Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:34:58 (4626)

2003-03-10 16:34:58# 128. lþ. 93.26 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv. 55/2003, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:34]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns umhvn. skrifaði ég undir nál. sem hv. þm. Magnús Stefánsson mælti fyrir. Ég kem í ræðustól til að leggja áherslu á mikilvægi og tilgang þessarar lagasetningar sem hér verður væntanlega afgreidd innan skamms. Í nál. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og valdi ekki mengun. Auk þess er það markmið laganna að draga skipulega úr myndun úrgangsefna eftir því sem unnt er með endurnotkun og endurnýtingu.``

Hér er kominn kjarni þessarar lagasetningar, herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að ítreka að markmið þessara laga er ekki síst að draga úr myndun úrgangs og efla endurnýtingu með öllum hætti. Það kemur skýrt fram í þeim tilskipunum sem hér eru lagðar til grundvallar. Eins og fleira sem afgreitt hefur verið í umhvn. á liðnum missirum á þessi lagasetning rætur sínar í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta er nokkuð flókin lagasetning sem krefst margra reglugerða og nokkuð flókinna útfærslna í reglugerð. Það er mjög mikilvægt að andi lagasetningarinnar, markmið hennar eins og kveðið er á um í tilskipuninni, fylgi alla leið, ef þannig má að orði komast, og týnist ekki í reglugerðarfargani þegar fram líða stundir.

Til þess að draga úr magni úrgangs, t.d. lífræns úrgangs, þarf að flokka sorp í sveitarfélögum. Sú aðgerð krefst endurskipulagningar og allnokkurs stofnkostnaðar hjá sveitarfélögum um allt land. Við vitum sem er að sveitarfélögin eru mjög misvel í stakk búin til að fást við svo stórt verkefni. En ég fullyrði að það leiði til sparnaðar þegar til langs tíma er litið. Sorpið minnkar þegar til langs tíma er litið.

Ég fagna því að náðst hefur samstaða bráðabirgðaákvæði í nefndinni, sem fram kemur í brtt., að koma á fót samráðsnefnd umhvrn. og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fylgi eftir framkvæmd þessara laga. Þessi lagasetning mun hafa mikil áhrif á áætlanir, útgjöld, aukinn kostnað sveitarfélaganna og að sjálfsögðu á líf almennra borgara.

Ég vildi koma upp, hæstv. forseti, til að hnykkja á þessum einföldu atriðum sem krefjast samt flókinnar lagasetningar og eins og ég áður sagði reglugerða sem fylgja þarf eftir. Það er ástæða til að minna á að markmið lagasetningarinnar er í sjálfu sér ekki flókið. Það er útfærslan hins vegar.