Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:05:39 (4621)

2003-03-10 16:05:39# 128. lþ. 93.39 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv. 40/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:05]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á að auðvitað þyrftum við að afla upplýsinga frá Svíþjóð um hvernig málin stæðu og sömuleiðis frá öðrum Norðurlöndum. Hún benti á að eingöngu væri búið að lögleiða þessa aðferð í Svíþjóð og það hlyti að vera einhver ástæða fyrir því að það hefði ekki verið gert annars staðar á Norðurlöndunum.

Ég get upplýst það hér að ég er með útskrift af grein úr Politiken frá 17. september 2002 en þar kemur fram að sósíaldemókratinn Mette Frederiksen hefur verið að leggja fram tillögur um að banna kaup á vændi í Danmörku. Það kemur fram í greininni að um þetta standi deilur í Danmörku þar sem Venstre séu algerlega á öndverðum meiði við Mette Frederiksen. Þeir vilji láta lögleiða vændi. Í þessari grein kemur líka fram að kannanir sem gerðar hafa verið eftir að lögleiddar voru í Svíþjóð refsingar við því að kaupa vændi sýni --- þetta eru greinilega kannanir frá því snemma á síðasta ári --- að götuvændi hafi minnkað um 30% í Svíþjóð. Það er búið að greina þetta alveg niður prósentuvís. Síðan greinir frá því í lokin að svipuð tillaga sé í undirbúningi á finnska þinginu. Það má taka fram þessa grein úr Politiken til marks um að bæði í Danmörku og í Finnlandi eru tillögur komnar fram eða að koma fram um að fara sömu leið. Ég sagði áðan að um þetta eru til bæði skýrslur og blaðagreinar sem hægt er að vitna til. Hér er bara ein sem ég var af tilviljun með í pappírunum mínum. Eins og ég segi eru þær mikið fleiri og það er ekki erfitt að nálgast þessar upplýsingar.