. lþ. 93.39 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv. 40/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[15:35]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. um ástandið í Svíþjóð þá hef ég ekki yfir að ráða þykkum skýrslum. En ég hef heyrt vitnað til þeirra, m.a. af þingmanni Evrópuþingsins, Marianne Eriksson, sem hefur lagt gjörva hönd á plóg í þessum málum. Síðast í október eða nóvember þegar ég sat ráðstefnu með henni vitnaði hún til þeirra rannsókna sem gerðar hefðu verið og sagði nákvæmlega það sem ég vék að í ræðu minni, ástandið í Svíþjóð væri nú þannig að tilfallandi götuvændi virtist heyra sögunni til og mansalið sæist ekki orðið vegna þess að glæpamennirnir virtust sniðganga Svíþjóð.

Auðvitað er það rétt sem hv. þm. bendir á, að það geti verið vegna áhrifa frá Svíþjóð sem ástandið í Finnlandi er að versna. Þess vegna er áskorunin á Finna núna mjög sterk að fara sömu leið og Svíarnir, og á Norðmennina, Danina og okkur Íslendinga. Þrýstingurinn á Norðurlandaþjóðirnar að fara sænsku leiðina er gífurlega sterkur. Það er mikill þrýstingur frá kvennahreyfingum í Skandinavíu um að þessi leið verði innleidd því að hún virðist virka.

Það sem eftir er í Svíþjóð núna er auðvitað dekksti hluti vændisins, þ.e. sá sem hefur alla tíð verið neðan jarðar. Hann var ekki á yfirborðinu, þ.e. óhugnanlegasti hluti vændisins sem grafinn er djúpt niðri, hann er enn til staðar. Þannig er meiri hætta fyrir það fólk sem er í vændi nú þegar ekkert val er til staðar. En sannleikurinn er sá að þessi lagasetning gerir mjög mikið gagn og nú segir lögreglan í Svíþjóð: Nú þurfum við bara að ráðast gegn þessum dökku hliðum sem við höfum auðvitað alla tíð vitað af en hefur ekki verið ráðist gegn. Nú vilja Svíar fara að ráðast gegn þessu neðanjarðarvændi.

En ég vil spyrja hv. þm. í lok þessa andsvars: Ætlar hún að bíða eftir skýrslunum sem hana vantar frá Svíþjóð áður en hún getur samþykkt brtt. af því tagi sem ég hef lagt fram?