Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 15:37:50 (4616)

2003-03-10 15:37:50# 128. lþ. 93.39 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv. 40/2003, GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er best að ég byrji á því að fara inn á netið og reyna að ná í þessa rannsókn Marianne Eriksson. Ég vil fá þær og ég er ekki ein um það, af og frá.

Ég er heldur ekki gegn því að vændismennirnir séu teknir til bæna, af og frá. Ég hefði bara viljað undirbyggja málið aðeins betur. Hér á kantinum situr t.d. embættismaður ráðuneytisins. Það er spurning hvort ekki sé hægt að kalla eftir slíku hér, að hann fái bæði ræður og þær rannsóknir sem Marianne Eriksson er að vitna til. Það er heldur ekki hægt að fjalla um þetta án þess að skoða niðurstöðu rannsókna. Ég vil meina að það hljóti að vera komnar einhverjar rannsóknir. Það er bara eðli Svíanna. Þeir gera heldur ekki neitt nema þeir undirbyggi það, það er alveg á hreinu.

Þó að mansalið og vændið séu grein af sama meiði þá er mansalið samt sem áður annað. Við þekkjum það, þar sem konur eru lokaðar inni, í heilu húsunum sem bara hermönnum er veittur aðgangur að. Það hefur verið að gerast í Lettlandi, Litháen, Þýskalandi jafnvel og Frakklandi. Þannig er þetta líka lagskipt í mansalinu, mjög lagskipt. Við vitum heldur ekkert um það hvort sá angi sé t.d. ekki enn í Svíþjóð. Auðvitað fá þeir götuvændið í burtu og það er æðislegt. Aðalatriðið er samt að þær konur fái þá stuðning til að losa sig út úr þeim vítahring sem þær lenda í. Mér finnst það númer eitt, tvö og þrjú.